Kvennablaðið birtir valin kafla úr bók Héðins Unnsteinssonar Vertu úlfur sem vakið hefur verðskulduga athygli.
Á heilsuhælinu var tekið vel á móti mér. Þar dvaldi ég í tíu daga ásamt fólki á öllum aldri. Ég sótti í kyrrð og myrkur, vildi forðast allt áreiti af völdum ljóss, hljóðs, rafmagns eða rafsegulssviðs. Herbergið mitt var almyrkvað á nóttu sem degi. Ég gat einungis klæðst frumefnum, ull, silki og bómull, sem ekkert rafmagn leiddu. Pólýester og nælon leiddu of mikið rafmagn til að ég gæti klæðst slíku. Ég gat ekki borðað í matsalnum nema með sólgleraugu, derhúfu og róandi tónlist í eyrunum, vegna skerandi birtu, ærandi hávaða, hnífaglamurs og skvaldurs.
Ég var ekki einn um það að eiga erfitt með rafmagnið og geta varla reykt á reyksvæðinu þar sem magnaðist sterkt svið spennu milli háspennukassans hægra megin við bekkinn sem setið var á og rafstöðvarinnar vinstra megin. Þar kynntist ég konu sem þekkti vandamál rafstraumsins. Hún gekk um ganga hælisins í hvítri kápu. Föt hennar voru úr frumefnum, því að hún þoldi ekki gerviefni. Hún bjó í herbergi skammt frá hælinu, hafði lifað þar nær rafmagnslausu lífi um nokkurt skeið, og vann við grænmetisræktun í gróðurhúsum, tengdum heilsuhælinu. Eitt kvöldið sat ég fyrir framan hana í herbergi hennar og sagði sögur úr fjar- lægu landi. Við höfðum tengst hvort öðru. Hún hafði unnið á skrifstofu og haldið heimili í einu af úthverfum höfuð- borgarinnar. Var fráskilin með uppkomna unglinga. Svo veiktist hún og einangrunin rofnaði. Þá leitaði hún inn á við að jarðtengingu.
Ég átti erfitt með að horfa á sjónvarp þar sem ég skynjaði rafsegulsvið þess í nær öllu sjónvarpsherberginu. Ég var einnig farinn að tengja allt efni í sjónvarpinu beint við sjálfan mig. Ég sóttist í félagsskap þeirra sem voru með hæggenga kólfa. Einum slíkum kynntist ég bærilega. Hann var gamall skipstjóri, ættaður úr eyðivík að vestan. Hann gekk um svæðið með staf og skipti sér ekki af nein- um, hann var kominn til að synda, lesa, borða og hvíla sig í friði. Við sátum saman og mötuðumst þá daga sem ég komst í matsalinn. Hann, eins og ég, sagði fátt og talaði hægt þegar hann tjáði sig, hann sagði einungis eitthvað sem skipti máli.
Ég náði lítið að sinna dagskránni á heilsuhælinu, hjart- að sló einfaldlega of hægt, og ég átti erfitt með að reyna á mig og eyddi því flestum stundum í sundlauginni. Mér fannst gott að vera í kafi. Hjartað sló svo hægt að ég gat verið í kafi mjög lengi, ég tengdi þá upplifun við myndina Das Boot sem ég hafði nýlega séð. Þar voru líka úlfar, gráir úlfar hafsins.
Annan daginn minn á hælinu fékk ég heiftarlegt geðrofs- og felmturskast. Ég hafði gengið út í bjart kvöldið en komst ekki lengra en þrjá metra frá húsinu, þá þurfti ég að halda í vegginn. Ég komst inn á hjúkrunarvakt. Einn sjúkraliðinn, Dröfn, þessi rauðhærða, jarðfasta manneskja, skynjaði hvað var á seyði. Öll fortíðin, fortíð áa minna, allra feðranna, allt frá Grími hinum háleyska og erfðasyndinni, allt herjaði þetta aftur á hugann. Ég varð alveg stjarfur og fannst eins og jörðin ætlaði að gleypa mig og óttinn yfirtók mig algerlega. Dröfn strauk enni mitt, reyndi að róa óbærilega hræðsluna sem var ekki af þessum heimi. Hún lagði mig niður í sófann á vaktinni, breiddi yfir mig og hringdi á lækni.
Þarna lá ég alveg stjarfur í í tvo tíma. Það var eins og líkaminn sykki niður og andinn lyftist upp úr honum. Ég var sem í öðrum heimi. Allt í einu kom inn á sjónsviðið bókarkjölur í skápnum á móti mér. Á kilinum var setningin „Hraustir menn“. Ég komst að því síðar að bókin var saga Karlakórs Reykjavíkur. Læknirinn kom um síðir og í annað sinn á skömmum tíma var ég svæfður með deyfilyfjum. Þegar ég sofnaði fannst mér eins og Jesús sæti við hlið mér.
Ég náði hvíld.