Guðrún Nordal svarar hér þeim spurningum sem Einar Steingrímsson setti fram í grein sinni, Hvort myndi ég kjósa Guðrúnu eða Jón Atla. Skáletraðar eru fyrirspurnir Einars:
Því myndi ég spyrja Guðrúnu og Jón Atla hvort og þá hvernig þau hyggist taka á erfiðum málum, bæði varðandi misferli starfsmanna og þá kúgun sem sumir þeirra upplifa. Ég vil fá skýr svör, ekki undanbrögð og innantóman fagurgala af því tagi sem ég hef heyrt hingað til frá forystu skólans.
Það er lykilatriði að taka á erfiðum málum á afgerandi máta, en með yfirvegun. Passa verður upp á að erfið mál velkist ekki í kerfinu heldur sé tekið á þeim eins fljótt og auðið er. Rannsaka verður misferli starfsmanna og taka á misferlismálum. Það er ekki gott ef fólk upplifir kúgun, skoðanaskipti eiga að vera frjáls innan stofnunar eins og Háskólans sem byggir á lýðræðislegum hefðum og jafningjastjórnun.
Það er frábær hugmynd að koma á fót óháðum umboðsmanni háskólastigsins og hana verður að taka alvarlega. Í jafningjasamfélagi eins og háskólum getur verið erfitt að skera úr um mál þar sem návígi er mikið og hætta á hagsmunaárekstrum. Sjálfstæður umboðsmaður gæti þannig tekið að sér erfið mál og unnið úr þeim á hlutlausan máta. Slíkir umboðsmenn eru víða í háskólum erlendis. Algengt er að fyrsta forgangsatriði umboðsmanns sé að fá alla aðila að borðinu og reyna að ná sáttum þegar það á við. Það stuðlar mjög oft að farsælum lausnum á deilumálum. Þannig getur verið mjög mikilvægt að hafa skjól utan veggja háskólans til þess að taka á þeim, hvort sem málið varðar nemendur, akademíska starfsmenn eða starfsfólk stjórnsýslu. Einnig er mikilvægt að Umboðsmaður hafi trúnaðarskyldu gagnvart skjólstæðingum sínum.
Jafnframt mætti hugsa sér að í stjórnsýslunni væri umboðsmaður námsmanna sem hægt væri að leita til. Það embætti væri unnt að stofna hratt innan veggja Háskólans en færa síðar starfsemina til umboðsmanns háskólastigs þegar það verður komið á fótinn. Það er sjálfsagt að nefna það hér að Náms- og starfsráðgjöf HÍ vinnur ómetanlegt starf við að upplýsa nemendur og aðstoða. Vonandi verður hægt að efla þjónustuna sem hún veitir með batnandi fjárhag skólans. Þó að samvinna tækist við stjórnvöld að koma upp umboðsmanni má hann þó ekki verða skálkaskjól fyrir stjórn skólans til að taka ekki af festu á þeim málum sem koma upp.
Myndi Guðrún eða Jón Atli beita sér fyrir að betur yrði staðið að ráðningu rektors, og uppræta eigin áhrif á það ferli, alveg sérstaklega ef þau hefðu áhuga á að sitja lengur en fimm ár?
Ég hef sagt það í mínum fyrri svörum í tengslum við rektorskjör að ég muni ekki sækjast eftir því að sitja lengur en fimm ár sem rektor. Ég tel það heilbrigt hverjum háskóla að skipt sé reglulega um forystu. Jafnframt hef ég tekið það fram að mér finnst ekki eðlilegt að rektor velji sér aðstoðarrektor heldur á að auglýsa stöðuna og meta hæfi umsækjenda á faglegan máta.
Ég hef hug á að ráða tvo aðstoðarrektora sem fara annars vegar með málefni kennslu og hins vegar málefni vísinda- og nýsköpunar. Ég tel að með þessu nái stjórnskipulagið betur utan um kjarnastarfsemi háskólans sem er kennsla og rannsóknir. Með nýju fólki koma nýjar áherslur.
Það er ekki í anda lýðræðis að rektor sjálfur geti haft áhrif á ráðningarferlið, og sjálfsagt mál að vinna að því stöðugt að umsóknar og framboðsferlið sé eins faglegt og mögulegt er. Það er líka eðlilegt að farið sé yfir það ferli sem býr að baki núverandi ferli að baki rektorskosningum, t.d. hvernig staðið er að kynningum frambjóðenda af hálfu Háskólans sjálfs.
Myndi Guðrún eða Jón Atli taka þá forystu í kennslumálunum sem þarf, og láta þau boð út ganga að kennsluna verði að bæta þar sem henni er ábótavant? Myndu þau beita sér fyrir því að umbunað verði fyrir góða kennslu? Og hvernig myndu þau fara að þessu?
Eins og ég tók fram að ofan mun fyrsta skrefið, til þess að styðja kennara við skólann í bættum kennsluháttum, vera að ráða aðstoðarrektor kennslumála. Ekki er nóg að láta boð út ganga um að bæta verði kennsluna, kennarar skólans þurfa að fá raunverulegan stuðning til þess að nútímavæða kennsluhætti. Vegna fjárskorts skólans er gífurlegt álag á kennurum hans eins og stendur og þeir hafa lítið svigrúm til þess að leggja í mikla vinnu við að breyta námskeiðum.
Áttum okkur hins vegar á því að við skólann starfar fjöldi frábærra kennara og það er í raun kraftaverk hversu góðri kennslu hefur verið unnt að halda úti þrátt fyrir aðstæður. Skrifast það góða starf á vilja háskólakennara til að taka á sig mikla og ólaunaða aukavinnu, þar sem mjög margir þeirra vinna starf sitt af hugsjón og bera hag nemenda fyrir brjósti. Háskólakennslan er að nær þriðjungi í höndum stundakennara sem hafa búið við mjög slæm kjör, sem þarf að vera forgangsmál að lagfæra, og fjölga um leið akademískum störfum.
Reynsla þeirra kennara sem nú þegar hafa nútímavætt kennsluhætti er dýrmæt. Þar hafa m.a. kennarar við Menntavísindasvið tekið forystuna og miðla nú þegar reynslu sinni og góðum ráðum til annarra kennara Háskólans. Ég er sannfærð um að brautryðjendastarf í kennslu ætti að umbuna og að Háskólinn allur ætti að njóta góðs af því með stuðningi frá rektor. Einnig hefur Kennslumiðstöð stutt við kennara sem vilja nýta sér ýmsa tækni í kennslu sinni, haldið námskeið fyrir kennara og það starf verður að efla margfalt.
Það er hægt að hugsa sér ýmsar leiðir til þess að umbuna fyrir góða kennslu, eins og að notfæra endurgjöf nemenda í kennslukönnunum í auknum mæli. Einnig ætti að bjóða kennurum upp á kennsluleyfi, rétt eins og rannsóknarleyfi, til að sækja sér þekkingar við erlenda háskóla.
Hvað eru Guðrún eða Jón Atli líkleg til að gera sem leiddi af sér að rannsóknafé skólans yrði notað í rannsóknir af þeim gæðum sem miðað er við í sæmilegum skólum á alþjóðavettvangi?
Það verður að hafa rétta hvata innan kerfisins. Vinnumatskerfi HÍ vegur í dag of þungt í forgangsröðun á nýtingu rannsóknafjár innan háskólans. Upphafleg hugsun kerfisins var göfug og hafði góð áhrif, en ljóst er að gera þarf á því gagngerar endurbætur ef það á að sinna hlutverki sínu. Núverandi staða er óásættanleg þar sem kerfið elur á ríg og ósætti milli fræðigreina enda er um mismunandi birtingarhefðir að ræða á ólíkum fræðasviðum. Í þessu samhengi er lykilatriði að efla til muna jafningjamat við ráðstöfun rannsóknarfjár.
Eitt af stærstu vandamálum sem HÍ stendur frammi fyrir í dag er skortur á nýliðun. Með betri fjármögnun háskólans mætti sjá fyrir sér að hluti rannsóknarfjár væri sérstaklega nýttur til þess að efla nýliðun. Háskólinn er ekki vel settur í dag til að keppa við aðra Háskóla í kringum sig í nýliðunarmálum þar sem aðrar stofnanir veita nýjum starfsmönnum “heimanmund” til þess að koma á fót eigin rannsóknum. Háskóli Íslands þyrfti að íhuga sérstaklega hvernig mögulegt væri að nýta rannsóknarfé í þessum tilgangi.