Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Veist þú hvað þú ert að borða mikinn sykur?

$
0
0

Mikið hefur verið rætt um skaðsemi sykurs undanfarin misseri og fjöldi fólks tekið áskorunum um að hætta neyslu sykurs og stefna að heilbrigðari lífsstíl. Sjálf tók ég þá ákvörðun fyrir örfáum vikum að hætta að borða sælgæti og minnka þar með sykurneysluna umtalsvert. Sú breyting gekk svo vel að ég ákvað að taka næsta skref og hætta að borða þau matvæli sem innihalda mikið af sykri. Spurningin var hins vegar, hvaða matvæli það voru.

Að jafnaði borða ég hollan og fjölbreyttan mat, sem minnst unnan og sem ferskastan. Hins vegar borða ég skyr og jógúrt reglulega, enda afar bragðgóð og alveg dísæt. Í hlutverki hins heilsumeðvitaða og upplýsta neytanda fór ég að grandskoða innihaldslýsingar á þeim mjólkurvörum sem ég er vön að neyta. Jú, innihaldslýsingin er til staðar, sykur að finna í þeim öllum. Allt í lagi, átti nú von á því. En hversu mikið erum við að ræða um? 5 gr af 100 gr? Eða 25 gr? Það kemur hvergi fram.

Ég fór á heimasíðu Mjólkursamsölunnar (MS) til að freista þess að fá nánari upplýsingar án árangurs. Ég greip þá til þeirra ráða að senda fyrirtækinu tölvupóst og bað þá vinsamlegast um að senda mér upplýsingar um sykurmagn í þessum vörum. Í svari MS kemur fram að stefna fyrirtækisins sé fremur að miðla slíkum upplýsingum til einstakra viðskiptavina símleiðis eða í tölvupósti heldur en að gera upplýsingarnar aðgengilegar á heimasíðu þeirra. Hljómar eins og mun meiri vinna að svara hverri fyrirspurn sérstaklega um næringarinnihald heldur en að hafa þessar upplýsingar á heimasíðunni eða sem hluta af innihaldslýsingu.

Matvælaframleiðendur eru skyldugir til að setja innihaldslýsingu á umbúðir framleiðsluvara sinna. Þá ber að telja innihaldið upp í þeirri röð að það sem varan inniheldur mest af er talið upp fyrst, og svo koll af kolli. Hins vegar er ekki skylda að upplýsa um magn hvers innihaldsefnis fyrir sig, nema í sérstökum tilvikum t.d. þar sem fullyrt er að um sé að ræða „sykurskerta“ eða „sykurlausa“ vöru. Mér þykir full ástæða til að breyta þessu svo fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir um eigin neyslu. Sú staðreynd ein og sér að sykur sé að finna í jógúrtinni minni gerir lítið gagn á meðan ég veit ekki hversu mikill hann er. Öðruvísi get ég ekki raunverulega fylgst með sykurneyslu minni. En af hverju ætti ég svosem að gera það?

Full ástæða er fyrir neytendur að fylgjast með sykurneyslu með það markmið að neyta hans sem minnst. Sykur í óhóflegu magni er óhollur. Sykur er sætuefni sem flokkast sem hitaeiningaríkt, einfalt kolvetni. Að öðru leyti hefur sykur ekkert næringarlegt gildi. Sykur í of miklu magni umbreytist í fitu á líkamanum. Sykur er líka slæmur fyrir tennur. Það að minnka neyslu á sykri getur hjálpað fólki að viðhalda kjörþyngd, minnkað hættu á sykursýki, hjartasjúkdómum og öðrum sjúkdómum tengdum ofþyngd.

Í fyrra ákvað Alþjóðaheilbrigðisstofnunin að lækka ráðlagðan dagsskammt af sykri úr 10% í 5%. Fyrir venjulegan fullorðinn einstakling er þetta u.þ.b. 25 gr af sykri, eða 6 teskeiðar á dag. Til samanburðar má nefna að ½ lítri af Coca Cola inniheldur 27 sykurmola eða 54 grömm af sykri. Með því að drekka eina flösku ertu þar með búinn að tvöfalda ráðlagða sykurskammtinn og meira til. Segjum að til viðbótar við kókið hafi ég neytt hálfrar 500 gr dósar af KEA vanilluskyri. Ein slík dós inniheldur 45 gr af sykri eða tæpa 23 sykurmola. Þá hef ég neytt rúmlega 74 gr af sykri sem er þrefalt það magn sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ráðleggur fólki að neyta daglega.

Hvað ert þú búin/n að borða mikinn sykur í dag?

Ég skora á Mjólkursamsöluna að bæta upplýsingaflæði til viðskiptavina sinna og upplýsa um sykurmagn á innihaldslýsingum einstakra vara og/eða hafa þessar upplýsingar aðgengilegar á heimasíðu sinni.

Frekari fróðleik og upplýsingar um sykurmagn algengra neysluvara má finna á vef landlæknis á www.sykurmagn.is

Samkvæmt upplýsingum MS:
KEA vanillu-, og bláberjaskyr 9% sykur (9 gr í 100 gr)
Ostakaka m/súkkulaði 11,7% sykur
Heimilisjógúrt m/jarðarberjum 8% sykur
Húsavíkur léttjógúrt m/6 korni & jarðarberjum er 8,7% sykur


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283