Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Tónlistarveisla til styrktar Konukoti og Frú Ragnheiði

$
0
0

Rauði kross Íslands stendur fyrir styrktartónleikum til handa Konukoti og Frú Ragnheiði á Kex Hostel næstkomandi miðvikudag.

Konukot er næturathvarf fyrir heimilislausar konur sem eiga hvergi höfði sínu að að halla og þurfa stað til að sofa á. Flestar þeirra stríða við vandamál tengd neyslu áfengis og/eða fíkniefna.

Frú Ragnheiður er verkefni sem byggist á skaðaminnkun og hefur þann tilgang að ná til jaðarhópa samfélagsins, t.d. útigangsfólks, heimilislausra og fólks sem sprautar vímuefnum í æð, og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu og almenna heilsuvernd, án fordóma eða kvaða. Markmið verkefnisins er að draga úr skaðsemi lifnaðarhátta jaðarhópa, t.d. sýkingum í sárum og útbreiðslu lifrarbólgu C og HIV, með því að auðvelda þeim aðgengi að sárameðferð, hreinum nálum og sprautum og almennri fræðslu um skaðaminnkun.

Styrktartónleikar frú ragnheiðar og konukots

Það eru þær Ragnhildur Jónasdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði, og  Edda Konráðsdóttir viðskiptafræðinemi sem hafa haft veg og vanda af tónleikahaldinu og hafa þær fengið til liðs við sig fjöldann allan af flottu tónlistarfólki til þess að leggja málefninu lið.

Aðspurð segir Ragnhildur hugmyndina hafa vaknað þegar hún lagði stund á vettvangsnám hjá Konukoti. Hún hafi heillast af verkefninu og viljað leggja því lið með fjáröflun. Þá hafi hún fengið tillögu frá Rauða krossinum um að bæta Frú Ragnheiði við verkefnið sem hún tók vel í enda þau bæði af sama meiði. Ragnhildi gekk erfiðlega að fá nógu margar hljómsveitir til að spila í fyrstu tilraun og því hafi hún ákveðið að efna til styrktarmarkaðar í Rauðakross-búðinni á Skúlagötu í staðinn. Þar kynntist Ragnheiður henni Eddu, sem einnig hafï verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og ákváðu þær stöllur að sameina krafta sína og sambönd til þess að smala saman stórum hópi tónlistarfólks til styrktar þessu góða málefni.

Húsið verður opnað klukkan 19.00 en fyrstar á svið klukkan 20.00 eru stúlkurnar í Vicious & Delicious sem gáfu út sitt fyrsta lag fyrir stuttu. Þar á eftir stígur Blaz Roca á sviðið og Alva Islandia fylgir honum eftir. Emmsjé Gauti mun einnig koma fram og Úlfur Úlfur en kvöldinu lýkur með atriði frá Reykjavíkurdætrum.

Það er því úrvalslið listamanna sem bjóða upp á hörkuskemmtun til styrktar frábæru málefni sem sannarlega þarf á fjármununum að halda. Miðaverð er 1.500 krónur og allar frekari upplýsingar má nálgast á Facebook-síðu viðburðarins.

Hér má finna nánari upplýsingar um Konukot og hér að neðan er stutt myndband um starfsemina:


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283