Nú rífumst við um laun. Hvað eru sanngjörn laun fyrir að þola bílfarma af áfengi með Spotify í eyrunum og sitjandi á rassinum í 3-5 ára háskólanámi? Hver verðskuldar hversu mikið og hvaða störf eru mikilvægust?
Ef við ættum að velja ellefu starfstéttir í stöður inni á knattspyrnuvelli í einhverskonar landsstéttalið þá væri fróðlegt að sjá hvað hver myndi velja.
Ég persónulega væri með kennara fremst sem center, enda treysti ég á þá til að færa okkur sigurinn seinna meir. Samfélagið hinsvegar hendir kennarastéttinni í bullandi vörn. Þeir eiga bara að hanga aftast og redda málunum ef allir hinir eru með allt niðrum sig.
Á sitthvorn kantinn myndi ég setja stéttirnar í sjávarútveginum og ferðamennsku. Þar verða færin til nefnilega. Íslenskt samfélag setur þar hinsvegar lögfræðinga og viðskiptafræðinga og vonar að þeir skili vinnunni sem þarf. Þess vegna erum við í stöðunni sem við erum í í dag. Í lögfræðinámi í dag eru tvöfallt fleiri en starfa við lögfræði nú. Enda eru lögfræðingar á fullu að auglýsa eftir fólki sem telur sig eiga rétt á bótum eftir slys. Atvinnulausu lögfræðingarnir rembast við að fá okkur til að kæra hvert annað í von um einhverjar tekjur sér til handa.
Ef forsætisráðherra fengi að velja svona lið væri hann sennilega með öll helstu Ingjaldsfíflin úr Skagafirði í sínu liði skipuðu bændum, kaupfélagsmönnum og blómaskreytingarfræðingum og fjármálaráðherra væri með ættarmót í gangi inni á vellinum.
Í miðjunni er mikilvægt að hafa einhverja sem eru fjölhæfir og traustir. Samfélagið setti bankamennina okkar þar og því varð staðan allt í einu 14-2, stórtap og þjóðargjaldþrot.
Þarna hefði ég haft iðnstéttirnar okkar og verkfræðinga. Fólk með viti eins og afi kallaði það. Fólkið sem er tilbúið að leggja á sig meira en aðrir og í raun og veru halda öllu saman. Mér finnst smiðir, rafvirkjar, píparar og verkamenn betra lím til að halda liðinu saman en bankamenn sem heimta bónusa ef gengur vel en ef illa gengur þá er það dómaranum að kenna en það er kannski bara ég.
Ég held að það væri best að hafa listamennina í marki bara. Þeir eru lítið fyrir líkamlegt erfiði og með sóknarboltanum sem við myndum spila hefðu þeir nægan tíma til að dúlla sér í sínu föndri hinum megin á vellinum. Það er þeim að þakka að fólk úti í heimi veit á annað borð að Ísland sé til og þeir eru mikilvægir, en þá þurfa þeir líka að fá að vera í friði svo innblásturinn eigi greiðan aðgang að báðum heilahvelum.
Vörnin er kannski erfiðara val. Eins og ég hef stillt upp liðinu þá tel ég að landið yrði í stórsókn allan tímann en ef sótt er að okkur þá þarf trausta varnarmenn.
Heilbrigðisstéttirnar, lögreglan og stjórnmálamenn væru aftast í vörninni. En ef eitthvað þarf að breytast, ef eitthvað klikkar, þá yrði ég að sjálfsögðu fljótur að skipta stjórnmálamönnunum útaf.