Brauð og álegg í matinn er ekkert bara. Sérstaklega ekki þegar brauðið er bakað heima í eldhúsi, með ást og umhyggju fyrir þeim sem eiga að njóta þess. Þá getur bara ekkert klikkað.
Ég baka nánast allt brauð heima. Það er ekkert heilagt í samsetningu brauðdeigsins. Þegar maður er að leika sér með samsetningar er gott að hafa í huga hlutfall mjöls, lyftiefna og vökva. Eins og þeir þekkja vel sem baka brauð, reynir maður ýmsar samsetningar. Sumar eru vel heppnaðar en aðrar gerir maður ekki aftur. Þessi hefur þróast smátt og smátt hjá mér og er uppáhalds um þessar mundir. Verð að láta það fylgja að þegar ég setti hveitikímið og laktósafríu AB-mjólkina í deigið varð brauðið mun léttara en áður. Bollurnar urðu til þegar ég nennti ekki að gera gerbollur. Já, letin hjálpar manni stundum.
Áleggið sem ég gef upp hef ég notað í aðrar uppskriftir hér á blogginu og á örugglega eftir að gefa það aftur upp í enn aðrar. Það sem mér finnst svo skemmtilegt með það sem maður útbýr heima er að ekkert nema hugmyndaflugið stoppar mann í samsetningum.
Áleggið er: Tómatpestó, tómat og basiliku pestó, hummus og hægelduð paprika.
Speltbrauð
Stillið ofninn á 180°C
Innihald:
- 7 dl gróft lífrænt spelt.
- 1 dl lífrænt haframjöl.
- 1 dl sólblóma- og sesamfræ.
- 1 dl lífrænt hveitikím.
- 3 tsk. vínsteinslyftiduft.
- 1 tsk. salt.
- 3 dl laktósafrí AB-mjólk
- 3 dl sjóðandi vatn.
Aðferð:
- Setjið öll þurrefnin í skál og blandið saman.
- Bætið fyrst út í AB-mjólkinni.
- Og síðan heita vatninu.
- Blandið saman.
- Ég nota sleikju til að blanda deiginu saman.
- Ég meira velti deiginu en hræri til að blanda því saman.
- Ef hrært er of lengi verður brauðið grjóthart.
- Setjið deigið í brauðform.
- Stráið fræjum ofan á.
- Látið hefast á borði í 30 mínútur.
- Bakið við 180°C í 40 mínútur.
Bolluútfærsla úr deiginu.
Stillið ofninn á 200°C
Innihald:
- Sama innihald og í brauðinu.
Aðferð:
- Aðferðin sú sama við gerð deigsins.
- Sett með matskeið á ofnplötu.
- Fræjum dreift yfir bollurnar.
- Látið hefast í 30 mínútur á borði.
- Bakað við 200°C í 18–20 mínútur.
- Ég fæ 17 stk. úr uppskriftinni.
Tómatpestó
Tómatpestóið notaði ég t.d. á ofnbakaða þorskhnakka. Það er líka ofboðslega gott ofan á brauð jafnvel með smá ostbita eða góðri hráskinku.
Innihald:
- 1 bolli sólþurrkaðir tómatar.
- 4 stk. hvítlauksrif.
- 3 msk. parmesan.
- Raspaður.
- 3 msk. kasjúhnetur.
- Olía eftir þörfum.
- Saltflögur og nýmalaður pipar.
Aðferð:
- Setjið allt hráefnið í matvinnsluvélina nema ólífuolíuna.
- Byrjið að mauka.
- Bætið olíunni smátt og smátt út í og maukið um leið.
- Magnið af olíunni fer eftir því hversu þykkt þið viljið hafa pestóið.
Tómat og basilikupestó
Aðeins eitt að segja um þetta pestó NAMMMMMMM!
Innihald:
- 1 bolli sólþurrkaðir tómatar.
- 1 bolli fersk basilika.
- ½ stk. rautt chili.
- 1 stk. geiralaus hvítlaukur.
- 4 msk. möndlur.
- Flögusalt og pipar.
- Ólífuolía eftir þörfum.
Aðferð:
- Setjið allt hráefnið í matvinnsluvélina nema ólífuolíuna.
- Byrjið að mauka.
- Bætið olíunni smátt og smátt út í og maukið um leið.
- Magnið af olíunni fer eftir því hversu þykkt þið viljið hafa pestóið.
Smekksatriði er hversu gróft fólk vill hafa pestóið. Mér finnst gott að hafa hneturnar svolítið grófar.
Hummus
Innihald:
- 1 krukka tilbúnar kjúklingabaunir
- Ég notaði lífrænar.
- ½ bolli sólþurrkaðir tómatar.
- ½ dl ólífuolía.
- Má vera meira.
- 2 stk. hvítlauksrif.
- 3 msk. tahini.
- 1 msk. tamari-sósa.
- 1 tsk. salt.
- ½ tsk. cumin-duft.
- cayenne-pipar.
- Mjög lítið eða eins og sagt er framan á hnífsoddi.
- ½ sítróna.
- ½ appelsína
Aðferð:
- Hellið kjúklingabaununum í sigti og skolið vel.
- Allt neman ólífuolían sett í matvinnsluvél og blandað vel saman.
- Hellið olíunni saman við á meðan vélin er að vinna.
- Ef þið viljið hafa hummusinn þynnri bætið þá meiri olíu saman við.
Hægeldaða paprikan er ótrúlega góð og passar mjög vel ofan á brauðsneið með hummusi.
Hægelduð paprika
Innihald:
- 4 stk. rauðar paprikur.
- 1 msk. maldon-salt.
- ½ dl olífuolía.
Aðferð:
- Þvoið paprikuna.
- Skerið í tvennt og hreinsið fræin innan úr.
- Skerið niður.
- Ég skar hana fyrst í tvennt, síðan hvorn helming í sex parta.
- Raðið í eldfast fat.
- Hellið olíunni yfir.
- Saltið.
- Bakið við 120°C í 2 klukkustundir.
- Það þarf ekkert að hugsa um hana á meðan.
Njótið.