Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Nýtt upphaf

$
0
0

Guðrún Nordal skrifar: 

Ég gekk inn í þetta ævintýri sem rektorskosningar eru fyrir rúmum tveimur mánuðum, og rétt eins og í Rauðhettu þá vissi ég ekki fyrir fram hvaða þrautir yrðu á veginum. Á leiðinni hefur ýmislegt óvænt gerst en umfram allt hefur þetta verið merkilegt tækifæri til þess að kynnast hinum mörgu hliðum Háskóla Íslands með samtali við starfsfólk og nemendur. Kosningabaráttan hefur einnig opnað samræðu í skólanum sem er nauðsynleg til að efla skólann sem opið og gegnsætt samfélag.

Hvert einasta samtal sem ég hef átt hefur dýpkað skilning minn á því hvernig vinnustaður Háskólinn reynist vera, hvað virkar vel og hvar úrbóta er þörf. Samtal er engu líkt og rektor verður að tala við skólann allan – fara á milli og hlusta á fólk. Hann þarf að sjá skólann sem heild, ekki frá einum sjónarhóli, heldur mörgum.

Við þurfum að staldra við og skoða hvert við erum komin og hvert við viljum fara. Hvernig viljum við að skólinn þroskist á næstu fimm árum.

Það blasir við að eitt af mikilvægustu hlutverkum rektors verður að afla fjár og stuðnings yfirvalda. Í því efni hef ég mikla reynslu og veit hvernig leggja þarf slíkt verkefni upp gagnvart stjórnvöldum til að ná árangri. Ég kvíði því ekki heldur hlakka ég til að takast á við það. Árangurinn byggist á því að almenningur í landinu sjái Háskólann sem kjölfestu samfélagsins, grunnstoðina fyrir menntun og skólakerfið allt, þekkingarsköpun og faglega leiðbeiningu samfélagsins alls. Þannig skiptir mestu að endurnýja erindi skólans við íslenskt samfélag og íslenskan almenning, og þá getum við gert nýjan sáttmála – með skýrri aðgerðaáætlun um hvernig við ætlum að byggja skólann upp.

En peningar eru aðeins hluti þess sem skólinn þarf nú á að halda. Við höfum gengið í gegnum erfitt tímabil, ekki aðeins sem Háskóli heldur sem samfélag, og starfsánægjukannanir sýna að hér er verk að vinna. Ef fólki líður ekki vel í vinnunni, þá geislar það ekki frá sér því sem það hefur að gefa.

Eftir 5 ár vil ég sjá Háskólann sem vinnustað þar sem allir – nemendur, kennarar og allt starfsfólk – hlakka til að mæta í vinnu á hverjum degi. Aðeins þannig, með því að skapa góðan vinnuanda, náum við að gera okkar besta.

Háskólinn er ekkert án nemendanna og hann hefur miklar skyldur við þetta unga fólk sem trúir honum fyrir menntun sinni. Kjör nemenda, framboð og gæði kennslu, og allar aðstæður nemenda til að geta sinnt námi sínu eru lykilatriði sem rektor lætur sig varða. Ég vil að nemendur Háskóla Íslands gefi skólanum sínum fyrstu einkunn eftir fimm ár fyrir kennslu, rannsóknir, starfsumhverfi og stuðning.

Kennsluhættir eiga eftir að taka miklum framförum og það þarf að styðja kennara við að tileinka sér þá möguleika sem tæknin og nútíma kennslugögn bjóða. Það þarf líka að styðja nemendur í vali sínu og aðlögun að starfi og námi. Stórefla þarf þjónustu náms- og starfsráðgjafar við skólann. En tæknin kemur aldrei í staðinn fyrir manneskjuna, áhrifin af náminu byggjast á því trausti sem verður til milli kennara og nemenda.

Háskólinn á líka að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum, hann á að vera raunverulegt jafningjasamfélag og varast miðstýringu. Það þarf að tryggja jöfnuð faggreinanna, jafnrétti til náms og jafnrétti kynjanna. Það er ekki nóg að styðja jafnrétti í orði – það þarf að sýna það í verki. Því miður skortir á að jafnrétti kynjanna sé virt í verki – eitt augljóst dæmi er sú staðreynd að aðeins ein kona er formaður í lykilnefndum Háskólaráðs eins og ég hef áður bent á.

Háskóli Íslands er svo miklu meira en háskóli – hann er kjölfestan í samfélagi okkar. Hann er langstærsta og áhrifamesta mennta- og rannsóknarstofnun landsins. Hann hefur sérstakt hlutverk hvað varðar kennaranámið. Efla þarf virðingu fyrir kennarastarfinu svo að ungt fólk kjósi að leggja kennslu fyrir sig. Það er áhyggjuefni að nemendum í leik- og grunnkennaranámi hafi fækkað. Við sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands var lögð áhersla á eflingu kennaranáms undir faglegri forystu Menntavísindasviðs. Hér eru miklir hagsmunir í húfi fyrir samfélagið að vel takist til. Ég legg mikla áherslu á að efla Menntavísindasvið og hraða þarf byggingu fyrir sviðið á háskólasvæðinu svo að auðveldara verði að koma á þverfaglegu samstarfi á milli deilda og sviða.

Háskólinn býr yfir mannauði og þekkingu til að setja tóninn í íslenskri umræðu og hann   á að leiða hana með þekkingu og fagleg vinnubrögð að leiðarljósi. Þannig vil ég setja fram hugsjón um háskóla sem þjónar samfélagi sínu en situr jafnframt til borðs með bestu vísindamönnum í hinu alþjóðlega samfélagi. Við getum þetta – við eigum mannauðinn til þess að vera alþjóðlegur og sterkur háskóli sem vinnur í þágu þjóðar sinnar. Við látum ekki annað markmiðið víkja fyrir hinu – við gerum hvort tveggja og gerum bæði markmiðin eftirsóknarverð fyrir starfsmenn skólans.

Verði ég kjörin rektor mun ég starfa að nauðsynlegum breytingum, uppbyggingu og þróun innan skólans næstu fimm árin. Ég tel nauðsynlegt að þá komi nýr rektor að málum með ferska sýn. Ég held ekki að það sé gott fyrir skólann að valdið sé lengi í sömu höndum. Við eigum að skiptast á.

Verði ég kjörin, hlakka ég til að hefjast handa og setja stefnu fyrir næstu fimm ár. Stefnan kemur ekki að ofan – hún verður til í samstarfi en markmið okkar er að eftir fimm ár verði Háskólinn sá jákvæði og öflugi vinnustaður sem við öll viljum vera á.

Það var gaman að standa fyrir utan Aðalbygginguna þann 20. mars og horfa með hópi fólksins upp ti himins. Horfa til stjarnanna. Þessi stund tákngerði það sem ég er að reyna að segja – að við horfum saman og setjum markið hátt.

 

(byggt á ræðu sem flutt var á málfundi frambjóðenda á vegum Félags prófessora í Háskólabíói þann 16. apríl)

Ljósmynd af Guðrúnu tók Baldur Kristjánsson


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283