Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Til hamingju með daginn!

$
0
0

Að undanförnu hef ég verið að lesa dálítið um kvennahreyfingarnar í Bandaríkjunum. Þar getur að líta margt fróðlegt og skemmtilegt enda bókahöfundar hámenntaðar konur margar hverjar og snjallir rit­höfundar, t.d. þær Kate Millett og Germaine Greer (sem reyndar er áströlsk/bresk), en þær hafa nýlega endurútgefið bækur sínar sem þær urðu frægar fyrir, Sexual Politics (1970) og The Female Eunuch (1970), og bætt við nýjum: Kate Millett tam. The Prostitution Papers og Germaine Greer The Whole Woman. Þá má ekki gleyma Elaine Showalter kvennasögufræðingi og bókum hennar Inventing Herself (2001) og A Jury of Her Peers (2009) þar sem hún lýsir ýmsum glæsilegum fulltrúum kvennasögunnar. Ekki heldur Betty Friedan sem er talin hafa vakið aðra bylgju femínismans með bók sinni The Feminine Mystique (1963, 1997), eða Alix Kates Shulman, höfundi safnritsins Red Emma Speaks (1972, 1996). Víkjum nánar að Emmu.

Margt fer á hreyfingu þegar Emma Goldman – Rauða Emma – kemur til Bandaríkjanna 1885, rússneskur gyðingur og anarkisti sem flýr að heiman ásamt systrum sínum og gengur í lið með anarkistum í New York. Hana hafði langað til að læra rétt eins og strákarnir en faðir hennar er ofbeldismaður („martröð bernsku minnar“), og vill gifta hana fimmtán ára gamla, hann hrifsar af henni frönsku málfræðina og fleygir í eldinn: „Konur þurfa ekki að læra, bara kunna að laga fiskistöppu og ala manninum sínum krakkahóp!“ – Emma er óþreytandi að ferðast um í nýja landinu, flytja hugvekjur og hollan áróður, er jafnan við því búin að að vera handtekin og tekur því alltaf bók með sér til að hafa eitthvað að lesa í tukthúsinu. – Einu sinni er henni harðbannað að tala á fundi en hleypt inn með því skilyrði að hún þegi. Þegar nafn hennar er svo kallað upp fer hún að vísu upp á svið en kemur ekki upp orði því hún hefur troðið klút upp í sig! Allt ætlar um koll að keyra, slík eru fagnaðarlætin. – Emma getur ekki fellt sig við einkvæni og stofnar til ménage à trois með tveimur ástvinum sínum; hún kemst í kast við lögin og er ásamt mörgum fleirum flutt árið 1918 til Sovétríkjanna sem þá voru nýstofnuð. Þar er henni boðið að hitta Lenín og notar tækifærið til að mótmæla meðferðinni á anarkistum og skerðingu á málfrelsi. Líkar lítt vistin og flyst til Englands, deilir hart á bolsévíka en ver byltinguna. Emma dó 1940 og hafði seinustu æviárin reynt að styðja anarkista á Spáni eftir megni með skrifum og fjársöfnun.

Mig langar að nefna tvær bækur enn: Deviations (2011) eftir Gayle S. Rubin er greinasafn þar sem meðal annars er fjallað um „ólifnaðinn“ alræmda í San Francisco, sem var með ólíkindum fjölskrúðugur, og um skelfinguna sem greip um sig þegar eyðnin kom upp. Æsilegri frásögn hef ég tæpast lesið. Hin bókin heitir Bad Feminist (2014) og er eftir Roxane Gay. Þar segir: Femínisminn er ófullkominn af því að hann er stundaður af fólki, og fólki er áskapaður ófullkomleiki. Spurningin er því hvernig við getum sætt misbresti femínismans og alla hans kosti.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283