Elsku Bjarni
Ég er næstum því 36 ára gömul kona og ég bý á Íslandi. Þó svo að veðrið sé oft ömurlegt og ýmislegt oft í gangi sem ég er ekki sátt við þá vil ég samt búa hérna á Íslandi vegna þess að hérna eigum við svo margt fallegt og gott eins og t.d. hreina og óspillta náttúru (svona að mestu ennþá þó við séum fljót að ganga á hana), gott loft, hreint vatn, við búum við lága glæpatíðni (ef frá er talið öll kynferðisbrotamálin sem konur eru að opna sig um þessa dagana), hér er gott að vera með börn því þau eru nokkuð örugg og svo mætti lengi telja. En eitt er það sem finnst ekki gott og það er almannatryggingakerfið.
Þegar ég var yngri var mér talin trú um það að á Íslandi væri samfélagið svo gott að það sæi um veika, fatlaða og gamla fólkið sitt. Þeir sem voru minni máttar ættu sér athvarf í mjúkum faðmi almannatryggingakerfisins sem gerði öllu þessu fólki kleift að lifa og líða sem best miðað við aðstæður. Í dag er ég hins vegar öryrki og ég er alveg óskaplega sár og leið yfir að hafa komist að því að þetta var allt lygi, blekkingar.
Ég er með Tourette syndrom sem er taugasjúkdómur sem lýsir sér í ósjálfráðum hreyfingum og kækjum, þú getur farið hingað ef þú vilt fræðast meira um sjúkdóminn. Mitt tilfelli er mjög slæmt og vegna þessa er ég öryrki í dag.
Ég byrjaði á örorkubótum árið 2012 og ég get alveg viðurkennt það fyrir þér svona okkar á milli að mér fannst það hrikaleg niðurstaða. 33 ára gömul kona á ekki að þurfa að lifa á öðrum og ég fann til skammar og reiði, því það er virkilega erfitt að vera þetta ung og þurfa loks að viðurkenna fyrir sjálfri sér að maður geti ekki allt sem maður ætti að geta. Á þessum tíma var ég samt að reyna að vera dugleg og vann með herkjum 50% vinnu sem var ekki líkamlega erfið. Útborguðu bæturnar mínar eftir skatt á þessum tíma voru ca. 193.000 kr. og fyrir vinnuna mína fékk ég ca. 125.000. kr. En vegna þess að ég notaði allan persónuafsláttinn fyrir bæturnar mínar, því vissulega borgum við skatta af lífeyrinum (já ég veit að þú ert hissa, þú hefur líklega staðið í þeirri trú eins og svo margir aðrir að lífeyrisþegar borgi ekki skatt af bótunum) þá gaf vinnan mér bara ca. 70.000 í útborguðum launum.
Þetta var árið 2012 og í fyrra, 2014 var ég ennþá að fá sömu upphæð borgaða frá TR. Sömu 193.000 kr. Ég gat hins vegar ekki unnið lengur svo þetta var allt og sumt. Nei, nú er ég ekki alveg heiðarleg. Ég er náttúrulega líka einstæð móðir og var því að fá ca. 60.000 kr. á þriggja mánaða fresti í barnabætur og svo náttúrulega meðlag upp á ca. 23.500 kr. í hverjum mánuði.
Síðustu áramót fengum við lífeyrisþegar svo loksins langþráða hækkun bóta. Hækkun upp á 3% Ég vil alls ekki hljóma vanþakklát en þessi 3% voru ekki að bjarga neinu hjá mér. Barnabæturnar mínar hækkuðu líka upp í 78.000 kr. á þriggja mánaða fresti og voru því ráðstöfunartekjur mínar orðnar ca. 260.000. Þar af var ég að borga af íbúðinni minni og í hússjóð samtals 120.000 kr. sem er samt mjög ódýrt miðað við það að vera á leigumarkaði, þar sem húsaleiga á svipaðri íbúð væri mun hærri. Þá átti ég ca. 140.000 eftir. Með þessum 140.000 kr. þurfti ég að borga:
Síma/internet ca. 10.000 (algjör óþarfi og í raun lúxus sem ég leyfði mér en hefði auðvitað átt að sleppa).
Hita/rafmagn ca. 14.000
Tryggingar ca 15.000
Önnur lán ca. 14.000
Matur ca. 40.000
Bensín ca. 25.000
(Tekið skal fram að þessar tölur eru frekar varlega reiknaðar).
Þá átti ég eftir ca. 26.000 kr. og fyrir það þurfti ég að kaupa öll lyf, fatnað fyrir mig og son minn, tómstundir (sonurinn er í einni íþrótt sem er mjög ódýr, ca. 8000 kr. önnin), frístundarheimili og skólamat, viðhald á bílnum, læknisheimsóknir og tilfallandi afmælisgjafir svo eitthvað sé nefnt.
Leyfðu mér nú að útskýra þennan auka kostnað sem ég er viss um að við fyrstu sýn virðist bara vera óþarfi. Ég þarf að reka bíl vegna minnar fötlunar og verandi lífeyrisþegi hef ég ekki efni á nýjum og fínum bíl. Þ.a.l. er alltaf eitthvað viðhald sem þarf að borga fyrir. Til að gæta sanngirni þá tek ég fram að ég er loksins búin að fá samþykki fyrir bensínuppbót sem er ca. 13.000 kr. á mánuði, sem er rétt rúmlega einn tankur á bílinn minn.
Ég þarf að vera á nokkrum tegundum af lyfjum, t.d. þunglyndislyfjum því það að vera öryrki er ekki til þess að létta manni lundina og getur tekið virkilega á sálarlífið. Í því sambandi þarf maður líka að ganga til sálfræðings ef maður ætlar virkilega að vinna í málunum en þar sem það kostar ca. 12.000 kr. skiptið að minnsta kosti og ríkið greiðir ekki niður sálfræðiþjónustu (ég veit að þú vissir það ekki heldur, en ég vona að núna þegar ég er búin að segja þér það þá munir þú láta breyta þessu) þá er það auðvitað gefið að ekki fer ég eða nokkur annar öryrki til sálfræðings, eins og mörg okkar þyrftu svo mikið á að halda.
Ég fer mikið til lækna vegna minnar fötlunar og það eru sérfræðingar en ekki heimilislæknar, svo það kostar alltaf eitthvað meira. En ég leggi ekki mikið upp úr þessum lið því vissulega eru læknisheimsóknir niðurgreiddar að einhverju leyti og það er frábært. Minni fötlun fylgir svo líka kostnaður við sjúkraþjálfun sem ég á að mæta í tvisvar í viku, en hefur mætt afgangi vegna annara kostnaðarliða sem þurfa meiri forgang.
Ég veit að auðvitað er ég að bruðla með því að hafa strákinn minn í tómstundum. Það er ekki eins og tómstundir barna séu mannréttindi og hann gæti alveg verið án þess. Ég hef því hugsað mér að taka mig á í þessu og hann fær ekki að stunda nein áhugamál næsta vetur.
En jæja, í byrjun árs sá ég fram á að ég myndi missa íbúðina mína ef ég gerði ekki einhverjar ráðstafanir svo ég fór af stað og sótti um frystingu á íbúðaláninu mínu. Planið var sem sagt að fá að flytja til pabba míns (sem er dásamlegt fyrir sjálfsvirðinguna) með drenginn minn, pabbi minn býr í þriggja herbergja íbúð sem er ekkert rosalega stór og þar bý ég núna. Pabbi var svo elskulegur að láta mér og syni mínum eftir hjónaherbergið og því deilum við mæðginin. Á meðan ég byggi hjá pabba ætlaði ég að leigja út íbúðina mína og þannig fá aukatekjur sem myndu hjálpa mér að borga niður allar skuldir sem ég var með til þess að létta greiðslubyrði mína þegar frystingu lánsins væri lokið.
Ég leigði íbúðina út á 190.000 kr. Við það skerðast bæturnar mínar það mikið að af þessum 190.000 kr. skilast 80.000 kr. til mín. Þannig að þó svo að ég hafi fært þá fórn að bregða búi, flytja til foreldris og leigja út íbúðina mína til þess að reyna að redda málunum til framtíðar, skilar það svo litlu að ég kem ekki til með að ná að borga þær skuldir sem ég þarf til að létta mér róðurinn þegar að því kemur að frysting lánsins míns fellur niður.
Taktu eftir elsku Bjarni, að í öllum þessum upptalningum minnist ég hvergi á að gera eitthvað skemmtilegt fyrir sjálfa mig eða strákinn minn en reyndar er ég svo heppin að fá frítt í sund fyrir mig og það kostar bara lítið fyrir strákinn, svo það er svona u.þ.b. það sem við leyfum okkur. Væru börnin þín til í að skipta við barnið mitt???
En hvað er það sem ég er að fara fram á? Jú, ég vil að lífeyrir verði hækkaður a.m.k. til jafns við lægstu laun og helst meira. Fólk í láglaunastörfum hefur oft tækifæri á að næla sér í menntun eða einhverja aðra hæfni sem hjálpar þeim að komast upp úr allra lægstu launaflokkunum. Veikir, fatlaðir og aldraðir búa ekki við þann kost og það er í rauninni fáránlegt að þetta fólk, sem þarf að hafa mest fyrir lífinu heilsufarslega séð þurfi líka að hafa mest fyrir því fjárhagslega séð.
Ég tel það mikla kjarabót fyrir marga að frítekjumarkið verði hækkað verulega. Ég held að það þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því að fólk á lífeyri verði milljarðamæringar sem síðan halda áfram að mergsjúga kerfið þó það þurfi ekki á bótunum að halda lengur (mér dettur í hug allt önnur stétt sem gerir einmitt það og það í skjóli stjórnvalda).
Ég vil að skattleysismörk lífeyrisgreiðslna verði að lágmarki 300.000 kr. og að skattprósentan verði lág, t.d. jafn lág og eignaskatturinn.
Þegar búið er að leiðrétta kjör lífeyrisþega væri ég svo til í að stjórnvöld hættu að senda okkur fingurinn og senda okkur þau skilaboð að við séum úrhrök. Ekki gleyma því að lífeyrisþegar eru mjög atvinnuskapandi „stétt“ og jafnvel hægt að halda því fram að þeir séu nauðsynlegir fyrir samfélagið.
Elsku kallinn minn. Þegar þú segir að það yrði alltof kostnaðarsamt fyrir ríkið að hækka lífeyri til jafns við lægstu laun og það verði ekki gert, þá veit ég alveg að þú ert ekkert að meina það neitt illa. Ég veit að þú ert í eðli þínu góður maður og þú vilt vel. Ég veit líka að þú ert klár. Það sem hrjáir þig hins vegar er skortur á innsýn og jafnvel vantar kannski pínulítið upp á náungakærleikann. Ég er ekki að biðja um vorkun, vorkun borgar enga reikninga. Ég er að biðja um tækifæri til að fá að lifa mannsæmandi lífi, fullu af gleði og reisn.
Ég geri mér grein fyrir að ég er full af fordómum gagnvart sjálfri mér fyrir að vera öryrki, en hvað með þig???
Kær kveðja
Elva Dögg Gunnarsdóttir
E.s. Hérna fyrir neðan getur þú skoðað pínulítið glens sem ég gerði með nokkrum vinum mínum í fyrra. Kannski er þetta eina loka lausninn á „lífeyrisþega vandamálinu“