Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Það kemur einhverntíma vor

$
0
0

Það er svosem ekki jarðarberjaveður núna, neinei.En ég var í Hagkaup á dögunum og rakst þá á jarðarber sem ég féll fyrir. Eitt kíló af hlussustórum spænskum jarðarberjum. Hríð úti og mig langaði allt í einu svo til að gera eithvað sem minnti á vorið. Sem kemur nú örugglega einhverntíma, það er vaninn. Golfstraumurinn er víst eitthvað farinn að veikjast en ég held nú að það sé varla farið að hafa svo mikil áhrif ennþá …

_MG_3542

Ég er reyndar yfirleitt hrifnari af litlum jarðarberjum og stór jarðarber á þessum árstíma eru oft ekki nógu þroskuð og frekar bragðlítil, stundum næstum bragðlaus, svo að ég var svolítið hikandi hvort ég ætti að kaupa þessi en þau voru bara eitthvað svo freistandi … Og svo reyndust þau nú vera alveg ágætlega bragðgóð.

Ég ákvað að nota helminginn af berjunum í jarðarberjaböku sem ég bar fram sem eftirrétt. Fór einföldustu leiðina og notaði smjördeig – átti rúllu af útflöttu deigi í ísskápnum en það má alveg eins nota frosið deig, þá eru plöturnar bara látnar þiðna og svo raðað á borð þannig að þær skarist, brúnunum aðeins þrýst saman með fingurgómunum og deigið svo flatt út í hæfilega stærð.

_MG_3552

Ég hitaði ofninn í 190°C og tók svo deigið og rúllaði því út. Ef ég hefði verið með frosnar plötur hefði ég sennilega búið til ferning úr þeim og þá er líka einfaldara að gera kantana eins og ég gerði – en ég skar semsagt skurði með beittum hníf, svona 2 cm frá köntunum, en skildi eftir svolítinn óskorinn bút í tveimur gagnstæðum hornum (sjá efra hornið á myndinni).

_MG_3553

Svo tók ég um hornin sem voru alveg skorin frá og braut þau yfir á gagnstætt horn (eða reyndar ekki alveg þar sem deigið var ekki ferningur, ég lagaði kantana bara til eftir þörfum). Þannig fær maður upphækkaðan, tvöfaldan kant.

_MG_3557

Ég penslaði svo deigið og kantana vel með sleginni eggjarauðu og bakaði bökubotninn svo á næstneðstu rim í svona 15-18 mínútur, eða þar til smjördeigið var dökkgullinbrúnt og hafði blásið vel út.

_MG_3569

Botninn á bökuskelinni hafði auðvitað blásið upp líka og ég þrýsti honum niður með flötum spaða. Lét svo bökuskelina kólna alveg og setti hana svo á fat.

_MG_3573

Á meðan bjó ég til kremið: Ég setti 250 g af mjukum mascarponeosti, 200 ml af sýrðum rjóma (36%) og 100 ml af St. Dalfour ferskju- og mangósultu (má alveg vera önnur bragðtegund en ég nota St. Dalfour af því að hún er án viðbætts sykurs) í matvinnsluvélina.

_MG_3576

Svo hrærði ég kremið þar til það var mjúkt og kekkjalaust …

_MG_3578

… setti það á smjördeigsbotninn og sléttaði úr því.

_MG_3589

Svo skar ég þessi hlussujarðarber í helminga og raðaði þeim ofan á. Skar líka eitt kíví í bita og dreifði yfir en það var reyndar óþarfi.

_MG_3591

Þetta var bara alls ekki slæmt (og kremið er verulega gott). Ég segi ekki að ég hafi alveg komist í sumarskap en það munaði ekkert miklu …

*

Jarðarberjabaka með mascarponerjóma

1 rúlla eða 1 pakki smjördeig

1 eggjarauða til penslunar

250 g mascarponeostur, mjúkur

200 g sýrður rjómi, helst 36%

100 ml sykurlaus sulta (ég notaði ferskju- og mangósultu)

500 g jarðarber

e.t.v. 1 kíví

Skoðið endilega vefsíðu Nönnu hér.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283