Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Álfurinn leysir fólk úr fjötrum

$
0
0

Arnþór Jónsson formaður SÁÁ skrifar:

Frægasti hluti sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna er inngangur hennar. Þar er skrifað að sjálfgefið sé (e. self-evident) að allir menn séu skapaðir jafnir og að skapari þeirra hafi gefið öllum mönnum óafsalanleg réttindi til frelsis, hamingjuleitar og lífs.

Þegar þessi fræga yfirlýsing var samin og undirrituð af landsfeðrum Bandaríkjamanna árið 1776, var þrælahald í landinu almennt og sjálfir héldu landsfeðurnir ófrjálsa, hamingjusnauða og réttdræpa þræla.
Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna markaði engu að síður þáttaskil í lýðveldissögunni, ekki aðeins þar vestra, heldur hafði hún einnig mikil áhrif hjá öðrum þjóðum.

Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig er að vera manneskja sem gengur kaupum og sölum – ófrjáls og hamingjusnauður þræll.

En það er líka mjög snúið að setja sig í spor þrælahaldara sem sömdu yfirlýsingu um að allar manneskjur hefðu sama rétt til frelsis og lífshamingju. Mótsögnin er svo furðuleg og fordómarnir stækir.

Í okkar fallega landi eigum við stjórnarskrá þar sem er svohljóðandi yfirlýsing um mannréttindi: „…allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.”

Setjum okkur í spor íslenskra barna – þeirra sem fæðast inn í óheppilegar og jafnvel óbærilegar aðstæður. Barna sem alast upp við óöryggi og stöðugan ótta og kvíða.

Föst í heimilisaðstæðum þar sem er vímuefnaneysla og lítill stuðningur til góðra verka. Börn sem fá ekki sömu tækifæri og aðrir. Börn sem verða ráðvillt ungmenni og flosna líklegast upp úr skóla og eru félagslega ver stödd en jafningjarnir.

Hvaða ófrjálsu ungmenni ætli þetta séu? Er hægt að finna þau og hjálpa þeim? Njóta þau raunverulega mannréttinda samkvæmt stjórnarskránni?

„Fíknsjúkdómar eru mjög alvarlegt vandamál í okkar samfélagi sem við höfum vanmetið. Þeir eru mjög arfgengir og ganga mann fram af manni í sumum fjölskyldum,“ segir Kári Stefánsson, læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Nákvæmlega!

Um 80% af sjúklingum sem leggjast inn á geðdeildir eru börn alkóhólista. Börn, sem eru hætt að vera börn og hafa búið í flóknu og sjúku umhverfi þar sem áfengisneysla litar allar skemmtanir, tyllidaga og viðburði og jafnvel daglegt líf þessara barna ár eftir ár.

Börn eru ofurnæm fyrir umhverfi sínu og ættu foreldrar og aðrir fullorðnir að virða það að neyta ekki áfengis eða annarra vímuefna þegar börn eru á staðnum. Í raun er það spurning um óafsalanleg réttindi þeirra til frelsis, hamingjuleitar og lífs. Frelsi hinna eldri má ekki verða helsi barna þeirra.
SÁÁ rekur sjúkrahús og meðferðarstofnanir sem hjálpa fólki að losna úr fjötrum áfengis og annarra vímuefna. Ríkið borgar hluta af kostnaðinum en til að geta sinn þörfinni þurfa samtökin að safna miklum fjármunum frá almenningi.

Án fjáröflunar eins og álfasölunnar, sem nú er framundan í 26. skipti, þyrfti SÁÁ að loka sjúkrahúsinu Vogi 1. október ár hvert eða fækka um fjórðung þeim sjúklingum sem teknir eru inn á sjúkrahúsið.

Kaupum Álfinn fyrir unga fólkið. Takk fyrir að styðja SÁÁ, nú sem endanær.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283