Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Minningarorð um Svavar Dalmann Hjaltason

$
0
0

Árin 1980–1984 var Hlemmur aðal félagsmiðstöð ungra upprennandi pönkara sem komu saman á hverjum degi og hengu á Hlemmi. Einn daginn tók ég eftir hressum strák sem var glaður og spjallaði við flesta. Hann var snaggaralegur, frekar lágvaxinn, í svörtum leðurjakka, gallabuxum og svörtum klossuðum skóm eins og flestir á þeim tíma.

Svavar Dalmann kynnti sig, rauk í burtu, kom aftur og hvarf stuttu síðar. Svabbi „rauði“ gerði allt af krafti og lífsgleði.

Ári seinna vorum við á sama spítalanum.

Svabbi var vel að sér og fljótur að hugsa. Svörin voru greindarleg.

„Hann nær þessu“ sagði ég og bætti við „hann er vel gefinn.“

Þá vissi ég lítið um alkóhólisma og að sjúkdómurinn fer ekki í manngreinarálit og hefur ekkert með greindarfar að gera eða batavonir í þeim anda.

Svabbi náði oft löngum tímabilum sem lofuðu góðu og hann fullur af eldmóði.

Á tímabilum hélt ég að hann kynni Biblíuna utan að. Hann gat lært og verið fylginn sér í því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann reis upp og hann féll til skiptis. Eins og eðli alkóhólisma er.

Svabbi mætti einhverju sinni í vinnuna mína til að leita eftir styrktarfé fyrir Byrgið sem var nýlega tekið til starfa. Ég tjáði honum að ég hefði mætt á Vesturgötuna og Hvaleyrarbraut, Hafnarfirði og hlustað á Guðmund Jónsson „predika“. Að ég teldi Guðmund sjúkan mann sem nýtti sér illa farna sjúklinga. Stjórnaði illa stöddu fólki, með því að gera það m.a. að hirðsveinum og hirðmeyjum sínum. Fékk það til hlýðni en þegar upp var staðið í þágu hans sjálfs, forstöðumannsins.

Svabbi vitnaði í vers.

Sannarlega vantaði stað fyrir illa statt fólk með fíknsjúkdóma en ekki undir stjórn siðlausra. Vinnustaður minn var tilbúinn að styðja Svabba persónulega á batabrautinni en ekki með peningum sem færu í hendur stjórnar Byrgisins. Það kemur ekki á óvart að Svabbi hafði safnað mestu styrktarfé úti í bæ til Byrgisins. Hann var forkur og vildi trúa á það góða í fólki og sjálfum sér á batabrautum.

Til að gera langa sögu stutta varð Svabbi undir í baráttunni við Bakkus o.fl. Hann varð þekktur „útigangsmaður“ sem betlaði fyrir spritti. Hann var oft hræðilega veikur.

Hann sat stundum í tröppunum inni í JL-húsinu og vantaði meira alkóhól til að halda sér gangandi. Þá var honum tíðrætt um son sinn sem lést fyrir aldur fram. Einstaklega laglegur drengur. Bakkus og efni tóku meiri og meiri toll af heilsu hans svo það varð æ sorglegra að hitta Svabba.

Ég sá hann síðast 1. apríl sl. á Eiðistorgi með vökvann sem hafði rústað lífi hans og sært marga sem þótti vænt um hann. Mest hann sjálfan.

Svabbi var sjúklingur og stundum er dauðinn líkn. Sé hann glaðan og þrautalausan, eins og á Hlemmi forðum. Þegar lífið blasti við honum svo kátum og frjálsum.

HVÍL Í FRIÐI, SVAVAR DALMANN HJALTASON.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283