Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Öruggasta skjólið

$
0
0

Ég átti ömmu – ömmu sem var mér miklu dýrmætari en rúbínar. Guðrún Þórdís hét hún, fædd 24. nóvember 1890. Hvernig var hún? Trúuð, væn og vel liðin, góð og falleg. Þegar ég kom til sögunnar var hún búin að lifa tvær heimsstyrjaldir og bróðir hennar var veginn í lok þeirrar síðari. Hún var búin að missa tvö fyrstu börnin sín úr lungnabólgu, nokkrum árum áður en penisilínið var uppgötvað, og síðan ala upp fimm falleg og fáguð börn.

Amma 25 ára.

Amma 25 ára.

Árið 1910 höfðu þau farið saman til Kaupmannahafnar til náms, stuttfættu systkinin Guðmundur og Guðrún Þórdís, hann til að skrifa, hún til að læra til klæðskera. Guðmundur kom aldrei framar heim til búsetu og var veginn í Kaupmannahöfn daginn sem stríðinu og fimm ára hernámi Þjóðverja í Danmörku lauk, þann 5. maí 1945.

Guðmundur Kamban.

Guðmundur Kamban.

Amma kom heim 1918 og stofnaði saumastofu. Hún réði þangað konu að nafni Ingibjörg Bachmann, hverrar bróðir, Hallgrímur, síðar ljósameistari, fór fljótlega að sniglast þar. Eftir einhvern tíma segir amma: ‚Ekki langar mig nú til að giftast, Halli minn, en hvað myndirðu segja ef ég bæði þig um að eignast með mér barn?‘ Afa rak í rogastans og stundi upp: ‚Þá myndi ég segja að það væri mér lífsins ómögulegt!‘

Börnin urðu sjö, fimm þeirra komust á legg og eru nú öll horfin til strandarinnar löngu.

Hún var hláturmild og hló oft þar til hún grét, hún amma, sem oft tók mig með sér af Óðinsgötunni upp í Hólavallakirkjugarð, að snyrta leiði hins og þessa fólks sem henni hafði verið kært, á meðan ég rólaði mér á keðjunum á milli leiðanna. Þegar ég spurði hana hvers vegna hún væri að þessu, sagði hún: ‚Að syrgja sýnir virðingu; en helgidómurinn felst í því að muna.‘

Eitt sinn sendi hún afa að kaupa blóm og leggja þau á leiði tengdamóður ömmu, Hallfríðar Bachmann ljósmóður. Sömu nótt dreymir ömmu að Hallfríður kemur fremur snúðug og fleygir í hana blómvendi. Daginn eftir spyr amma afa hvort hann hafi ekki farið með blómvönd á leiði móður sinnar: ‚Æ, Guðrún mín, ég fann ekki leiðið hennar mömmu, svo ég setti bara blómin á leiðið hennar mömmu þinnar.‘ Afi hafði ekki gert sér grein fyrir því þegar þar var komið sögu, að amma væri beintengd við almættið.

Biblíuþekking mín er vitanlega líka frá ömmu; eftir að hún fór að sjá illa var það besta sem ég gat gert fyrir hana að lesa úr Biblíunni – hún valdi ritningargreinar og ég las. Fæstum er gefin slík sannfæring, þessi djúpstæða fullvissa um skapara okkar og tilgang. Síðar hugsaði ég til þess að hún valdi aðallega úr GT og ávarpaði Guð en ekki son hans eingetinn, en skildi loks að hún hefur kunnað betur við að snúa sér til manns á sínum aldri.

Hvers vegna er hún mikilvægasti punkturinn á kompásnum mínum, svona fyrir utan að veita mér ótakmarkaða ást og gæsku? Hún lét mig oft lesa orð Prédikarans:

‚Hinir fljótu ráða ekki yfir kapphlaupinu, né hinir sterku yfir stríðinu, né spekingarnir yfir brauðinu, né vísir menn yfir auðnum, hvað þá hagleiksmenn yfir stuðningnum, því tími og tilviljun mætir þeim öllum.‘ Prédikarinn 9:11

Guðrún Þórdís.

Guðrún Þórdís.

Amma sagði að erfiðleikar hittu alla fyrir, einhvern tímann á lífsleiðinni‚ og þá þarftu að hafa eitthvað innra með þér, til þess að komast af og í gegnum eitt líf, þarftu eitthvert innra haldreipi.‘ Þessi lágvaxna kona gat kennt mér hugrekki.

Ég á mörg bréf frá henni, send til Kaupmannahafnar á áttunda áratugnum; Atlanta og New York á þeim níunda. Hún bendir mér á að biðja Drottinn að hjálpa mér – og biðja hann ekki bara einu sinni, heldur oft. Í einu bréfi kemur hún með fyrirmæli í eftirskrift: ‚Gerðu aldrei neitt sem þú þarft að iðrast.‘ Ég held að þarna sé hún að koma með þráð í þetta innra haldreipi.

Í síðasta bréfinu segir hún að ég hafi hryggt sig. Með kuldalegri framkomu, ekki við hana heldur annan aðila. Það er þó ekki það sem fer með mig, við að lesa bréfin hennar upp á nýtt núna. Heldur næstsíðasta bréfið, þar sem hún biður mig fyrirgefningar, á einhverju tilteknu sem ég get ekki lesið og grunar ekki hvað er. Ræð ekki við grátinn og get ekki lesið meira í gegnum tárin. Amma að biðja mig fyrirgefningar! Þannig var hún: Auðmjúk og staðföst í trú sinni, óhrædd á Drottins vegum. Amma gat kennt mér auðmýkt.

Sem krakka var mér árum saman trúað fyrir því að fara með bita til afa niður í Þjóðleikhús. Öll þau ár lét amma sem hún vissi ekki að ég væri að fara til að, jú, skutla bitanum í afa, en fara svo upp í ljósastúku og sjá sýninguna. ‚Mikið ertu góð stúlka, Þórdís mín‘, var það látið heita. Þannig var hún, laðaði fram það bezta í fari fólks með blíðmælgi og í þessu tilviki, óverðskulduðu hóli.

Í fangi ömmu.

Í fangi ömmu.

Þannig var það líka með köttinn. Afi var gjarnan að koma heim löngu eftir sólsetur og kötturinn, sem tekinn var upp á því að planta sér á dyraþrepið, hlykkjaðist þá um fætur hans svo lá við falli. ‚Hvað er þessi köttur alltaf að gera hérna?‘ sagði afi byrstur. ‚Ég skil það ekki, Hallgrímur minn, ég er margbúin að segja honum að snáfa héðan,‘ sagði amma. Nema hún notaði sömu taktík á köttinn, sýndi honum góðsemi með því að koma út með sporð og rjóma í skál, lúta niður að honum og hvísla blíðlega: ‚Farðu svo og láttu ekki sjá þig hérna aftur.‘ Þannig var hún: Gefandi, líknandi.

Umfram allt gat hún kennt mér kærleika, því eins og hún segir í einu bréfanna: ‚Mundu að sýna öðrum kærleika – við þráum öll kærleika, elsku Þórdís mín.‘ Ekki veit ég hvort ég læri nokkurn tíma að lifa samkvæmt öllu því sem mín elskulega móðuramma gat kennt okkur barnabörnunum sínum fjórtán. En ég veit hvernig ég minnist hennar sem bætti í hörpuna mína strengjum ástar, gleði, vonar og trúar. Hún plantaði sér svo rækilega í hjartað á mér að þar er hún ódauðleg þótt hún hafi farið annað fyrir 32 árum – eins og rósarunni sem klipptur er að hausti og blómstrar aftur að vori.

Með þakklæti, auðmýkt og kærleika, elsku amma mín, sem ég ætla að tileinka þessa ritningargrein, því þú hefur svo sannarlega uppfyllt lögmálið:

‚Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað; því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið.‘
(Róm 13:8)


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283