Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Æi, hvað þetta er flókið allt saman

$
0
0

Æi, þetta er bara allt svo flókið.

Í seinasta mánuði komst ég að því að 33,3 er lægri tala en 3,3. Samkvæmt atvinnumönnum í fjármálum og rekstri allavega. Stærðfræði er ekki mín sterka hlið en ég ætla samt að setja spurningarmerki við heilindin á bak við „33,3<3,3“. Svo komst ég að því að baráttulagið um íspinnana var ekki bara gamansöm myndlíking fyrir munnmök og Freudíska valdablætið því tengt heldur líka alvöru atburður. Alvöru atburður eins og emúa-stríðið og potta-stríðið.

Emúa-stríðið var alvöru hernaðarlegur atburður í mannkynssögunni en samt einhvernvegin trúverðugra en íspinnakjaftæði HB Granda.

Virðist vera Eddie Izzard brandari en er samt trúverðugra en íspinnakjaftæði HB Granda.

Ég komst líka að því að þegar þú átt eitthvað þarftu ekki að verja það. Svo lengi sem þú átt vel meira en nóg af því. Ef láglaunamaður vill fá stærri sneið af kökunni þarf hann að takast á við her hagfræðinga og atvinnurekenda sem allir hrauna út úr sér möntrum um verðbólgur og stöðugleika. En hækki einhver þegar ríkur í launum þarf hann ekki einu sinni að útskýra það fyrir sjálfum sér. Í mesta lagi mætir viðkomandi nett pirraður í fréttir einhvers staðar eins og nágranni í partíið fyrir neðan; „Æi, getiði ekki farið að lækka í ykkur?“

Mikið langar mann til að hrópa og öskra til baka. Mann langar svo til að heimta réttlæti með blaktandi fána Bolsjévíka bak við sig í anda. Burt með ykkur auðvaldið! Gjalda skuluð þið verkalýðnum það sem verkalýðsins er! Viva la comrade!

En svo tekur við raunveruleikinn í formi grárra jakkafata, dauflegra augna og opinberrar byggingar í bakgrunni. Mættir eru á skjáinn hagfræðingarnir að útskýra af hverju von um betri laun sé skaðleg samfélaginu. Einhver óþægilegri uppljómun seinasta mánaðar;

stétt fræðimanna er í vinnu við að sannfæra okkur um að hagsmunum allra sé best borgið með misskiptingu.

Hver á að rífast við þá? Á ÉG að gera það?! Þeir eru búnir með háskólastærðfræði, ég komst rétt svo upp úr tíunda bekk! Og jafnvel þótt ég gæti algebru, hvað ætti ég að segja? Hagfræði og heilinn minn eru ekki samræmanlegur hlutur. Ég skrifa t.d. minnispunkta í stílabók, ekki Excel, og reyni að hugsa um náungann sem annað og meira en útgjaldalið skattaskýrslunnar.

Hagfræðingur að reyna að útskýra hvernig honum hefur liðið illa eftir að kærastan byrjaði að halda framhjá.

Hagfræðingur reynir að útskýra hvernig honum hefur liðið illa eftir að kærastan fór að halda framhjá.

En þetta er alveg alvöru speki með ógrynni mikilsvirtra og sprenglærðra snillinga. Það væri fáránlegt fyrir sófaklappstýru vísindanna eins og mig að ota skít að heilli fræðigrein. Er það ekki?

Jú. Ég veit það alveg. Samt mun ég ekki geta hrist af mér þá sýn á hagfræðinginn sem ég fékk í dagdraumi;

Það var fréttatími og verið var að rakka niður þessa barnalegu féfíkn vinnufólks. Mig langaði að svara út í loftið en náði ekki hausnum utan um hvað ég ætti að segja. Háskólagráðan á skjánum ældi bara út úr sér svo stórum tölum úr allt of flóknum rannsóknum og löngum ritum með óhugsanlegum hugmyndafræðum á hraða sem almúgaheilinn náði ekki. Þá færðist ég aftur um aldir í líkama ólærðs hreppsómaga. Ég var staddur í kirkju og frammi fyrir mér stóð presturinn, íklæddur skikkju og naut sín við pontuna. Hann talaði niður til okkar og skammaði fyrir fýsnir og langanir. Konungurinn átti Ísland og konungurinn var undir náð guðs. Við ættum að þakka fyrir að hafa ask yfirleitt. Hvernig gat ég svarað þannig manni? Hann talaði grísku, latínu, dönsku og íslensku! Ég sem gat ekki einu sinni dregið til stafs, hvað þá svarað vitnunum í bók bókanna.

Yfir bitru og sáru fólkinu standa varðhundarnir: „Status quo. Status quo. Status quo er guð. Verið bara lengur í vinnunni til að kaupa drasl sem þið þurfið ekki fyrir peninga þið hafið ekki og allt verður í lagi. Status quo. Status quo. Status quo er guð.“

"Við verðum að halda vöxtum í... uhh, ég meina... GUÐ SAGÐI MÉR að dagurinn færi í að byggja píramída handa mér svo hættið að kvarta."

„Samkvæmt hagspá Seðlabankans verðum við að halda vöxtum í… uhh, ég meina… GUÐ SAGÐI MÉR að dagurinn færi í að byggja píramída handa mér svo hættið að kvarta.“

Ég bara skil ekki. Það er allt svo flókið. Eins og launabónusarnir sem fengu mig til að hugsa um allt þetta. Hvað er það? Ef ég stend mig vel í vinnunni fæ ég að vinna meira. Ef ég stend mig illa er ég rekinn. En ég vinn auðvitað ekki í fjármálageiranum. Ef ég stæði mig vel þar fengi ég borgað enn þá meira. Og stæði ég mig illa fengi ég bara borgað. Eða borgað meira. Það virðist ekki skipta máli.

Segjum að það sé út af ábyrgðinni og til að tryggja hæft fólk og óspillt. En ef þú ert óhæfur eða spilltur í þessu starfi þá ertu ekki bara rekinn; þú færð starfslokasamning upp á monnínga sem öll mín ævi gæti ekki skaffað. Allt fyrir afglöp sem ég yrði a.m.k. rekinn fyrir, gott ef ekki kærður, þar sem ég starfa á neðsta plani víti- ég meina Íslands.

Held ég, þetta eru einu fréttirnar sem ég fæ úr heimi vísitalna og hlutabréfa. Kannski eru þetta lífsnauðsynleg störf sem verðskulda milljónir ofan á milljónir. Ekki að ég myndi vita. Ekki að ég viti neitt yfirleitt.

Einhvern tímann var gestrisni ris og fall og mælikvarði samfélagsins. Lítið bara til Íslendingasagnanna, allar bestu sögurnar byrja út frá broti á grunnreglu siðferðisins; vertu góður gestgjafi. Bláeygð rómantík hjá mér án efa. En þetta er arfleifð þess tíma, sú rómantíska sýn. Hver verður arfleifð þessa samfélags? Það er lögmál okkar að fá borgað fyrir eiga og borga fyrir að eiga ekki.

Og enn flóknara verður það bara þegar ég hugsa um gestrisni. Það eru ljótir grunnar og auðar íbúðir hvert sem ég fer í hvaða kaupstað sem er en samt hefur enginn efni á að flytja inn neins staðar. Framboð og eftirspurn á víst að vera frekar einfaldur grunnur fyrir hagfræðina en hrærigrautur aðstæðnanna þar meiðir mig í hausnum. Alla vantar ódýrar íbúðir en enginn hefur efni á að byggja þannig. Alls staðar er autt en enginn hefur efni á að vera þar. Þú getur reynt að kaupa hús og ef það virkar ekki er þér hent út – en þú þarft samt að halda áfram að borga. (ÁI HAUSINN MINN!)

Mig langar ekki í neitt rosalegt. Svefn- og sjónvarpspláss með lítilli eldavél og baðherbergi. Er það virkilega alltof dýrt til að byggja og leigja? Bara rétt nógu stórt til að ég geti komið með stelpu heim og hún hugsi ekki „Já nei, þú ert raðmorðingi.“

859262_4966651297426_215571589_o

Ég hef aldrei tekið stelpu með mér neitt. Og þegar ég lít svona út, þá er stór íbúð ekkert að fara að breyta neinu um hvort hún haldi mig klikkaðan eða ekki.

Einhverjir virðast samt pirraðir eins og ég, og mikið skýrari í hausnum. T.d. ætlar fólk í verkfall. Flott hjá ykkur! En því miður hafa verkföllin bara gert mig enn ruglaðri. Í öllum þessum átökum er nefnilega talað um að leggja lögbann á verkföllin. Lögbann.

Bann…

… á það að vinna ekki?

Ég hef spurt og spurt um hvað felist í lögbanni á verkföll. Því ég hef í alvörunni ekki minnstu örðu af hugmynd um hvernig það virkar. Eina sem ég fatta varðandi þá hugmynd er hversu ekta íslensk hún er:

„Ég ætla ekki að vinna.“
„Uu víst ætlarðu.“
„Ó-ókei þá.“

Það verður þá ólöglegt að vinna ekki, en löglegt að borga ekki laun. Það er kúgun að sýna fram á virði vinnunnar sinnar, en það eru viðskipti að borga ölmusur til þeirra sem eiga ekkert annað að selja en tíma sinn og líkama.

Mín sérgrein í lífinu er óþarfa þekking á poppmenningu Vesturlanda og að drekka óhóflega mikið kaffi. Allt annað hérna er bara of flókið fyrir mig. Getiði einfaldað þetta… allt bara?

Þau sögðu að ég myndi skilja allt þegar ég yrði eldri. Svo varð þetta bara flóknara.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283