Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Af megrun og gervibrjóstum

$
0
0

Það er erfitt að vera ekki fæddur í staðalform fegurðar og þess sem er eftirsótt. Glamúr stundaglasavöxtur í anda Marilyn Monroe eða bein í bein stíl Victoriu Beckham sem umheimurinn hreinlega dýrkar og dáir. Nei. Við systur erum fæddar á Jökuldal með óþægilega vandaðar mjaðmir sem í den hefði verið lýst sem hinum „fullkomnu til barnsburðar“.

Ekki að það sé það sem okkar menn voru sérstaklega að leitast eftir þegar þeir hirtu okkur upp á einhverjum sorglegum skemmtistaðnum eftir kl 4 í þá tíð en nógu ölvaðir voru þeir til þess að taka ekki eftir aðhaldsfatnaðinum sem halda rúllupylsunum saman rétt á meðan barnsburðarmjöðmunum var skakað á dansgólfinu, öðrum til ama eða ánægju.

Ekki það að það sé eitthvað að svona fínum mjöðmun, en þegar ástandið er orðið þannig að maður liggur grenjandi á gólfinu í mátunarklefum betri verslana vegna þess að ekki er hægt að troða þessum óskapnaði í fjöldaframleitt Kínadrasl, þá verður maður að gera eitthvað í þessu. Verst er þegar afgreiðsludömurnar nötrandi á beinunum reyna að fá mann til að máta teygjubrækur í stærðinni „one size fits all“ sem ALLIR vita að er kjaftæði. Það er eins gott að mamma gaf okkur saumavélar á sínum tíma, við saumum okkur bara tjöldin sjálfar. Ekkert mál.

Þar sem miðjuhlutinn er svona fyrirferðamikill þá ætli maður að barmurinn sé í sama stíl en því fer fjarri. Systir mín hefur stundum sagt frá því tárvot um hvarma hvernig hún erfði rassinn úr móðurfjölskyldunni en brjóstin frá pabba okkar. Hann er 80 kíló, það eru engin brjóst.

Hún skartar þó aðkeyptum brjóstum framleiddum í ****** og kostaði hana ekki nema nokkra þúsundkalla. Það nefnilega gleymdist að rukka fyrir innihaldinu en það stóð bara „svæfing“ á reikningnum. Við viljum ekki vita hvað fór fram eftir þessa svæfingu en brjóstin eru flott.

Ég hef ekki efni á nýjum brjóstum þar sem LÍN lánar ekki fyrir samfélagslegum útlitsgöllum. Kannski fæ ég vinnu í Seðlabankanum að námi loknu og þá kannski splæsir maður í Dolly Parton útlit með tilbehör. Ljósa kollu og mitti. Hvað ætli Már sé með í laun?

Hvað um það. Í sinn hvorum fjórðungnum höfum við látið það eftir okkur að skella okkur í eitthvað sem heitir líkamsrækt. Hérna fyrir austan hefur hugrökk frænka mín tekið að sér það sértæka verkefni að ná mér úr fitugallanum og ég hef skrifað forsetanum bréf á skinn með blekpenna með hjartað blæðandi af ást þess efnis að hún eigi hreinlega skilið fálkaorðuna.

Ég sendi svona „fyrir myndir“ með bréfinu þar sem ég er á brókinni einni fata. Ég bíð eftir fyrirsögninni „TAUGAÁFALL Á BESSASTÖÐUM“.

Systir fann sér eitthvað fórnarlamb til sama efnis en hún er helmingi kaldhæðnari en ég og óska ég honum alls hins besta greyinu. Henni óska ég bara svona lala enda er staðan bara þannig að ég vil ekki lengur vera sú feita í fjölskylduboðunum. Ég var eiginlega að vona að hún sjái bara um það.

Í fyrsta tímanum var farið mjúklegum höndum um skrokkinn á mér í líkamsrækt frænku minnar og ég gerði mig ekki teljandi að fífli. Ég minntist þess þó með krumpu á sálinn þegar ég stundaði hvað mest líkamsrækt á sínum tíma og mætti galvösk í ljósum bómullarbuxum í ræktina.

Eftir gríðarleg átök, blóð, svita og tár fleygði ég mér á bakið og hamaðist sem mest ég mátti við magaæfingar. Ég var sennilega á æfingu tvöhundruð og eitthvað (eiiiinmitt) þegar ég tók eftir að tveir menntaskólapiltar sátu og góndu á mig. Vá, meira að segja smátapparnir eru farnir að taka eftir mér. Kláraði æfingarnar með fágaða áreynslugrettu á smettinu og fór til þess að skipta um föt.

Það kom í ljós að að ekki var atorka mín, fegurð eða úthald sem heillaði piltana heldur hafði ég svitnað svo laglega í náranum að ég leit út fyrir að hafa……einmitt. Núna eru gerviefni sem anda í kolsvörtum lit það eina sem ég læt sjá mig í innan svona stofnana.

Ég toppa þó ekki systur mína, en þegar hún lufsaðist upp stigana á 4 hæð í sinni líkamsrækt þá kvartaði hún við skiptiborðið að það vantaði lyftu í húsið. Fyrir þá sem voru að koma í fyrsta skipti sko. Einmitt.

Annars þá óska ég okkur bara góðs gengist og mögulega birtum við af okkur fyrir og eftir myndum í haust. Þið megið meira að segja giska á hvor er fyrir myndin og hvort er eftir og jafnvel verða verðlaun í boði.

ÁFRAM VIÐ.

Mynd efst í grein er mögulega besta myndin af okkur systrum á síðustu 10 árum.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283