Fyrrum borgarstjóri Beijing, Guo Jinlong, heimsótti forseta og forsætisráðherra Íslands í fyrradag, einnig var ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins viðstaddur fundinn. Rætt var um bráðnun jökla á Norðurslóðum og vanda forystumanna í öllum löndum að halda sambandi við almenning.
Guo Jinlong er aðalritari stjórnarnefndar Kommúnistaflokks Kína. Á vefsíðu forsetisembættisins kemur fram að forsetinn tók á móti honum og og öðrum meðlimum í aðalstjórn (e. politburo) kínverska kommúnistaflokksins.
Jinlong hefur verið kærður fyrir glæpi gegn mannkyni þegar hann hefur farið út fyrir landsteina Kína. Árið 2012 var lögð fram kæra á hendur honum í Taívan fyrir hlutdeild sína fyrir ofsóknir á hendur Falun Gong iðkendum og Tíbetum.
Fjölmiðlar sýndu fréttum af fundinum lítinn áhuga þrátt fyrir tilkynningar Þórdísar Hauksdóttur, Falun Gong iðkenda á Íslandi. Ráðuneytin svöruðu Þórdísi að fundi loknum og vissu ekki frekar um ferðir kínverska ráðamannsins. Þórdís boðar til friðsamra mótmæla vegna mannréttindabrota kinverskra yfirvalda í tilefni heimsóknarinnar.
Guo Jinlong var borgarstjóri Beijing frá árinu 2008 til ársins 2012. Frá árinu 2000 til ársins 2004 var hann æðsti ráðamaður flokksins yfir málefnum Tíbet og hefur setið í aðalstjórn kommúnistaflokksins frá árinu 2012. Aðalstjórnin skipar 25 valdamestu ráðamenn Kína.
Á fundi Guo með forseta á að hafa verið rætt um víðtækt samstarf Íslands og Kína á sviði jarðhita, baráttuna gegn loftslagsbreytingum, bráðnun jökla á Norðurslóðum og á Himalajasvæðinu sem og aukið samstarf á sviði lista og menningar.
Að fundinum loknum bauð forseti sendinefndinni til kvöldverðar þar sem segir á vefsíðu forsetisembættisins að ítarlega hafi verið ræddar breytingar á stjórnkerfi Kína, baráttu gegn spillingu og fyrir bættum lífskjörum og auknum réttindum íbúanna, „sem og vanda forystumanna í öllum löndum að halda sambandi við almenning og fara að vilja íbúanna við stjórn landa.“
Auk sendiherra Kína og kínverskra embættismanna sátu fundinn og kvöldverðinn embættismenn forsetaembættisins, forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins.
Ekkert kemur fram um fundinn á vefsíðu annarra ráðuneyta Íslands
Þórdís Hauksdóttir Falun Gong iðkandi á Íslandi sendi nokkrum fjölmiðlum landsins upplýsingar um ferð Guo Jinlong, til Fréttablaðsins, Vísis og RÚV. Hún hafi fylgst með fréttum mannréttindasamtaka sem höfðu frá kínverskum fjölmiðlum fyrirhugaða ferð Guo Jinlong, m.a. til Íslands. Enginn þeirra fjölmiðla svaraði erindi Þórdísar og ekki er að sjá neinar fréttir um viðburðinn á íslenskum fréttaveitum, fyrir utan eina frétt á vefmiðli RÚV. Þá sendi Þórdís einnig spurningar til ráðuneyta um dagskrá aðalritarans hér á landi.
Forsætisráðuneytið svaraði erindi Þórdísar að fundi loknum sem sagði Jinlong hafa fundað stuttlega með forsætisráðherra.
Friðsöm mótmæli
Þórdís kveður þetta miður því hana hafi langað að halda friðsöm mótmæli til að minna á ofsóknir Falun Gong iðkenda í Kína, þau mannréttindabrot feli í sér skipulagða og kerfisbundna líffærastuldi úr samviskuföngum, sér í lagi úr Falun Gong iðkendum. Evrópusambandið hefur lýst yfir djúpum áhyggjum af “viðvarandi og áreiðanlegum ásökunum” af líffærastuldum kínverskra stjórnvalda í þingsályktun frá árinu 2013.
Þórdís hefur boðað til friðsamra mótmæla í dag, fimmtudags 25. júní, klukkan 17:00 vegna mannréttindabrota kínverskra stjórnvalda. Tilefnið er heimsókn Guo Jinlong og verða þau haldin fyrir framan kínverska sendiráðið í Borgartúni.