Undanfarið hafa stjórnarflokkarnir verið að birta hinar ýmsu niðurstöður úr skýrslum sem eiga að sýna hvað Ísland sé ofboðslega frábært land, ódýrt að lifa hérna og hversu hagstætt það er fyrir almenning að taka lán til hinna ýmsu kaupa, s.s. eins og bíla og húsnæði. Á sama tíma tala þeir opinskátt um það hvað jöfnuður í landinu hefur aukist, laun og kaupmáttur hækkað og að hér drjúpi smjör af hverju strái.
Þetta gera þeir á sama tíma og þeir skera niður hvað þeir geta í velferðarkerfinu en færa vinum sínum, auðmönnum og útgerðargreifum milljarða á milljarða ofan úr sameiginlegum auðlindum landsmanna og segja að það komi þjóðinni til góða því hún græði svo mikið á því.
Raunin er sú að þjóðin stórtapar meðan auðmennirnir moka milljörðum í eigin vasa en alþýðan sveltur.
Ég ætla ekki að vísa í nein gögn í þessum pistli því þeir sem hafa fylgst eitthvað með, vita hvað er satt og hvað er logið í þessu.
Það þjónar engum tilgangi fyrir mig að ljúga eða ýkja í málflutningi mínum því staðreyndirnar tala sínu máli, lífeyrisþegar í þessu landi langt undir fátæktarmörkum og eiga hvorki í sig né á og almenningur í lægst launuðu störfunum í nákvæmlega sömu stöðu.
Þeir sem hafa tekið lán vita að ég er ekki að fara með fleipur um lána- og vaxtaokur bankanna í landinu og þeir sem greiða af húsnæðislánum sjá lánin sín bara hækka við hverja afborgun.
En hvaða tilgangi þjónar það að setja fram svona tölur sem engar heilsteyptar staðreyndir eru á bakvið?
Hvaða tilgangi þjónar það þegar æðstu stjórnarmenn landsins stíga fram og horfa í augu almennings og ljúga svo blákalt framan í landsmenn án nokkurs snefils af samvisku eða heiðarleika að þeir sem hafa kynnt sér staðreyndirnar sem talað er um vita að um hreinar og klárar falsanir og lygar er að ræða?
Gera ráðamenn sér ekki grein fyrir því að allar þessar upplýsingar sem þeir eru að vísa í eru aðgengilegar á netinu og hver sem er getur nálgast þær og séð afbakaðan sannleikann, lygarnar, falsið og skrumið sem þessi lýður ber á borð fyrir almenning?
Halda þeir virkilega að allir fjölmiðlar í landinu og allir blaða- og fréttamenn éti bara upp lygarnar?
Það eru að vísu til slíkir fjölmiðlar og slíkt fjölmiðlafólk í landinu en sem betur fer eigum við líka fólk sem lætur ekki bjóða sér lygarnar en tekur þær, greinir og leitar upplýsinga um hver sannleikurinn er.
Það eru líka gífurlega margir öflugir bloggarar sem þora að segja sína skoðun á lygunum og afla sér upplýsinga og staðreynda sem hrekja lygarnar sem koma frá ráðamönnum en fólk þarf bara að vera vakandi fyrir því.
Almenningur í landinu er því miður ekki sigldari en svo, því miður, að mjög margir trúa í blindni því sem frá ráðamönnum þjóðarinnar kemur og sérstaklega þegar vafasamir fjölmiðlar og fjölmiðlafólk bakkar lygarnar upp.
Af þeim fjölmiðlum má hiklaust telja upp Morgunblaðið, Vísi, DV og Viðskiptablaðið því í þeim fjölmiðlum er því miður ótrúlega margt sem ekki mundi flokkast sem sannleikur þar sem það er étið gagnrýnislaust upp úr ljúgandi ráðamönnum án athugasemda.
Ef við skoðum bara einn sannleika þegar kemur að umræðum um kaupmáttinn þá skulum við taka einn tekjuhóp út, þá sem eru með undir 300 þúsund brúttó á mánuði og skoða hann.
Hvað kemur í ljós við gagnaöflun?
Jú, kaupmátturinn hefur rýrnað hjá þessum hóp allar götur frá hruni og er enn að rýrna.
Húsnæðislánin.
Sama hvað greitt er af þeim, þá hækka þau bara og hækka með hverri afborgun.
Samt er talað um að afkoma heimilanna sé betri og batni með hverjum degi.
Það er örugglega ekki tekið með í reikninginn að í hverjum mánuði missa á milli 10 og 15 fjölskyldur eignir sínar til okurlánastofnana í landinu.
Verðlag á nauðsynjum hefur bara hækkað meðan lægstu tekjur standa í stað.
Meðan nautahakkið á Spáni, í Danmörk og Svíþjóð er á þetta í kringum 600 krónur í þeim löndum borgum við á Íslandi milli 1400 og 1800 krónur fyrir kílóið.
Sama gildir um allar aðrar matvörur í þessu landi, þær eru tvisvar til þrisvar sinnum dýrari en í löndum Evrópu þrátt fyrir að ráðamenn segi annað.
Það er staðreynd.
Lán á Íslandi eru okurlán sem enginn hefur efni á að taka.
Hér er verðtrygging sem gerir það að verkum að lán hækka og hækka og vextir eru nærri þrisvar sinnum hærri þar að auki en í löndum Evrópu.
Samt halda ráðamenn því fram að hér séu hagstæðustu kjörin.
Hver er tilgangur svona lyga?
Hvað fá ráðamenn út úr því að ljúga svona?
Af hverju þurfa þeir að vera svona óheiðarlegir?
Er þeim skítsama um æru sína og mannorð?
Landsmenn eru of sljóir og of miklir besservissar til að standa saman í að koma óheiðarlegum stjórnmálamönnum frá völdum og restin kýs svo þetta gjörspillta lygahyski yfir sig aftur og aftur án þess að hugsa eina samhangandi hugsun um fortíð þessa fólks og hegðun þess.
Staðan er einfaldlega sú að hér mun ekkert breytast nema fólkið í landinu fari að taka sig saman í andlitinu áður en það verður of seint og standi saman í að halda lygurum, svikurum og lýðskrumurum frá valdastólunum.
Nú þegar eru Íslendingar orðnir að athlægi erlendis fyrir aumingjaskapinn gagnvart stjórnvöldum og enginn vorkennir slíkum aumingjum.
Er ekki kominn tími til að standa saman?