Af og til lendi ég í því að fá óstjórnleg hlátursköst. Hef verið svona síðan ég var krakki. Ég lít á sjálfa mig sem fórnarlamb tilviljanakenndra hláturskasta. Þetta er ákveðið ástand. Mamma er svona líka, nokkrar frænkur og dóttir mín. Bara kvenfólk sem sagt.
Og köstin geta bókstaflega verið óstjórnleg. Maður verður fangi kastsins og getur ekkert gert. Þetta brestur á við ýmis tækifæri, hvort sem maður er einn að með fleirum.
Ein frænka mín sem er haldin þessu heilkenni heldur áfram að tala þó kastið sé hafið og öll von úti og veinar áfram óskiljanleg orð, oftast uppi á háa C-i. Ef systir hennar er á svæðinu tekur hún undir með álíka látum, ég auðvitað líka, og í lokin segir mamma hennar stutta útgáfu af sögunni þegar hún er spurð hvort kalla eigi á sjúkrabíl. Þetta er ákveðið ferli.
Það góða við að vera í fjölskylduboði í kasti er að þar er fólk sem skilur mann. Eða tja, er allavega vant þessu. „Jæja, byrja þær!“. Þá er kannski verið að tala um verkalýðsbaráttu og önnur álíka alvarleg mál sem eru í sjálfu sér ekkert fyndin. Þeir sem ekki hlæja með eru pottþétt oft soldið þreyttir á þessu. Þú situr og ræðir málin í fullri alvöru þegar skyndilega brestur á með veinandi hláturskasti í hópnum. Það hlýtur að vera pirrandi.
Það höfðu til dæmis ekki allir viðstaddir húmor fyrir því þegar nokkrar okkar fengum ofboðslegt hláturskast þar sem fjölskyldan hittist eftir andlát ömmu hér um árið.
Ég hef verið á vinnustað, tiltölulega nýbyrjuð og þekkti ekki marga, og gjörsamlega bilast úr hlátri. Hef ekki getað stoppað og þurft að fara afsíðis til að jafna mig. Oft dugar það ekki til. Ég held kannski ég sé búin að ná að róa mig og kastið sé liðið hjá, ég sest aftur á mína vinnustöð en skyndilega frussast annað hláturskast upp og út og allt byrjar uppá nýtt.
Þegar ég síðan er spurð eftir á hvað var svona fyndið, því nærstaddir halda allir að ég sé að hlæja að þeim, þá get ég ekki einu sinni útskýrt það. Ég er ekki með svona þróaðan húmor, hann meikar bara ekki alltaf sens.
Eitt er það sem ég hef ekki getað gert árum saman og það er að fara í lyftu með mömmu minni, ef fleira fólk er með. Við bjuggum um tíma á fimmtu hæð í lyftublokk og þurftum þá oft að fara upp í sitthvoru lagi. Ég þóttist kannski fara í póstkassann á meðan hún fór upp. Svo biluðumst við þegar við höfðum lokað að okkur heima.
Þetta er náttúrlega ekki hægt. Sem betur fer er mamma enn svo hress, en hvað gerist ef ég þarf að fylgja henni fótafúinni í lyftur? Ekki get ég beðið dóttur mína, hún er ekkert skárri. Strákarnir taka þetta þá að sér, þeir fá ekki svona óstjórnleg köst. Nema ég láti bara vaða!
Undir ákveðnum kringumstæðum get ég alls ekki horft í áttina að mömmu eða dóttur minni, þá er voðinn vís. Læknabiðstofur er sérlega hættulegar, sem og allir staðir þar sem ætlast er til að maður hafi hljóð og hagi sér vel.
Ég gerði tilraun til að fara í háskólanám þarna rétt eftir hrun. Lesstofur og fyrirlestrasalir eru martröð fórnarlamba hláturskasta. Alveg á pari við lyftur og læknastofur. Það er ekkert spes að missa stjórn á sér með frussi og tárum í miðjum fyrirlestri um áföll, sorg og sálræna skyndihjálp.
Eitt sinn þurfti ég að yfirgefa salinn á tónlistarverðlaunum, sitjandi á miðjum bekk. Það var erfitt. Að reyna að halda andliti á meðan ég beið eftir að fólk stæði upp og fikraði mig að tröppunum. Ég býst við að einhverjir hafi haldið að ég væri hágrátandi, hafi kannski misst af verðlaunum sem ég þráði eða eitthvað.
Undarlegasta hugmynd, miðað við reynsluna, sem ég og ein frænka mín og félagi í hláturskastshópnum fengum fyrir nokkrum árum, var að fara saman í Rope jóga. Við skiljum ekki enn hvernig okkur datt í hug að við gætum verið saman í svona tímum. Enda slitnaði hratt uppúr þessu.
Í vetur sló aftur útí fyrir mér þegar ég fór með dóttur minni í prufutíma í jóga. Allt gekk vel þar til kom að slökunarkortérinu í lokin. Ég var komin fram innan fimm mínútna, tárvot af hlátri, og dóttirin skömmu síðar.
Jóga með fjölskyldumeðlimum er fullreynt.
Nú stendur fyrir dyrum ferming í fjölskyldunni. Ég býst við að svona til að byrja með reyni ég að forðast augnkontakt við eina frænkuna sérstaklega. Tala nú ekki um ef hún er, einu sinni sem oftar, að tala um grafalvarleg verkalýðsmál. Hún ræður nefnilega enn verr við sig en ég. Ég ætla ekkert að skemma það fyrir henni.
Og þó.