Mér hefur alltaf þótt gott að vera ein, ég í rauninni þrífst á því. Mörgum finnst það skrítið og það kom stutt tímabil í mínu lífi sem mér fannst það sjálfri mjög skrítið en í dag veit ég betur, ég er bara svona og engin ástæða til að breyta því, a.m.k. engin sem ég sé.
Sem krakka þótti mér best að vera ein og lesa bók og í dag þykir mér best að vera ein og vafra um netið og sanka að mér ýmiss konar upplýsingum. Ég á erfitt með að eignast vinkonur, örugglega af því stelpur eiga það til að taka öllu svo persónulega og ef ég vil vera ein þá halda þær ýmist að þær hafi gert eitthvað rangt, mér finnist þær leiðinlegar eða að það sé eitthvað að hjá mér, að mér líði illa. Það er þó sjaldnast þannig, oftast er ástæðan fyrir því að ég vilji ekki koma út að gera eitthvað eða vilji ekki fá fólk í heimsókn einfaldlega sú að ég vil bara fá að vera ein þá stundina og það ætti í raun ekkert að vera svo skrítið.
Ég vil samt eiga vini, ég vil bara ekki hafa þá stöðugt í kringum mig. Ég vil geta sagst vilja vera ein og hafa það notalegt án þess að fá spurningaflóð til baka um af hverju það sé.
Partí og stórir hittingar eru ekki fyrir mig, partí inniheldur of mikið af látum og stórir hittingar gera mig ringlaða því ég vil geta fylgst með öllu til að sanka að mér upplýsingum og jafnvel læra eitthvað nýtt. Ég er þannig gerð að ef ein manneskja er að tala við mig og svo fer önnur að tala þá týni ég þræðinum í samræðunum. Kannski er það athyglisbrestur, ég bara veit það ekki.
Ég lendi líka oft í því að vera með gesti og standa sjálfa mig að því að langa bara að fara og loka mig inni í herbergi og hlusta á tónlist eða kíkja í bók og það er á þeim augnablikum sem ég væri alveg til í að vera pínulítið úthverf, en samt ekki.
Ég þrífst best ein eða með litlum hóp góðra vina eða fjölskyldu og þá er ég að tala um mjög lítinn hóp, ég og í mesta lagi þrír aðrir, annars verð ég einfaldlega of þreytt.
Það koma dagar þar sem ég er meira veik fyrir mannlegu áreiti en aðrir. Þá er eins og ég myndi stóra „búbblu“ utan um mig sem nær tæplega tvo metra í hverja átt. Þessa daga finn ég fyrir nánast líkamlegum óþægindum ef fólk hættir sér of langt inn í „búbbluna“, þá get ég orðið pirruð en það hefur ekkert með annað fólk að gera þannig séð, ég er ekki pirruð eða reið út í það, ég vil bara að það bakki aðeins svo ég geti andað.
Einhvern tímann hélt ég að þessi innhverfa mín væri sjúkleg og kallaðist félagsfælni eða félagskvíði, ég fékk meira að segja skrifað upp á hjá vel menntuðum lækni að þetta væri ástand sem þyrfti að vinna í og laga, það gekk svo langt að ég fékk uppáskrifuð lyf við þessu. Lyf og að reyna að laga ástand sem var svo ekki ástand heldur persónueinkenni gerðu hlutina verri.
Ég fór að reyna að rembast við að fara á stóra hittinga, rembast við að vera öfga félagsleg en það bara virkaði ekki nema þveröfugt við það sem það átti að gera. Ég varð bara reið, pirruð og sár út í sjálfa mig og endaði á því að loka mig algjörlega af í einhvern tíma.
Einn góðan veðurdag sat ég inni að vafra um á netinu, sankandi að mér upplýsingum þegar ég rak augun í erlenda grein um innhverfu og komst að því að það væri bara hreinlega ekkert að mér. Það er nefnilega þannig að mannkynið skiptist að mestum hluta til í tvær megintýpur, úthverfir einstaklingar og svo innhverfir einstaklingar eins og ég. Sumir falla á milli og bera persónueinkenni frá báðum flokkum.
Einkenni innhverfra eru meða annars þessi:
Innhverfum leiðist í flestum tilfellum „small talk“, ég t.d. á mjög erfitt með að sjá tilganginn í þeim.
Innhverfum getur oft liðið eins og þeir séu meira einmana í stórum hóp heldur en ef þeir væru í raun einir.
Innhverfir „hlaða batteríin“ í einveru, þeim finnst ekkert leiðinlegt að hanga heima allan daginn með tebolla og bók.
Ótrúlegt en satt þá þykir flestum innhverfum töluvert léttara að halda ræðu fyrir stóran hóp af fólki heldur en að þurfa að spjalla við einn og einn einstakling að ræðu lokinni.
Innhverfir eiga það til að svara ekki í símann jafnvel þótt að þeir séu með hann á sér og séu ekkert endilega uppteknir, ekki af því þeir vilja ekki hafa samskipti við einstaklinginn sem hringir, þeir bara eru ekki tilbúnir að eiga samskipti einmitt þá stundina. Þeir hringja þó til baka um leið og þeir eru tilbúnir.
Gaumgæfileg ritskoðun fer yfirleitt fram í höfðinu á innhverfum einstakling áður en hann talar. Að vera kallaður gömul sál reglulega getur bent til þess að um innhverfan einstakling sé að ræða.
Ótrúlegt en satt þá eru fjölmargir rithöfundar innhverfir enda er eitt einkenni innhverfra að eiga töluvert auðveldara með að tjá sig skriflega heldur en munnlega.
Úthverfir einstaklingar hafa allt önnur persónueinkenni eins og þau að njóta þess að tjá sig munnlega og þá helst við alla, þeir elska að vera miðpunkur athyglinnar, framkvæma áður en þeir hugsa, elska hópavinnu, vilja ekki eyða of löngum tíma einir með sjálfum sér og ef það er auðvelt að kynnast einhverjum þá eru það úthverfir einstaklingar.
Það er oft sagt að það sé erfitt að vera innhverfur einstaklingur í úthverfum heimi. Ég tengi alveg rosalega við þessa setningu enda er þetta svolítið upplifun mín af heiminum. Það er normið að vera alltaf umkringdur vinum og finnast gaman að fara á mannfagnaði en það er ekki eins „eðlilegt“ að vilja vera einn heima og lesa bók, sauma út eða horfa út um gluggann með kaffibolla í hendi.
Stór partur af heiminum fellur inn í úthverfa flokkinn eða á milli flokka en þó með sterk einkenni úthverfu, það fólk hefur ósjálfrátt áhyggjur af einstaklingi sem vill vera einn. Ástæðan fyrir þessu er að fólk miðar alltaf ósjálfrátt hlutina fyrst út frá sjálfu sér og úthverfur einstaklingur kemst þá að þeirri niðurstöðu að sá innhverfi hljóti að vera þunglyndur eða fúll þar sem hann vill bara fá að vera einn.
Ef einhver sem þú þekkir kýs heldur að eyða föstudagskvöldi einn heima í stað þess að skella sér út á lífið með vinunum þá er ekkert öruggt aðeinstaklingurinn sé þunglyndur eða sé illa við þig. Góðar líkur eru einfaldlega á því að viðkomandi einstaklingur sé innhverfur og það er þá bara allt í lagi.