Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Dæmið ekki …

$
0
0

Þú vilt að ég sé eins og þú. Þú vilt að ég hugsi eins og þú. Þú vilt að ég geri eins og þú. Því það er leiðin sem á að fara. Venjulega leiðin. Það er rétta leiðin.

Stattu þig vel í skóla. Ákveddu ung hvað þú ætlar að verða. Eigðu allavega eina góða systur eða stóran bróður sem passar upp á þig. Þú verður að alast upp í öruggu umhverfi, helst í litlum bæ, og búa þar alltaf. Þú átt að tengjast leikskólavinum eilífum böndum. Fá góðar einkunnir, koma með fullkomið nesti og vera vinsæl, en alls ekki of. Ekki vera nörd, eða standa upp í hárinu á neinum. Stundaðu íþróttir af kappi. Helst hljóðfæri líka. Auðvitað smakkar þú ekki áfengi og hvað þá tóbak eða fíkniefni. Beina brautin frá upphafi til enda.

Í framhaldi af venjulegu heimilislífi þar sem foreldrar þínir helga líf sitt velferð þinni og systkinis þíns átt þú að kynnast yndislega venjulegum og góðum manni. Ákveða að vera með honum alla tíð og aldrei að skipta um. Þið styðjið og styrkið hvort annað í einu og öllu, gangið menntaveginn og fáið góða og stabíla vinnu. Tekjur ykkar duga fyrir allri framfærslu og þið getið líka leyft ykkur eitthvað skemmtilegt inn á milli.

Auðvitað ert þú í saumaklúbb, þið baktalið engan, stundið jóga saman og ætlið í svoleiðis skóla á Balí. Þið hjónin eigið að gifta ykkur í kirkju, þú í hinum fullkomna hvíta kjól sem þig hefur dreymt um alla daga síðan þú varst fimm ára.

11258603_547168086724_197036797_n

 

Þið skuluð eignast að lágmarki tvö börn, helst þrjú, það er svo gott fyrir þróun þjóðfélagsins og þið skírið þau öll undir vernd guðshúss. Þú þarft að borða hollan mat, eiga bústað og bíl, hafa alltaf hreint heima hjá þér og kjósa sama flokk og pabbi þinn. Þið hjónin stundið að sjálfsögðu líkamsrækt til að vera fitt, farið jafnvel á skíði eða í fjallgöngur og ferðist reglulega til útlanda, ýmist með börnin eða án þeirra.

Að sjálfsögðu eruð þið í matarklúbb með öðrum skemmtilegum hjónum og á sumrin farið þið í útilegur með öll börnin þar sem þið tjaldið með vagnana í hring og sameinist eftir kvöldmat inni í einu fortjaldinu og hlæið meðan Jónsi glamrar á gítarinn falleg lög. Auðvitað má aldrei gleyma í öllu ferlinu að þú verður að pósta á internetið hve indælt lífið er.

Mikið sem þið verðið góð saman í ellinni með barnabörnin í heimabænum ykkar, í húsinu sem þið létuð byggja og á endanum látist þið í faðmlögum södd og sæl með venjulega og fullkomna lífið ykkar.

11257671_547168026844_344586102_n

Hljóma ég bitur? Því ég er það ekki. Mér finnst þetta yndislegt. Eiginlega frábært og það sem ég er ánægðust með er að það skuli vera til fólk eins og þú. Því þetta er allt sem mig hefur alltaf langað til. Að vera venjuleg. Stabíl og streða við að vera fullkomin, vera inni í kassanum.

En ég gerði bara ekki ráð fyrir sveigjunum á leiðinni. Að flytja oft, vera strítt fyrir lítil brjóst, að fitna hratt, vera talnablind eða illa læs, að hlaupa hægt, vera með bólur, eiga vondan frænda sem misnotar mig, eiga mömmu sem er alvarlega veik á geði, að lenda í slysi og laskast á líkama, að verða aldrei ástfangin eða að verða of oft ástfangin.

Ég gerði aldrei ráð fyrir að vita ekki hvaða nám væri fullkomið fyrir mig, að hafa ekki hugmynd um hvað ég vildi verða, að í raun ætti ég erfitt með bóklegt nám, að mögulega gæti ég ekki einu sinni smíðað hús vegna gigtar eða farið á útlenska strönd út af spéhræðslu og minnimáttarkennd.

Aldrei hafði það hvarflað að mér að verða nauðgað, áreitt eða niðurlægð af öðrum, að mér þætti gott að drekka og hvað þá að fíkniefni kæmu inn í líf mitt. Sannarlega gerði ég ekki ráð fyrir krabbameinsbaráttu pabba, að maðurinn minn héldi framhjá mér, að ég væri samkynhneigð, ætti ekki fyrir leigunni eða að ég myndi missa vinnuna.

11208897_547167991914_1327315366_n

Á dauða mínum átti ég fyrr von en að maðurinn minn hefði nákvæmlega engan áhuga á samlífi með mér, að amma fengi alzheimer og myndi ekki eftir mér, að geðlyf yrðu álegg ofan á brauð alla daga, að systir mín myndi deyja í bílslysi eða draumur minn um barneignir yrðu aldrei að veruleika.

Heldur þú ég hafi búist við að fá anorexíu, búlimíu eða vera matarfíkill. Að ég myndi upplifa dauða bestu vinkonu, maka eða barns. Að ég hefði ekki löngun til að lifa sjálf vegna áfalla sem ég hef lent í eða aðrir hafa látið mig upplifa.

Hvers vegna veist þú hvað er betra fyrir mig þegar þú hefur ekki lent í þessu? Hvernig getur þú dæmt viðbrögð mín eða gagnrýnt hegðun mína þegar þú hefur ekki staðið í mínum sporum? Af hverju veist þú hvað er best og mér fyrir bestu?

11215936_547168001894_802673030_n

 

Ég veit þú vilt mér vel en ekki dæma mig fyrr en þú hefur staðið í mínum sporum. Ekki þykjast vorkenna mér eða vera betri en ég fyrr en þú hefur upplifað það sama og ég.

Berum virðingu hvort fyrir öðru, sýnum umburðarlyndi, stöndum með þeim sem okkur þykir vænt um og viðurkennum þjáningar annarra. Þú veist aldrei hvernig þú myndir sjálf vera ef þú værir í mínum sporum.

Ég er ekkert vitlaus. Ég veit alveg að það passar ekki inn í kassann að vera fráskilin, einstæð, þriggja stúlkna móðir eftir tvo menn, með blátt hár og tattúæði á gamalsaldri. Ég veit það er ekkert venjulegt eða jafnvel vel liðið að ég elski að prófa allskonar, sé óttalegt fiðrildi, hávær og athyglissjúk.

11251577_547168041814_595436558_n

Ég veit líka að þú hefur skoðanir á því að ég taki mér langan tíma að mennta mig, eigi ekki bíl, flytjist fram og tilbaka milli landa eftir duttlungum, reki skemmtistað, eigi níu árum yngri hjásvæfu, drekki marga kokteila og dansi alla nóttina eða eigi vini sem eru á öllum aldri af allskonar gerðum sem þú kannski fílar ekki. Að ég geri það sem mér sýnist og ali dætur mínar upp til að vera eins og ég því ég er bara helvíti fín miðað við allt.

En þú ert ekki ég og ég er ekki þú. Ef við myndum prófa að skipta gætir þú kannski hætt að dæma og skilið mig betur. En þangað til: elskum hvert annað eins og við erum og sýnum hvert öðru kærleika.

 

Lesið pistil Andreu „HÆTTIÐ að beita okkur líkamlegu og sálarlegu ofbeldi!“ hér.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283