Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Í flaumi táknanna

$
0
0

Öræfi Ófeigs Sigurðssonar, doðranturinn sem seldist í bílförmum og hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2014, er ekki létt spennusaga eins og sumir gætu hafa haldið eftir lestur káputextans, heldur þungavigt sem reynir svo sannarlega á þolrif lesenda.

Söguþráðurinn er bæði krókóttur og grýttur og hvað eftir annað liggur manni við að gefast upp. Inn á milli reynast þó vera greiðar götur, mjúkir sandar og tærar lindir sem gaman er að staldra við áður en haldið er aftur út í illfærurnar. Bókin skiptist í nokkra hluta, Drauma, Fjársjóði, Leyndardóma og Eftirleit, auk formála, Post scriptum og Eftirmála höfundar. Sögumaður lætur móðan mása um allt milli himins og jarðar; trú og tungumál, skáldskap, náttúru landsins og eðli þjóðarinnar og það eru innblásin varnaðarorð um þróun mannlífs og búsetu í þessu landi.

Persónurnar eru aðallega Öræfingar sjálfir, þrautgóðir og raungóðir. Dregin er upp mynd af hinum rómantíska íslenska sauðfjárbónda sem lifir í takt við náttúruna, þekkir drýlin í straumnum, vöðin og jöklana, veðrið, jarðfræðina og skepnurnar. Ógleymanlegir eru Tvískerjabræður, Jón föðurbróðir, tragískur túristamorðingi og landvörðurinn Snorra-Edda. Svo er það Dr. Lassi, lesbískur dýralæknir sem heldur utan um skrásetningu frásagnarinnar; furðuleg persóna, fantasía eða kannski bara óráð. Bernharður Fingurbjörg, örnefnafræðingur og doktorsnemi, leitast við að tengjast fortíð sinni í gegnum náttúruna og skilja táknfræði örnefna, hann gengur inn í jökulinn þar sem fegurðin ríkir ein en endar í kaosi og kastrasjón, lífs eða liðinn í undarlegri öskju eða kofforti á köggladekkjum sem gæti haft bæði margrætt og óljóst tákngildi.

Sagan er óreiðukennd og taumlaus, blandin fornum stíl og frásagnarhætti, textinn ryðst áfram og ærir óstöðugan. Fyrir koma langdregnir kaflar, t.d. um dauðarokk, og upptalning á íslenskum náttúrufræðingum. Þá er víða vitnað í gamlar heimildir sem sýndar eru í nýju samhengi, t.d. (óþarflega) langur kafli úr Annálum um sjálfsmorð forfeðranna sem afhjúpar öræfin innra með okkur, angist, þunglyndi og geðveiki.

Sögumannsröddin er víðóma, stórskorni dýralæknirinn skráir söguna eftir þýðingu „Túlku“ á frásögn Bernharðs sem skrifaði bréf til „höfundar“. Söguþráður er teygður á milli súrra sena, fyndni, frumlegra tilþrifa í efni og stíl, og harmsagna, ádeilu og predikana. Margfaldur í roði byggir sögumaður upp framvinduna og rífur hana jafnharðan niður og honum liggur mikið á hjarta.

Í bakgrunni eru örlagaþrungnir (karl)karakterar eins og t.d. kafteinn Koch sem hafði með sér íslenska hesta á Grænlandsjökul í harmrænni hrakfallareisu sinni 1912, Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, sem skrifaði um eðli skriðjökla sem hefði tryggt honum heimsfrægð ef það hefði verið birt á hans dögum, skáldið Ormarr sem birtist langdrukkinn, dvergvaxinn og tussulegur og á snilldarkvæði á bls. 174 og loks hinn ógæfulegi Fastagestur á Sirkus en rödd hans minnir held ég mest á höfundinn af hinum fjölmörgu röddum verksins. Hann fer á kostum, t.d. þegar hann fær orðið í túristarútunni:

„Fyrst liggur leiðin austur yfir Hellisheiðina, sagði Fastagestur í hljóðnemann, þar er vanmetin fegurð; á Hellisheiði undruðust þeir Eggert og Bjarni yfir óvæntri fegurðinni þegar þeir áttu leið um hana um miðja 18du öld en Reykvíkingar sjá ekki þessa fegurð, þeir sjá bara námur og gróða sem eru í raun eyðilegging og sóun, og er nú fegurðin í augum Eggerts og Bjarna sundurgrafin og boruð og liggja þar gagnslausir vegir þvers og kurs um sundurtættan mosann og hraunið, og endalaus rör og raflínur og háspennumöstur útum allt, þar er og torfærubraut og drullupyttir, þar eru hálf fjöll, opnar námur og ekkert nema virkjanir og verksmiðjur, allt saman minnisvarðar um eðli Íslendinga“ (196).

Það eru margar skemmtilegar pælingar í verkinu, s.s. hvað verður um örnefni sem er sökkt í uppistöðulón? Hvað er topotime? Er villiféð örugglega útdautt? Hvað er líkt með Sámi og hundi Kafka? Er íslenski bóndinn ríkisstyrktur böðull og dýraníðingur? Skógrækt ríkisins eða Órækt ríkisins? Textinn flæðir yfir bakka sína líkt og Skeiðaráin, „höfuðskepna Öræfinga“, og hrifsar lesandann með sér, stundum liggur honum jafnvel við drukknun en loks nær hann landi og getur þá ekki annað en dáðst að krafti flaumsins:

„örnefni sem tákn, sagði ég upphátt þarna á dúandi kláfinum yfir beljandi jökulvatninu, þarna varð mér í fyrsta sinn ljóst að það var raunhæfur möguleiki að klára doktorsritgerðina, ég var orðinn hræddur um að ferðin til Mávabyggða væri skálkaskjól fyrir hugmyndaleysi og söknuð og alls enginn rannsóknarleiðangur, og þótt ég klári aldrei ritgerðina er það leitin og uppgötvanirnar sem skipta mig mestu máli, að ég sé á hreyfingu, ég stækki svið mitt, hafi óvissuna sem mitt vitaljós… alltíeinu fann ég fyrir óöryggi á kláfinum yfir fljótandi dauða mínum, köldum og fögrum, það var óttinn við táknin, allan heiminn handan við táknin, undir flaut jökulkalt fljót af táknum, örnefnum… sennilega var ekkert handan við táknin nema tómið og ríkidæmi algleymisins, ég greip um höfuðið og æpti, penninn féll ofan í strauminn, Fuck fældist við, ég æpti eins og Ópið eftir Munch á kláfinum yfir jökulvatni táknanna, sólin roðaði austurhimininn og varð jökullinn sem sollinn blóði, grágrænt jökulfljótið svall undir mér en ég og Fuck dúuðum í lausu lofti sturlaðir af tóminu bak við táknin… (284–5)

Sumir kaflar bókarinnar eru svo listilegir að hraustustu menn geta vart varist tárum. Aðrir svo sýrðir að manni er skapi næst að gefast upp. Eina ráðið er að lesa þessa bók h æ g t, í lotum, gefa henni tíma og hleypa brýnum boðskapnum inn í hjartað. Sannarlega hrjóstrug öræfi en svona líka dáfalleg.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283