Í vikunni féll dómur í meiðyrðamáli Guðmundar Týs Þórarinsonar, sem betur er þekktur sem Mummi í Götusmiðjunni, gegn Braga Guðbrandssyni forstjóra Barnaverndarstofu. Bragi var sýknaður af ummælum um að Guðmundur Týr hefði hótað börnum sem dvöldu í Götusmiðjunni líkamsmeiðingum. Guðmundur Týr harmar niðurstöðu héraðsdóms um mun áfrýja niðurstöðu hans til Hæstaréttar. Segir Guðmundur að engin niðurstaða hafi fengist varðandi meintar ávirðingar í hans garð.
Í niðustöðu dómsins segir m.a:
„Samkvæmt gögnum málsins þóttu viðtöl við börnin við rannsókn málsins leiða í ljós að haft hefði verið í hótunum við þau um líkamsmeiðingar og að börnin hefðu orðið skelkuð, reið, sár, ringluð og jafnvel hrædd. Samkvæmt upplýsingum um könnun starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur kom fram hjá börnunum í viðtölum að stefnandi, sem einhver þeirra voru að hitta í fyrsta skipti, hefði haft í hótunum við þau ef þau segðu frá því sem þeim færi á milli og brygðust þannig trausti hans. Hann hafi lýst því að hann gæti brotið á þeim hnéskeljarnar og hafi einnig vísað til þess að hann þekkti líka fólk úr undirheimum. Engir ráðgjafar eða foreldrar ættu að vita það sem þeim færi á milli í þessu viðtali. Stefnandi hafi rætt mjög um sín persónulegu málefni sem og persónuleg málefni þess ráðgjafa sem hann hafi rekið, sem börnin þekktu. Sá ráðgjafi hefði stungið sig í bakið, ásakað sig um þjófnað og gert sér ýmislegt til miska, vildi bara meiða og væri óheiðarlegur svikari. Stefnandi hafi spurt börnin hvort þau vildu fara í lið með þeim ráðgjafa. Börnunum hafi fundist að þeim hafi verið ógnað og hótað og í því sambandi hafi ekki verið um grín að ræða. „
Götusmiðjunni var lokað í júní 2010, vegna stjórnunarvanda og gruns um hótanir forstöðumannins í garð skjólstæðinga sinna.
Guðmundur Týr Þórarinson hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
„Þann 23. júní 2015 féll dómur í meiðyrðamáli sem ég höfðaði gegn Braga Guðbrandssyni. Harma ég niðurstöðu héraðsdóms og tel ég varhugavert ef opinberir starfsmenn sem eru í forsvari viðkvæmra málaflokka, geti tjáð sig með ærumeiðandi hætti gagnvart almennum borgurum og sakað þá um refsiverða háttsemi í skjóli tjáningarfrelsis og almennrar þjóðfélagsumræðu. Vil ég taka það sérstaklega fram að dómsmeðferðin laut ekki að ná fram sönnun um hvort ég hefði hótað börnunum líkamsmeiðingum, eins og fjölmiðlaumfjöllun hefur á köflum bent til. Heldur laut málið eingöngu að því að hvort tiltekin ummæli Braga Guðbrandssonar hefðu verið ærumeiðandi gagnvart mér. Dómurinn fjallaði þar að leiðandi ekki efnislega um hvort ég hefði gerst sekur um að hafa hótað börnunum, heldur eingöngu hvort ummæli Braga hefðu skaðað æru mína. Barnaverndaryfirvöld sendu málið aldrei til lögreglu til frekari rannsóknar, þrátt fyrir áskoranir mínar þess efnis. Hefur því engin niðurstaða fengist varðandi meintar ávirðingar í minn garð. Þrátt fyrir að engin opinber rannsókn hafi farið fram lét Bragi ummælin falla. Þrátt fyrir það taldi dómurinn að tjáning Braga hefði verið innan tjáningarfrelsis hans. Niðurstöðu héraðsdóms verður áfrýjað til Hæstaréttar.“