Samningurinn í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga er ömurlegur.
Sennilega sá ömurlegasti síðan Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld og samþykkti að kristnir fengju að vaða hér yfir allt og alla með sitt sálusöfnunarpýramídasvindl en heiðnir mættu þá í staðinn blóta og éta hrossakjöt í laumi eins og einhverjir útskúfaðir pervertar.
Það er skiljanlegt að hjúkrunarfræðingar séu reiðir. Ríkið er búið að taka af þeim verkfallsréttinn og gefa það út með þessum samningi að hjúkrunarfræðingar séu mun minna mikilvægir en læknar. Helmingi minna mikilvægari ef maður miðar við hækkun launa þessara stétta í prósentum.
Ef litið er til dagvinnulauna hjúkrunarfræðinga miðað við aðra háskólamenntaða ríkisstarfsmenn þá er ljóst að ríkið telur þá vera langskólagengna pillusjálfssala eins og einhver komst að orði. Eða kannski telur það bara að kvennastétt muni aldrei sýna klærnar almennilega og muni á endanum bara setjast aftur niður og hætta þessu stöðuga nöldri um sanngirni og jafnrétti eitthvað.
Ég vona innilega að hjúkrunarfræðingar láti ekki bjóða sér þetta og hafni samningnum sem þeim hefur verið boðinn. Best væri ef þeir myndu allir segja upp og skrá sig á norskar atvinnuleitarsíður.
Þegar líður að síðustu vinnudögunum get ég lofað að hjúkrunarfræðingar munu í fyrsta skipti sjá brosandi og sáttaleitandi samninganefnd ríkisins koma hlaupandi til þeirra með opinn faðm og skjalatöskur fullar af sanngjörnum tilboðum.
Ríkið hefur öll tromp í hendi núna því jafnvel þó samningurinn sé felldur þá tekur líklega bara gerðardómur við sem festa mun í sessa vilja ríkisins til að gera þetta að láglaunastarfi fyrir metnaðarlaust hugsjónafólk.
Nú er komið að hjúkrunarfræðingunum, sérfræðingum í að hjálpa fólki, að hjálpa sjálfum sér. Segja upp starfinu og slá öll spil úr hendi ríkisins. Það er eina meðferðin sem mun virka. Þeir munu koma hlaupandi aftur að samningaborðinu um leið og þeir hafa tekið kjálkann upp úr gólfinu.