Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir skrifar:
Ég hef fengið nóg. Nóg af fólki (kvenmönnum jafnt sem karlmönnum) sem finnst það sjálfsagður hlutur að áreita fólk kynferðislega á djamminu.
Sko, ekki misskilja mig, ég hef verið þessi manneskja. Manneskjan sem klípur í rassinn á sæta stráknum, slær flotta strákinn við barinn á bossalinginn.
Ég skammast mín fyrir það og það er óásættanleg hegðun, geri mér fulla grein fyrir því núna.
Ég er hinsvegar að tala um fólkið sem hefur ekki enn gert sér grein fyrir því. Fólkið sem enn þá er í því hugarástandi að hlutgera mannverur.
Vinkona mín vinnur á matsölustað sem er vinsæll áfangastaður misölvaðs fólks eftir langa nótt á skemmtistöðum landsins. Þessi vinkona mín sagði mér frá því hvað hún lendir oft í kynferðislegu áreiti í starfi sínu. Hún, að vinna sína vinnu, fær spurningar eins og: „Hey, eigum við ekki að ríða?“ eða „Eigum við ekki að kíkja heim til mín á eftir“ eða jafnvel er reynt að kyssa hana yfir afgreiðsluborðið.
Ímyndið ykkur að svona hegðun eða spurningar í dagvinnu væri bara eðlilegt. Vera að vinna í banka og hann Siggi væri alltaf að reyna að kyssa þig.
Held að því yrði seint tekið sem „Æjj þetta er bara Siggi sko hann er bara svona“. En staðreyndin er sú ekkert er gert í þessu því. Svörin sem fólk fær eru „Æjji þetta er bara fullt lið“.
Hver gaf þessu fólki bessaleyfi, útaf því að það er undir áhrifum áfengis, að láta út úr sér allan andskotann?
Ég er ekki að segja að þessar aðstæður komi ekki fyrir í vinnum eins og í bönkum, en hættið að nota áfengi sem afsökun. Það er aumkunnarvert og hallærislegt.
Þessi sama vinkona mín lenti í því líka á leiðinni heim úr sinni vinnu, fótgangandi, að menn áreittu hana. Þeir eltu hana og spurðu hana hvort hún vildi ekki koma heim með sér að ríða. Mér blöskraði allsvakalega. Hún er því miður ekki sú eina sem lendir í svona aðstæðum og ekki sú síðasta.
En afhverju ætli þeir séu að gera þetta? Sú sorglega hugsun kom til mín að því miður leynist alltaf ein og ein stelpa (eða strákur) sem leitar að viðurkenningu allstaðar. Og það er til fólk sem að notfærir sér sjálfsóöryggi annarra til að uppfylla sínar þarfir. Virkilega sorglegt og óásættanlegt.
Reynum að taka þetta inní næstu helgi, og allar helgar eftir það.
Verum góð, og komum fram við hvort annað af virðingu.
„Beauty provokes harassment, the law says, but it looks through men’s eyes when deciding what provokes it“ – Naomi Wolf