Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Lýðræði – örfá orð í tilefni dagsins

$
0
0

Stundum er fólk að gaspra um lýðræði án þess að hafa nokkurn tímann hugsað út í hvað í orðinu felst nema hugsanlega að lýðræði sé í löndum þar sem lýðurinn fær að kjósa hverjir fara með ríkisvaldið næsta kjörtímabil.

Lýðræði á Íslandi er tímabundið valdaframsal almennings til kjörinna fulltrúa í samræmi við stjórnarskrá. Það inniber að meirihluti þingmanna og ríkisstjórn sem situr í umboði þingsins á að stjórna landinu og vera gæsluaðili lýðræðis – í samræmi við bestu hagsmuni landsmanna samkvæmt almennum skilningi á orðasambandinu „hagsmunir landsmanna“. Með því að stjórna fyrir hönd þings og þjóðar er átt við að þrátt fyrir meirihlutavald sé tekið fullt tillit til skoðana minnihluta þjóðarinnar í ljósi þess að umboðið til að stjórna er tímabundið og það er ekki opin heimild til að umbylta undirstöðum samfélagsins.

Vald byggist á styrk. Peningum og fyrst og fremst yfirráðum yfir auðlindum þjóða fylgir vald og auðugir aðilar hafa völd sem ekki eru lýðræðisleg. Lýðræðislega kjörin stjórnvöld eiga að gæta þess að voldugir aðilar fari að leikreglum lýðræðisins.

Vald almennings byggist m.a. á getu almennings til að taka málin í sínar hendur ef fram af honum er gengið og umbylta þjóðfélaginu. Vald almennings hvílir á svokölluðum mannréttindum, ekki síst á rétti fólks til að hafa skoðanir og láta þær í ljósi til dæmis með fundahöldum og mótmælasamkomum.

Lýðræði er bæði flókið og einfalt. Það hefur marga kosti og marga galla. Einn helsti veikleiki lýðræðis er að langt er á milli þess sem almenningur fær að kjósa og skipta út þeim fulltrúum sem ekki starfa í samræmi við vilja fólksins. Þessi veikleiki hefur oft verið misnotaður með vondum afleiðingum af lýðskrumurum – en lýðskrum og lýðræði eru andheiti.

Lýðræði er dýrmætasta gjöf sem mannkynið hefur gefið sjálfu sér. Forsenda lýðræðis er frelsi en besta skilgreining á frelsi er eftir konu sem mér þykir meira til komið en flestra annarra og hét Rosa Luxemburg. Rósa var myrt vegna skoðana sinna fyrir tæplega einni öld, en hún sagði: “ Freiheit ist immer Freiheit der Andersdenkenden.“ Frelsi er ávallt frelsi þeirra sem eru á annarri skoðun.

Til hamingju með daginn!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283