Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Sætt og gott með R-i

$
0
0

Af hverju í ósköpunum hafa jarðarber breyst í jarðaber (með engu r-i) hjá mjög mörgum? Ég les yfir mikið af mataruppskriftum og síðustu ár hefur mér fundist eins og allavega 80% höfunda  þeirra skrifi jarðaber. Og þegar ég gekk framhjá Víði í Skeifunni í dag var þar fallega skrifað skilti þar sem ,,jarðaber“ voru auglýst. Skrítið.

En það varð til þess að mér datt í hug uppskrift sem ég birti í MAN (reyndar tvær uppskriftir eðn það eru bara jarðarber í annarri).

Annars vegar eru þetta litlar snittur með jarðarberjum og svo fylltar döðlur með mascarpone. Enginn hvítur sykur en hins vegar ögn af hunangi eða hlynsírópi. Og svo ávextirnir.

Fyrst eru jarðarberjasnitturnar. Með r-i. Úr þessum skammti ættu að koma 30-40 snittur.

 

IMG_4289

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Skar svo snittubrauðið í þunnar sneiðar, raðaði þeim á bökunarplötu og bakaði í um 3 mínútur, eða þar til sneiðarnar voru hálfþurrar og aðeins farnar að taka lit á jöðrunum. Tók þær þá út og lét kólna.

IMG_4293

Ég var með 250 g af vel þroskuðum og sætum, frekar stórum jarðarberjum. Skar þau í  þunnar sneiðar. Svo smurði ég hverja snittu með þykku lagi af mjúkum mascarponeosti og setti 1-3 jarðarberjasneiðar (eftir stærð) á hverja snittu.

IMG_4456

Síðan dreypti ég örlitlu þunnu hunangi yfir og stráði svo ögn af söxuðum pistasíum yfir hunangið. Setti snitturnar í kæli smástund.

IMG_4294

Þá voru það döðlurnar – ég var með 300 g af mjúkum döðlum, það eru svona 30-40 döðlur. Ég tók steinana úr döðlunum og opnaði þær vel. Hrærði svo saman 200 g af mjúkum mascarponeosti, 2 msk af hlynsírópi (eða hunangi) og svolítinn kanel.

IMG_4295

Ég var með 100 g af pekanhnetum. Tók frá fallega kjarna, helmingi færri en döðlurnar voru (það hefur líklega verið svona helmingurinn) og skar þá í sundur í tvennt eftir endilöngu. Svo grófsaxaði ég afganginn og hrærði saman við ostinn. Það er betra að gera það í þessari röð því ef einhverjir kjarnar brotna þegar verið er að skera þá í tvennt má bara skipta þeim út (ég klikkaði á því þegar ég var að gera þetta ).

IMG_4461

Ég  setti um 1 kúfaða teskeið af blöndunni í hverja döðlu. Svo tók ég pekanhnetuhelmingana og þrýsti þeim aðeins ofan í fyllinguna í hverri döðlu. Kældi þetta þar til ostablandan stífnaði (má líka setja smástund í frysti).

IMG_4325

Jarðarberjasnittur

30-40 snittur

1 snittubrauð eða mjótt baguettebrauð

150 g mascarponeostur, mjúkur

250 g jarðarber

þunnt hunang

pistasíuhnetur, grófsaxaðar

*

Fylltar döðlur með pekanhnetum

30-40 döðlur

300 g döðlur, mjúkar

200 g mascarponeostur, mjúkur

2 msk hlynsíróp eða hunang

kanell á hnífsoddi

100 g pekanhnetur

 

Heimsækið endilega vefinn minn hér.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283