Metnaður er aðlaðandi, vinnusemi sjarmerandi og liðlegheit lekker.
Að vera skráður í samband við stimpilklukku er hins vegar allt annað en það. Sá sem er fyrstur til að stimpla sig inn og síðastur út fær ómælda aðdáun samstarfsmanna sinna. Viðkomandi er svo agaður og duglegur. Með allt á hreinu. Líklega búinn að fara í ræktina áður en hann mætir 6.30. Er með snjallsíma í stað fingra og er alltaf að.
Fólk gleymir að athuga að það er ekkert endilega samasemmerki milli viðveru og afkasta. Ég las nýverið grein um að fólk sem labbaði hratt í vinnunni væri álitið duglegt og afkastamikið af samstarfsfólki sínu – þó það gerði jafnvel minna en aðrir. Jafnvel nánast ekki neitt. Nema að labba hratt!
Það ætlar enginn að verða stimpilklukkuþræll en um leið ætlum við okkur að ná langt á okkar sviði. Það er ekkert að því að vinna mikið og leggja ýmislegt á sig til að ná markmiðum sínum í atvinnulífinu. En hvað svo? Þú vinnur fram eftir og um helgar til að landa draumadjobbinu, sýna þig og sanna. Og hvað svo?
Kærastinn kyssir þig á kinn og lyftir glasi: „Til hamingju með starfið, ástin mín. Ég vissi alltaf að þú fengir það!“
Og þá – í því sem þú lyftir rándýru hvítvínsglasinu – áttarðu þig.
Fokk!
Hvað nú? Ég er ekki að fara að vinna minna til að halda starfinu og standa mig vel. Ég er að fara að vinna meira. Guð minn góður. Ég fæ að vísu meiri pening. Sem þýðir reyndar bara að ég eyði meira. Einhvern veginn á maður sjaldnast afgang, alveg sama hvað maður fær mikið útborgað. Og Jesús, pólitíkin sem því miður fylgir stjórnunarstöðum er oft mjög erfið. Leynimakk og leiðindi.
Og það að ég sé kona þýðir að ég þarf að leggja mig enn meira fram og fyrir lægri laun! Sem er önnur og stærri steypa.
Dýra franska hvítvínið verður skyndilega biturt um leið og lífsgæði þín hrynja eins og fullur háhælaður unglingur á leið niður stiga. Lífsgæði einstaklings sem vinnur allt of mikið með tilheyrandi álagssjúkdómum og streitu eru nefnilega mun minni en hærri laun geta nokkurn tíma bætt upp.
Þú stendur á tímamótum! Sogast inn í stimpilklukkusleikinn? Eða reyna að byggja upp heilbrigðara umhverfi og veita fólki innblástur til þess að vinna styttri vinnudag af meiri krafti?
Ef fleiri hefðu þessar pælingar í huga væri skemmtilegra að vinna. Það er okkar að byggja upp starfsanda sem veitir fólki innblástur – á ásættanlegum vinnutíma. Lífið er nefnilega líka það sem gerist fyrir utan vinnuna.
Þegar þú deyrð stendur ekki „Starfsmaður mánaðarins“ á legsteininum!
Og kæru kynsystur: Af hverju förum við ekki fram á hærri laun? Alltof oft hef ég fengið launakröfur frá mjög hæfum konum sem eru langt undir kröfum karlkyns umsækjenda. Eina leiðin til að fá hærri laun er að biðja um þau – þú ert þinn helsti umboðsmaður og ef þú trúir ekki að þú eigir að fá hærri laun, af hverju ætti einhver annar þá að vera á þeirri skoðun?
Eitt sinn kom ung kona í starfsviðtal til mín. Þegar það kom að því að ræða laun var hún með fremur háar kröfur. Hærri en ég gat samþykkt. Þegar ég ræddi við hana hvað ég gæti greitt svaraði hún svo snilldarlega að ég hef haft þessi orð í huga síðan:
„Ég skal samþykkja þessi laun ef þú getur lofað mér að þú myndir ekki borga karlmanni með mína reynslu hærri laun fyrir sama starf.“
Punkturinn er því: Verum metnaðargjarnar, metum okkur að verðleikum, fáum betri laun – en hættum að metast um hver vinnur lengri vinnudag og hættum að líta á símann í tíma og ótíma. Það sem okkur finnst áríðandi er það nefnilega sjaldnast.
Hversu oft má þetta símtal eða þessi tölvupóstur bíða til morguns? Þú ert að missa af augnablikum með ástvinum þínum sem koma aldrei aftur. Slítum okkur úr vinnusturlunarkeðjunni, njótum þess að vera í vinunni og gera það sem við erum góð í – en förum svo heim og slökkvum á tölvupóstinum.
Ef það er áríðandi, þá hringir einhver! Loggaðu þig út – líka andlega – og notaðu tímann í þá sem þú elskar. Þar á meðal sjálfa þig.
#YOLO