Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Örorkubætur frá Íslandi og lífið í útlöndum

$
0
0

Það er orðið nokkuð langt síðan ég ætlaði að smíða þennan pistil en margir samverkandi þættir hafa orðið til þess að það hefur dregist á langinn.
Fyrir það fyrsta hef ég þurft að viða að mér gögnum frá einstaklingum erlendis, verslunum, opinberum stofnunum bæði hér heima og erlendis, fyrirtækjum og bönkum erlendis svo fátt eitt sé talið upp.
Ég hef fengið fólk til að senda mér kassakvittanir úr verslunum erlendis til að bera saman verð á nauðsynjavörum, verð á leiguhúsnæði og ýmislegt fleira hefur þurft að tína til svo hægt væri að fá einhverja raunhæfa mynd af því hvort íslenskir öryrkjar gætu mögulega átt sér betra líf á erlendri grundu heldur en á Íslandi.

Ótrúlegustu hlutir hafa komið í ljós við þessa gagnaöflun, upplýsingar og niðurstöður sem hafa gert það að verkum að maður hefur reiknað hlutina aftur og aftur upp á nýtt, sett upp töflureikna til að reyna að sannfæra sjálfan sig um að eitthvað hljóti að vera rangt í öllum þessum útreikningum því allt ber þetta að sama brunni þegar niðurstöðurnar liggja fyrir, Ísland er dýrasta land í Evrópu þegar kemur að húsnæði og nauðsynjavörum fyrir utan Noreg þar sem verðlag er ekki ósvipað því sem gerist á Íslandi og því væri með öllu ómögulegt fyrir öryrkja á íslenskum bótum að flytja þangað búferlum því hann væri ekkert betur settur þar í landi.

Verðlag á matvöru erlendis

Það kom mér á óvart þegar ég var í Svíþjóð um páskana, hvað verðlag á matvöru var lágt þar í landi og fór að bera saman verð á matvælum þar sem ég var staddur, í smábæ norðan við Karlstad þar sem voru tvær matvöruverslanir og ekki þær ódýrustu.

Þar var verðið á heilum kjúkling meira en helmingi lægra en á Íslandi.  Úrvals nautahakk, 8 til 10% fituinnihald, var á tæpar 600 krónur kílóið, en þess má geta að Krónan auglýsti í síðustu viku hakk á tilboði á 1.790 krónur í verslunum sínum sem er þrisvar sinnum hærra heldur en hakkið í Svíþjóð.
Djúsí nautasteikur á um 600 kall kílóið, svo girnilegar að maður fékk vatn í munninn af því að horfa á þær í kjötkælinum.

Svona væri hægt að telja upp lengi vel verðlagið erlendis þar sem er virk samkeppni og ekki svindlað og okrað á neytendum eins og hér á landi þegar kemur að landbúnaðarvörum.

Hvernig okrað er á neytendum á Íslandi er enn eitt dæmið sem þarfnast ítarlegrar skoðunar því þegar kemur að innflutningi á kjötvörum, þá er lagður 600 króna verndartollur á kílóið til að „vernda“ innlenda framleiðslu.
Allt gott með það, en kaupmenn nýta sér þetta algjörlega í botn og í stað þess að sleppa þessari 600 króna álagningu á íslenska framleiðslu, þá er hún verðlögð á það sama og sú erlenda þannig að gróðinn af því að selja íslenska framleiðslu rennur beint í vasa verlsunareigendanna.
Í því liggur svínaríið og svindlið á neytendum og ekki nóg með það, maður sér verðið á matvöru hækka í hverri viku og þannig hefur það verið síðastliðið ár.

Fari maður með 400 sænskar krónur út í búð í Svíþjóð, 6.274 krónur íslenskar, þá labbar þú út með tvo troðfulla innkaupapoka af góðum mat en hérna dugar þessi upphæð varla til að halda lífinu í einni fjölskyldu í tvo til þrjá daga, hvað þá meira.

Í samtölum mínum við fólk í Svíþjóð hefur komið upp úr kafinu að fjögurra manna fjölskylda sem gerir stórinnkaup einu sinni í viku og kaupir síðan eitthvað smotterí daglega er að fara með þetta í kringum 5.000 sænskar krónur í matarreikning á mánuði sem gera um 78.500 íslenskar samkvæmt gengi dagsins í dag, 5. maí 2015.  Þá erum vð að tala um fólk sem kaupir mikið af kjötvörum, grænmeti og ávöxtum.
Ef maður síðan miðar við sambærileg innkaup hér á landi í lágvöruverðsverslunum, þá erum við að tala um upphæð sem er alla vega helmingi hærri í krónum talið.

Hér að neðan er auglýsing frá Bónus þann 7. maí 2015.
Verð í Sænskum krónum er eftirfarandi Dönskum þar á eftir og síðan evrum:
Grísakjötið í efstu röð, = 101,87 SEK,  80,95 DKR, 10,85€
2 stk Hamborgarar, (kjötið er frá Spáni) = 31,75 SEK, 25,23 DKR, 3,38€
Nautahakk (frá Spáni) = 89,12 SEK, 70,81 DKR, 9,49€

Gaman væri svo ef þeir sem búa erlendis og lesa þetta mundu skjóta inn umsögnum og jafnvel verði hér að neðan við pistilinn og segja okkur hvernig verðlagi er háttað í því landi sem þeir eru búsettir.

Bónus 7. maiGetur öryrki lifað af í Svíþjóð?

Já, hann getur það með því að leigja ódýrt og lifa spart því ef viðkomandi fær 170 þúsund íslenskar útborgaðar þá gera það tæpar 11 þúsund sænskar krónur.
Tveir öryrkjar geta því komist vel af þar sem þá er upphæðin komin í rúmlega 21 þúsund og það sem meira er, þá getur fólk jafnvel lagt fyrir ef það lifir spart og safnað sér fyrir útborgun í húseign á tiltölulega skömmum tíma því bankar í Svíþjóð lána allt að 80% í húsnæði og það sem meira er, lán þar eru ekki verðtryggð og vextir eru lágir þannig að afborganir fara ekki mikið yfir 3 þúsund sænskar á mánuði.  Kosturinn er svo líka sá að fólkið sér lánið sitt lækka við hverja afborgun.

Þeir sem eiga kost á því að flytja utan og hafa úr einhverju smáræði að spila ættu að íhuga þann kost vandlega því ströglið og barningurinn hérna veldur því bara að fólk er lagst í gífurlegt þunglyndi og sjálfsmorðshugsanir og það gerist af því fólk hefur ekki efni á að gera nokkurn skapaðan hlut sér til afþreyingar og dægrastyttingar.  Það er engum hollt að hanga heima yfir tölvunni eða sjónvarpinu sólarhringum saman og hafa ekki efni á mat eða nauðsynjum lungann úr mánuðinum.  Sjúklingar sem þjást af gigtarsjúkdómum fara ekki út úr húsi vikum saman vegna veðurfarsins í landinu og það ýtir enn meira undir andlega sjúkdóma hjá þessum hópi sem leggjast bara með auknum þunga á heilbrigðiskerfið í landinu og hægt væri að koma í veg fyrir með smá fyrirhyggju og framsýni ráðafólks.

Ísland er mannfjandsamlegt samfélag

Þegar kemur að sjúkum, öryrkjum og öldruðum er Ísland meira en mannfjandsamlegt því þessum hópum fólks er haldið í fátæktargildru sem fólki er með öllu ómögulegt að brjótast út úr þegar það er einu sinni komið í hana.

Í grein sem Marinó G. Njálsson, bloggari með meiru, skrifaði í febrúar 2012 fer hann yfir það hvernig þessir hópar eru skattlagðir öðrum fremur og níðst á þeim á allan hátt sem hugsast getur af stjórnvöldum ásamt því sem allar tekjur eru skertar í botn með lögbundnum þjófnaði.
Sem dæmi:

„Margt í almannatryggingakerfinu er sett þar inn af göfugum hug.  Þá á ég við barnabætur, makabætur, ekkju- eða ekklabætur, örorkulífeyri, örorkustyrki, ellilífeyri, tekjutryggingu o.s.frv.  en svo átta menn sig á því að ríkissjóður stendur ekki undir þessu öllu.  Við því er brugðist með tekjutengingum á alla kanta.  Slíkar tekjutengingar eru náttúrlega ekkert annað en jaðarskattar eða hreinlega aukaskattheimta á lífeyris- og bótaþega.  T.d. borga lífeyrisþegar tvöfaldan fjármagnstekjuskatt á við aðra.  Tekjuteningar gera það að verkum að um leið og persónuafslætti lýkur, þá tekur við kerfi, þar sem lífeyrisþegar fá ekki að njóta aukinna tekna. Þeir eru hreinlega skattlagðir hátt í 100% af öllum umframtekjum“.

Þetta er bara eitt dæmið um fáránleika almannatryggingakerfisins sem múlbindur lífeyrisþega í fjötrum fátæktar þó svo þeir hafi einhver tök á því að vinna sér inn einhverjar krónur, þá er allt rifið af þeim og stundum rúmlega það að auki.

„Ein er sú skerðing sem ég skil ekki eða á ég að kalla skatt.  Það er skerðing vegna fjármagnstekna.  Fjármagnstekjur eru taldar sameiginlegar hjónum.  Þannig að sé annað lífeyrisþegi, þá skerða fjármagnstekjur hins lífeyrisgreiðslurnar sem nemur 25% af fjármagnstekjunum.  Ekki er einu sinni gert ráð fyrir fjármagnstekjuskattinum, sem þýðir þá að 25% af því sem er eftir skattinn skerði tekjurnar.  Nei, það er of flókið.  Fái hinn aðilinn 100.000 kr. í fjármagnstekjur, þá renna fyrst 20.000 í skatt og síðan dragast 25.000 kr. frá lífeyrinum.  Þannig að af 100.000 kr. eru 55.000 kr. eftir.  Maki lífeyrisþega og lífeyrisþegi borga því 45% fjármagnstekjuskatt.  Og ég hélt að fjármagnstekjuskattur ætti að vera lægri en tekjuskatturinn!  Af þessari ástæðu, þá er ódýrara fyrir maka lífeyrisþega sem er með eigin starfsemi (einyrki), að hafa starfsemina á eigin kennitölu því að öllum líkindum borgar þá viðkomandi ekki nema 42% skatt af hagnaði í staðinn fyrir 45%!“

Fáránleiki skattkerfisins í allri sinni dýrð og þó þetta hafi hvað eftir annað verið borið undir ÖBÍ, þá hefur ekkert gerst í þeim félagsskap til að standa vörð um öryrkja eða hagsmuni þeirra.  Þar virðist yfirstjórnin aðeins vera til skrauts, gefa út máttlausar yfirlýsingar og hirða há stjórnendalaun sín.

Og drepum enn niður í pistilinn:

„Mannvonskutilfellin eru svo mörg að það mundi æra óstöðugan að telja þau upp.  Til mín kom um daginn maður sem heldur úti vefsvæði, þar sem vakin er athygli á mannréttindum lífeyrisþega.  Án þess að þekkja sögu hans neitt umfram það sem hann sagði mér á hlaupum, þá virtist mér sem kerfið væri markvisst að brjóta hann niður.  Öll sjálfsbjargarviðleitni er lamin til baka af fullri hörku.  Honum skal gert ókleift að lifa sjálfstæðu lífi.  Þannig er saga margra öryrkja.  Hrúgum þeim inn í sambýli, þar sem hægt er að fela þá fyrir umhverfinu.  Tölum niður til þeirra á opinberum fundum með því að segja „ástandið getur nú ekki verið svona slæmt“, eins og ég hef heyrt nokkra ráðherra segja.  Jú, það er það og líklegast mun verra.“

Þetta er bara eitt dæmið því hann telur upp fleiri slík.
Er nema von að fólk í þessum hópum sé farið að farga sér í stórum stíl?

Eitt dæmi enn.

„Almannatryggingakerfið á ekki að vera vandamál eða olnbogabarn.  Það á að vera verðugt viðfangsefni, þar sem unnið er eftir skýrum markmiðum.  Ég geri mér fyllilega grein fyrir að öllum markmiðum verður ekki náð, en séu þau ekki til staðar, þá vitum við ekki hvert við stefnum“.

Pistil Marinós í heild sinni má lesa með því að smella hérna og ég vil líka hvetja lesendur til að renna yfir umsagnirnar neðan við pistilinn því þær eru mjög svo athyglisverðar.

Hvað sem því líður og hvað sem gerist á næstu mánuðum er alveg ljóst að kjör okkar sem tilheyrum þessum hópum lægst og verst setta fólksins í þessu þjóðfélagi eiga ekki eftir að batna á næstu árum, þvert á móti eiga þau bara eftir að versna með tilheyrandi vanda fyrir samfélagið allt.

Þeir sem hafa tök á því ættu því að hugsa sinn gang hvað varðar það að koma sér úr landi því þannig geta þeir lengt líf sitt og aukið sitt andlega heilbrigði en það sem mest um vert er þó að geta átt fyrir nauðsynjum og lyfjum út mánuðinn.

Ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en mun skrifa fleiri og ítarlegri pistla í framtíðinni um þessi mál.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283