Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hvernig verður dansverk til? #2

$
0
0

Um helgina fóru fyrstu æfingar fram á dansverki mínu um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Hvílík gleði að geta loksins frelsað hugmyndirnar úr huganum og gefið þeim líf út á gólfi. Aðdragandinn að þessu stigi vinnunnar hefur verið töluvert langur og einkennst af mikilli óvissu. Það er því bæði léttir en líka svolítið ógnvekjandi að vera loks komin á þann stað að hefja sköpun verksins.

Þrátt fyrir marga mánuði af undirbúningi upplifði ég allt í einu að ég vissi ekki hvar ég átti að byrja. Slíkt óröyggi hvarf sem betur fer um leið og æfingarnar áttu sér stað. Þar sem að ég á hugmyndina að verkinu og er eiginlegur höfundur þess hef ég haldið mikið af hugmyndum og pælingum fyrir sjálfa mig en um leið og við fórum að æfa fann ég hvað það er gefandi að vinna í hóp þar sem margir hugsa, vinna og skapa saman. Æfingar helgarinnar hafa því innihaldið mikla hugmyndavinnu auk tilrauna úti á gólfi.

IMG_1991

Esther Talía Casey og Gígja Jónsdóttir á æfingu.

 

Þar sem fjármagn verkefnisins er af skornum skammti hef ég því miður ekki getað ráðið listamenn til að vinna með mér. Það þýðir að allir þátttakendur verkefnisins eru að gefa vinnu sína. Það er raunveruleiki sem á við um allt of mörg verkefni tengd listum. Á Íslandi ríkir veruleg gróska og frjó starfsemi í sjálfstæðri sviðslistasenu en fjárhagslegur stuðningur frá opinberum aðilum er nánast aumkunarverður, sérstaklega fyrir unga listamenn sem hafa ekki mikla reynslu.

Þetta veldur því að mjög margar hugmyndir öðlast aldrei líf sem mér þykir sorglegt þar sem að ótrúlegur fjöldi hæfileikaríkra listamanna þráir að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Í þessu verkefni hefur þetta þau áhrif að æfingarnar eru á okkar frítíma frá annarri vinnu og verkefnum. Skipulagið er mikið púsl og hefur okkur ekki enn tekist að æfa allar saman. Í svona aðstæðum getur verið afar gagnlegt að fást við hluta vinnunnar á samskiptamiðlum, eins og á lokuðum hóp á facebook eða annað slíkt. Þannig er hægt að tryggja að allir þátttakendur verkefnisins fylgi ferlinu jafnt og þétt ef ekki allir hafa færi á að mæta á allar æfingarnar.

IMG_1978

Þó að ég sé stjórnandi verkefnisins má sannarlega segja að allir þátttakendurnir séu meðhöfundar og stjórnendur. Gaman er að geta þess að systir mín, Esther Talía, er hluti af hópnum og æskuvinkona hennar, Vala Gestsdóttir, semur tónlistina. Þetta verður í fyrsta sinn sem við systur stígum saman á svið.

Ég upplifi þetta sem hálfgert fjölskylduverk þar sem við erum einmitt að fjalla um formóður okkur sem vekur ýmsar hugsanir um tengingu kynslóðanna. Við munum nota talsvert af leikmunum í sýningunni og meðal þeirra er gömul hattaaskja sem langamma okkar Estherar átti. Guðrún langamma var tengdadóttir Bríetar og voru þær miklar vinkonur. Mér finnst það falleg viðbót í verkið. Skrýtið hvernig manni getur fundist sumir hlutir hafa sál eða tilfinningalegt gildi. Það er einmitt þannig með þessa hattaöskju og það gleður mig virkilega að hún verði með í sýningunni.

Í lok síðustu æfingu helgarinnar prófuðum við að renna opnunaratriði verksins. Strax í fyrsta atriðinu erum við að fást við dans, texta og söng og er því nóg að huga að. Þar sem við erum að vinna eftir handriti er ákveðinn strúktúr nú þegar kominn á verkið. Vinnan í æfingasalnum felst mest í því að finna sniðugar lausnir og að skapa tengingar milli ólíkra þátta verksins.

Frá upphafi hefur það verið ósk mín að hreyfingar, texti og söngur vinni mjög náið saman. Það getur fljótt orðið flókið eða ofhlaðið en einmitt þar liggur vinnan, í því að finna lausnir og komast að niðurstöðum sem þjóna verkinu best. Ég fann til dæmis að ég þarf að passa svolítið uppá að fara ekki of langt út í dramatíkina. Viðfangsefnið dregur fram ákveðna dramatík sem á vissulega heima í verkinu en of mikil dramatík getur gert verkið of þungt. Við höfum því verið að gera tilraunir með hvar við getum leyft húmornum að blómstra og taka ekki sjálfar okkur né Bríeti of alvarlega.

11255738_10206750296377268_7772735618211176546_o (1)

Verkið verður frumsýnt á Reykjavík Dance Festival í lok ágúst í Smiðjunni á Sölvhólsgötu (í húsnæði sviðslistardeildar Listaháskóla Íslands). Sýningin verður auk tveggja annarra verka hluti af dagskránni FIRSTS. En þessi þrjú verk eru einmitt fyrstu höfundaverk okkar allra. Eftir hátíðina í september munum við sýna verkið áfram í Tjarnarbíói.

Ég hlakka til að fylgjast með þróun verksins á næstu vikum sem má segja vera fæðingu verksins. Það eru spennandi tímar framundan.

Fyrsta pistil minn Hvernig verður dansverk til? má lesa hér.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283