Maðurinn minn er dellukall. Þegar hann fær nýtt áhugamál heltekur það hann gjörsamlega og hann sökkvir sér í það af þunga og þrótti. Fyrir einum og hálfum mánuði, meðan enn var frost í jörðu og snjór yfir öllu, ákvað hann að nú væri rétti tíminn til að gerast garðahönnuður.
Reyndar ekki bara garðahönnuður því samfara garðaskipulagsdellunni fékk hann óstöðvandi ræktunaráhuga og byrjaði að panta sér fræ fágætra plantna sem eiga enga von til að vaxa við íslenskar aðstæður en hvað veit maður …

Drekablóðtré sem vaxa á eyjunni Socotra utan við Yemen munu innan tíðar verða algeng tré í Þingholtunum.
Við leigjum hús í Þingholtunum, eitt af fáum sem ekki hefur verið breytt í hótel. Nýuppgert hús að utan sem innan en garðurinn var ófrágenginn og hafði reyndar verið notaður sem vinnusvæði meðan byggingarframkvæmdir stóðu yfir eins og eðlilegt er.
Gamall illa farinn pallur var við húsið, vinnuskúr að hruni kominn, steyptur steinpottur í miðjum garði sem hafði áður verið samkomustaður manna og fiska og nokkur blómabeð sem máttu muna sinn fífil fegurri.
Leigusalarnir okkar eru ákaflega gott fólk og þegar maðurinn bar upp þá ósk að fá að standsetja garðinn var leyfið auðsótt. Ég var tregari í taumi og setti manninum þá afarkosti að garðurinn mætti ekki kosta neitt og því yrði að nota eingöngu endurunnið efni í allar framkvæmdir. Það dró ekki úr framkvæmdagleðinni nema síður væri. Hann margefldist við mótlætið.
Fyrst fann hann sér app á netinu, Garden Planner app, þar sem hann gat teiknað upp garðinn og það flugu út úr prentaranum ýmsar hugmyndir. Væri rétt að byggja bara glerþak úr gömlum gluggum yfir garðinn? Grafa niður neðanjarðargróðurhús? Teikningin af garðinum er hér að ofan og eins og sjá má er hugsað fyrir öllu.
Hann auglýsti eftir timbri, gömlum hurðum og palletuefni gefins á Facebook og efniviðurinn hrúgaðist inn. Í stað rómantískra kvöldstunda fleygði hann sér út af á kvöldin með tölvuna í fanginu og sökkti sér ofan í garða og gróður myndir á Pinterest.
Það er gott að eiga vini sem eiga gröfufyrirtæki þegar maður á níska eiginkonu og allir sem hyggja á meiri háttar garðframkvæmdir ættu að koma sér upp slíkum vinum. Maðurinn minn er svo lánsamur að eiga slíka vini sem reka fyrirtækið tæki.is og áður en ég vissi var hann farinn að hamast á lítilli dömugröfu hér í garðinum, þó enn væri snjór yfir öllu. það var undarlegt að líta út um stofugluggann og fylgjast með manninum sínum hamast í hríðinni við garðgerðina.
Fyrst var að losna við pottinn sem var hvort eð er orðinn vart brúklegur svo hann sallaði hann niður í jörðu og við aðgerðirnar kom í ljós forláta hornmunnstykki en hornleikarinn Viðar Alfreðsson sálugi bjó í húsinu um árabil. Við varðveitum að sjálfsögðu þessi menningarverðmæti og höldum þessu vel til haga til minningar um hinn frábæra tónlistarmann.
Ekki fundum við fleiri menningarverðmæti eða kuml en kattarbeinagrind ein kom í ljós sem fær auðvitað að hvíla áfram í friði og er nú 6 fetum undir nýja grænmetisbeðinu okkar.
Ég mun skrifa meira um málið því síðan hann byrjaði á gröfunni hefur ýmislegt gerst, garðurinn er að mestu tilbúinn en þar má m.a. finna skjólvegg úr gömlum harðviðarhurðum svo rammgerðum að Þingholtin munu leggjast í eyði fyrr en þessar hurðir hverfa af yfirborði jarðar.
Sólpallur úr pallettufjölum sem er stórkostlega fallegur og kostaði ekki krónu hefur litið dagsins ljós.
Blómapottar úr gömlum flugvéla- og bíldekkjum skreyta nú húsið að framanverðu …
Grindverk úr pallettuvið
og sitthvað fleira sem ég segi ykkur frá og sýni ykkur seinna …
Á þessari mynd má sjá þá feðga Stefán Karl og Steina litla sem hafði töluverðan áhuga á garðframkvæmdum meðan grafan var við störf.
Sunnudagskveðjur!