Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Maður er manns gaman #4

$
0
0

Ég kem stundum á hjúkrunarheimili að heimsækja vinkonu mína. Við borðið hjá henni situr gamall maður samanbitinn og ergilegur á svip. Hann talar ekki við neinn, en stundum hreytir hann út úr sér einhverju orði sem ég er enn ekki farin að skilja.

Dag einn kom gestur að borðinu og ég bókstaflega sá hvernig andlitsgríman molnaði, andlitið lifnaði við og hann brosti.

Kunninginn sagðist vera að heimsækja móður sína og heilsaði upp á hann í leiðinni. Þarf svona lítið til að gleðja gamlan mann? Bros, handtak og nokkrar setningar. Gríman féll og gamli maðurinn brosti og talaði. Hvað bíða margir á hjúkrunarheimilum eftir að einhver muni eftir þeim og líti inn? Það þarf greinilega ekki að vera löng stund.

Það er eins og fólk veigri sér við að fara að heimsækja gamalmenni, það hafi ekkert að tala um.

Einfalda ráðið er að vera einlægur og sýna áhuga á viðkomandi. Þá koma í ljós sameiginleg áhugamál, minningar frá atburðum, ferðalögum o.þ.h. og fréttir af fjölskyldu, börnum og barnabörnum er pottþétt umræðuefni.

Jafnvel að koma með börn með sér, þau virðast alltaf vekja áhuga og gleði aldraðra. Mörgum þykir erfitt að heimsækja þá sem eru að missa minnið og kannski orðnir málstola. En nærvera og snerting er þeim nóg. Myndir geta kveikt samtal eða ljúfar minningar, svo má fara með vísur eða raula gamalt lag.

Söngur er sá tengiliður, sem lengst gleður t.d Alzheimer-sjúklinga og þeir geta tekið þátt í.

Ég varð vitni að því nýlega að ljóðelskur öldungur á stofnun fékk heimsókn. Hann byrjaði eins og venjulega: Ég man ekki neitt, hef ekki áhuga á neinu og langar ekki til neins. Þá tók gesturinn ljóðabók úr vasa sínum og byrjaði að lesa, hægt og skýrt. Og smám saman færðist líf í öldunginn.

Það var ekki bara að hann þekkti gamla kunningja í ljóðunum, heldur voru þetta líka ljóð sem hann ekki þekkti og fór að velta fyrir sér innihaldinu, bað um að ljóðið væri lesið aftur og hélt áfram að greina innihaldið og ræða það. Undarlegt, hann var ekki vanur að hefja máls á neinu að fyrra bragði. Hann hafði lifnað við, fengið sína gömlu reisn og þakkaði fyrir heimsóknina mörgum, hlýjum orðum.

Það getur margt skemmtilegt leynst undir fálátu yfirborði. Það er eins og það þurfi bara að „ýta á réttan takka“ til þess að það komi í ljós.

En aðalatriðið er að gleyma ekki gömlum vinum. Það þarf ekki mikið til að gleðja þá.

Maður er manns gaman.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283