Árið 1978 þegar ég kom aftur heim til Íslands frá námi í kvikmyndagerð í Svíþjóð var ég meira og minna niðurbrotinn maður með lamað sjálfstraust eftir margvíslega niðurlægingu við að reyna að setja saman hillur og fátæklegar mublur sem voru hannaðar fyrir smekk og efnahag launafólks og stúdenta og framleiddar af Ingvari Kamprad og seldar í stórverslun hans í Stokkhólmi sem var þá komin góðan spöl í áttina að því að verða heimsveldinu IKEA.
Annaðhvort hefur mér farið geisilega mikið fram andlega eða Ingvari hefur lukkast að finna einfaldari aðferðir til að setja saman þá gripi sem hann selur á þessum áratugum sem liðnir eru frá 1978.
Þegar ég kom heim til Íslands hét ég sjálfum mér því að leggja aldrei framar út í þá óvissuferð að skrúfa saman húsgögn frá IKEA og sú ákvörðun hefur dugað til að ég hef getað lifað að mestu utan stofnana, en því miður hef ég brotið flestöll mín prinsíp í lífinu og í dag lét ég fallerast og ákvað að setja sjálfur saman litla bókahillu þegar allir sem ég hringdi í tóku þá skynsamlegu ákvörðun að svara ekki í símann.
Það kom mér mjög á óvart að þetta gekk ljómandi vel og öll stykkin voru í pakkanum en Ingvar hafði þann háttinn á oftar en ekki þegar viðskipti okkar voru að hefjast að gera samsetninguna meira spennandi með því „að gleyma“ að láta eitthvert nauðsynlegt smotterí eins og sexkant eða nógu margar skrúfur fylgja með.
Þetta gekk sem sagt mjög vel og bendir til að við Ingvar séum báðir á framfarabraut – og verandi ánægður með árangurinn hef ég ákveðið að storka ekki örlögunum með því að taka að mér að setja saman meira af húsgögnum í bráð.