Í vikunni kom hjá Veröld bókin Í fangabúðum nazista eftir Leif H. Muller. Hann skrifaði um þetta skelfilega tímabil í lífi sínu þegar eftir heimkomuna til Íslands í stríðslok og kom bókin fyrst út í september 1945. Samkvæmt Wiesenthal-stofnuninni er þessi einstaka bók ein sú fyrsta sem rituð var í heiminum um Helförina. Sagnfræðingarnir Hallur Örn Jónsson og Jón Ingvar Kjaran skrifa inngang að bókinni sem og eftirmála. Svo segir í fréttatilkynningu frá Veröld:
„Haustið 1942 handtók Gestapó 22 ára íslenskan námsmann í Ósló, Leif H. Muller að nafni. Honum var gert að sök að hafa ætlað að yfirgefa landið með ólöglegum hætti. Við tók hjá Leifi einhver hryllilegasta fangelsisvist sem Íslendingur hefur þurft að þola, fyrst í Grini-fangelsinu í Noregi og síðar í hinum alræmdu Sachsenhausen-fangabúðum í Þýskalandi. Í Sachsenhausen var hver dagur barátta upp á líf og dauða undir járnhæl nasista þar sem hungur, sjúkdómar, pyntingar og dauði voru daglegt brauð.“
Um þessar mundir eru 70 ár síðan Leifur losnaði úr fangabúðunum. Kvennablaðið birtir hér kafla úr þessari einstöku bók.
Stígvélaganga
„Skipun barst til skálafyrirliðans að fjörutíu fangar ættu að reyna stígvél, ganga í þeim til reynslu. Var þetta um morgun og sagt að mennirnir ættu að koma strax. Við vorum þá nýbúnir í „morgunleikfimi“. Fyrirliðinn spurði hvort einhverjir byðust til „Schulaufen“. Hann kvað þá sem það vildu gera mundu fá tvær brauðsneiðar aukalega og vegalengdin væri um 40 kílómetrar. Enginn gaf sig fram, mönnum hefur líklega fundizt kaupið lágt.
Fjörutíu yngstu mennirnir voru þá valdir úr hópnum. Var ég meðal þeirra, og síðan var farið með okkur til „Schuprüfstelle“ þar sem miklar skóbirgðir voru geymdar. Voru okkur fengin mismunandi stígvél, sum með trébotnum, en önnur með leðursólum, og fékk hver þá stærð sem hann bað um. Var það stór skóverksmiðja í Berlín sem hafði þessa tilraunastöð í Sachsenhausen, og var það fært í bækur daglega hversu langt væri gengið á hverjum skóm.
Gengið var eftir braut, sem var í lögun eins og talan átta, umhverfis liðskönnunarvöllinn. Tilraunabrautin var með ýmsum ofaníburði – einn kaflinn var sandborinn, annar með möl, þriðji með smágrýti, fjórði var stórgrýttur, fimmti var steinsteyptur og sá sjötti var þakinn vatni. Öll brautin var um 800 metrar á lengd og áttum við því að ganga fimmtíu sinnum umhverfis hana, en á meðan voru sungnir SS-hermannasöngvar. Byrjaði gangan klukkan 6:30 og var gengið til 11:30, en síðan aftur frá 1–5:30.
Stígvélaganga mánuðum saman
Það hafði jafnan verið venja að láta nýja fanga taka þátt í skóreynslugöngunni tæpa viku eða svo, en sú venja lagðist smám saman niður, guði sé lof, svo að ég slapp eftir fyrsta daginn og var þá búinn að fá meira en nóg. Var þá bara notazt við menn sem brotið höfðu eitthvað af sér. Voru þeir geymdir í sérstökum skála og látnir ganga daglega þangað til hegningartíminn var á enda, en hann gat verið allt að átta mánuðir eða meira.
Þó voru þarna sjö Englendingar sem látnir voru ganga með hegningardeildinni í hálft annað ár. Þeir voru í enska hernum og höfðu verið settir á land í Noregi af hraðbáti. Áttu þeir að eyðileggja mikilvæg hernaðarmannvirki í Noregi. Hafði þeim tekizt að framkvæma skipanir sínar og höfðu síðan leynzt um skeið hjá norskum frelsisvinum, en náðust er þeir voru á leið til sænsku landamæranna.
Það var algjörlega á móti alþjóðalögum að setja menn, sem áttu að vera stríðsfangar, í slíkar fangabúðir þar sem þeir bjuggu við lélegustu kjör. Þetta vissu Þjóðverjar ofboð vel og þegar Rússar nálguðust Berlín ískyggilega mikið í febrúar þetta ár – voru við Oder hjá Frankfurt – tóku SS-menn sex Englendingana og skutu þá, en sendu þann sjöunda til Bergen Belsen. Mér var það með öllu óskiljanlegt hvernig mennirnir gátu þolað að ganga svona mánuð eftir mánuð án þess að bila að einhverju leyti. Þeir höfðu ekkert samband við England, en Norðmennirnir reyndu að hjálpa þeim eftir mætti, söfnuðu meðal annars alltaf mat handa þeim þegar rauðakrossbögglar komu.
Alltaf vongóðir
Ég kom stundum í skála þann sem Englendingarnir voru geymdir í. Það var í rauninni bannað af SS, en það voru fangar sem héldu þar vörð svo að hægt var að fá að fara inn með því að stinga að þeim sígarettu. Englendingarnir voru alltaf í bezta skapi og vongóðir um framtíðina svo að okkur tók það mjög sárt er við fréttum að þeir hefðu verið skotnir. Það var ekki nóg með að menn væru látnir þramma þarna dag eftir dag, heldur voru þeir stundum látnir ganga með 10–20 pund á bakinu dögum saman og oft voru þeir látnir vera í þröngum skóm. Það þurfti meira en meðalhrausta menn til að þola annað eins og þetta. Ef einhver dróst aftur úr var hann miskunnarlaust barinn áfram eða sparkað í hann. Menn voru neyddir til að ganga áfram þótt þeir væru alveg örmagna og kraftarnir á þrotum. Sumir hnigu niður meðvitundarlausir, en þá brá svo kynlega við að leyft var að bera þá til læknis.
Liðskönnunarvöllurinn var þakinn möl og sandi, en steypt gata var þvert yfir hann og þegar hvasst var, sem oft var, þá hurfu göngumennirnir alveg í rykmökkinn. Vegna þess hvað mennirnir voru látnir ganga mikið, en fengu jafnframt lélegt viðurværi, veiktust margir af þessu, en enn fleiri voru sífellt með sár á fótum. Var hryllilegt að sjá þessa vesalinga dragnast áfram hvern hringinn af öðrum, halta, fótsára og aðframkomna af hungri og næringarskorti. Strokufangar sem náðst höfðu aftur höfðu rauðan hring í jakkanum að framan og aftan auk svarts hrings sem allir fangar í refsideildinni voru einkenndir með.
Fyrirliðinn fyrir refsideildinni var jafnan fangi, en alltaf sérstaklega mikill hrotti og illmenni. Annars var hann ekki hæfur til starfans. Að lokinni göngu skiluðum við stígvélunum og fengum laun okkar fyrir þessa 40 kílómetra löngu göngu – tvær brauðsneiðar og pylsubita. Það hvarf ofan í okkur á augabragði.
Kartöfluvinna
Næsta dag var 30 manns skipað að afhýða kartöflur í eldhúsinu og lenti ég í þeim hópi. Þessi vinna fór fram í kjallara eldhússkálans. Unnum við átta við hvert trog sem sett var á milli okkar svo að fjórir voru hvorum megin. Afhýddu kartöflurnar voru látnar í trogið sem var hálft af vatni. Á klukkutíma fresti kom umsjónarmaðurinn og tók það sem tilbúið var. Mældi hann í hvert skipti hverju við hefðum afkastað í tíu lítra fötu. Ef honum þótti kartöflurnar rýrna eitthvað við afhýðinguna var hann ekki lengi að segja til um það.
Þarna í kjallaranum voru samtals 150 manns, sem allir unnu hið sama verk – að afhýða kartöflur. Voru þetta mest ungir menn eða gamlir sem gátu ekki unnið erfiðisvinnu af einhverjum sökum eða höfðu nýlega verið í sjúkrahúsinu og voru látnir vinna þarna fyrst eftir að þeir losnuðu þaðan. Allir voru þeir mjög fölleitir og óhraustlegir í útliti og margir voru sýnilega berklaveikir. Margir þeirra voru búnir að vinna þarna upp undir ár og þeir báru svip þess að þeir höfðu verið svona lengi í kjallaranum þar sem vont var loft og enginn gluggi sem gæti hleypt sólarljósinu inn. Á veturna fannst mörgum þetta góð vinna því að í kjallaranum var hlýrra en úti og þar var engin hætta á að blotna. Þeim sem unnu úti var ýmist sárkalt eða þeir urðu holdvotir þegar úrkoma var.
Úti í skógi
En ég var ekki lengi í kartöflukjallaranum því að strax næsta dag var ég settur í aðra vinnu – nefnilega að sækja kartöflur sem geymdar voru í stórum haugum í skóginum fyrir utan fangabúðirnar. Þetta voru kartöflur frá fyrra ári sem látnar höfðu verið liggja þarna allan veturinn. Hafði hálmi og mold verið mokað yfir svo að frostið kæmist ekki að þeim.
Við vorum látnir vinna allrösklega við þetta, grafa kartöflurnar upp úr haugnum, rífa spírurnar af þeim, moka þeim með göfflum upp í handbörur og bera þær síðan að stórum vagni og láta þær upp í hann. Fyrirliðinn var aldrei ánægður með vinnuhraðann og var sífellt að skrækja: „Los, los!“ (Flýtið ykkur, flýtið ykkur!) Gafst okkur aldrei tími til þess að rétta úr bakinu og jafna okkur.
Þyngsta verkið var að bera börurnar því að þær voru stórar og tóku mikið og menn skiptust ekki á verkum fyrr en um hádegið. Vagninn, sem kartöflurnar voru látnar í, var fimm smálesta íhengisvagn (Anhänger), en vegna benzínskorts var ekki hægt að sjá af bíl til að draga hann og féll það því líka í hlut fanganna. Var 12–15 mönnum beitt fyrir hvern vagn – sett á þá aktygi – en drátturinn sóttist seint því að vagnarnir voru þungir og erfiðir, en við máttlitlir af næringarskorti. Var ég notaður sem dráttardýr í nokkra daga næsta vetur. Það gekk þolanlega að draga vagninn á góðum vegi og þegar ekki var rekið of mikið á eftir okkur, en þegar leiðin var á fótinn og gatan þar að auki óslétt, varð maður stundum að reyna svo á sig að manni sortnaði fyrir augum.“