Ragnheiður Gunnarsdóttir er 28 ára gömul Akureyrarmær sem er umhugað um dýravernd á Íslandi. Hún rekur Kisukot á Akureyri og hefur hjálpað yfir 300 kisum að finna ný heimili eða rata heim til sín aftur. Greinilegt er að þörfin fyrir fólk eins og Ragnheiði er mikil sem sýnir sig best á þeim fjölda katta sem koma við á heimili Ragnheiðar á ári hverju. Ég hitti Ragnheiði og spurði hana aðeins út í Kisukot og starfsemina þar.
Hvað er Kisukot og hver er tilgangur þess?
Kisukot er kattaathvarf á Akureyri. Tilgangur þess er að hjálpa sem flestum köttum sem á því þurfa að halda. Villikettlingar eru veiddir og þjálfaðir í að verða heimiliskettir. Kettir koma líka af heimilum sem einhverra hluta vegna geta ekki verið þar lengur. Fólk hefur samband ef það finnur ketti sem það telur vera týnda og við hjálpum þeim að komast aftur heim eða á ný heimili ef enginn eigandi finnst.
Hvernig kviknaði hugmyndin um stofnun Kisukots?
Mig hefur alltaf langað til að vinna með kisum og var sjálfboðaliði í Kattholti á árunum 2009–2010. Í desember 2011 kom frétt í akureyrskum miðli um að fjöldi villikatta héldi til í hesthúsahverfinu í Breiðholti og verið væri að veiða þá og svæfa. Á sama tíma voru að koma nýjar reglur um kattahald í bænum og fann ég fyrir aukningu á að fólk væri að losa sig við heimiliskettina sína. Ég ákvað því, í stuttu máli sagt, að taka málið í mínar eigin hendur og hjálpa þeim kisum sem væru í vandræðum.
Hvernig er starfsemin í Kisukoti í dag?
Kisukot er enn sem komið er bara í heimahúsi en draumurinn er að komast í aðstöðu þar sem álagið á heimilinu er frekar mikið.
Hversu mörgum kisum hefur þú bjargað og komið á ný heimili?
Kettir sem hafa komið til mín og fengið ný heimili eru á milli 250–300. Inni í því er ekki sá fjöldi sem ég hef komið aftur heim til sín eftir að hafa verið týndir. Sá sem var lengst týndur og komst aftur heim var týndur í fimm ár! Hann fannst á Vaðlaheiðinni núna í marsmánuði. Það er gaman að segja frá því að gamli eigandi hans vildi ólmur fá kisa aftur.
Tekurðu eitthvert gjald fyrir þegar þú tekur við heimiliskisum?
Ég hef verið að taka gjald fyrir fullorðnar ógeldar kisur svo kostnaðurinn við geldinguna lendi ekki á mér. Ég verð þó að játa að ég er allt of lin við það, ég á nefnilega afskaplega erfitt með að segja nei við kisum í vanda.
Tekurðu gjald fyrir þegar þú lætur frá þér ketti á ný heimili?
Það er eins með það, ég hef verið að taka pening fyrir þá ketti sem ég þarf að láta gelda eða taka úr sambandi. Ef kisa kemur hingað geld þá hef ég ekki tekið neitt fyrir hana. Það er eins með það, ég þarf að vera harðari, svona ef reksturinn á að ganga.
Hefurðu fengið styrk frá fyrirtækjum, stofnunum eða Akureyrarbæ?
Akureyrarbær hefur aldrei veitt styrk þrátt fyrir að ég hafi sent þeim oftar en einu sinni beiðni um það. Eina stofnunin sem hefur hjálpað okkur er Kattavinafélag Íslands og kann ég þeim miklar þakkir fyrir. Við höfum ekki fengið peningastyrki frá neinum fyrirtækjum en Gæludýr.is gefa okkur þurrmat og eru með söfnun á síðunni sinni fyrir okkur þar sem fólk getur keypt fóður í kílóavís handa kisunum. Við höfum líka fengið blautmat frá Vetis.
Tekurðu til þín kisur af öllu landinu?
Já. Það hafa komið kisur frá Egilsstöðum, Selfossi, Borgarnesi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Reykjavík.
Hvaða framtíðardrauma áttu fyrir Kisukot?
Draumurinn væri auðvitað stórt og flott athvarf, sérstaklega byggt með það í huga að vera kattaathvarf. En ég myndi láta mér nægja að fá bara einhverja aðstöðu þar sem vel færi um kisurnar og maður gæti hjálpað enn fleirum. Það vantar nefnilega algjörlega fleiri athvörf á Íslandi. Kattholt er eina kattaathvarfið sem er rekið í almennilegu húsnæði. Þó ber að nefna að margir einstaklingar hafa staðið sig einstaklega vel í málum er varða velferð katta undanfarið og verð ég sérstaklega að hrósa þeim sem standa að Óskasjóði Púkarófu í Hafnarfirði og félaginu Villikettir. Það er gaman að sjá dýravernd blómstra.
Hafa einstaklingar verið duglegir að styrkja þig og stendur sá styrkur undir öllum kostnaði?
Já, sem betur fer hafa þeir verið það. Ég er oft í mínus hjá dýralækninum en hún Elfa sem sér um kisurnar er svo góð við okkur að hún gefur mér alltaf tíma til að vinna það upp.
Stendurðu meira og minna í þessu ein eða er fólk sem hjálpar til?
Ég er meira og minna ein í þessu. Móðir mín á þó lof skilið fyrir þolinmæðina yfir þessu öllu saman.
Er eitthvað fleira sem þú vilt bæta við að lokum?
Áfram dýravernd!
—
Tengill á Facebook-síðu Kisukots
Tengill á heimasíðu Kisukots en þar er meðal annars hægt að skrá sig í félagið sem stofnað hefur verið í kringum starfsemina, en árgjaldið í félagið er 3.000 kr. Einnig er hægt að leggja inn á styrktarsjóð Kisukots og leggja þannig sitt af mörkum við að hjálpa kisum í neyð.
Ljósmynd af Ragnheiði tók Anna Þorgrímsdóttir.