Í kvæðinu Mold kallar Steinn Steinarr þann hluta jarðvegsins sem í daglegu tali nefnist mold drottningu lífsins, móður og lífgjafa allra lifandi vera. Þetta er fallegt og að öllum líkindum satt því gróður jarðar er háður moldinni og flestar aðrar lífverur háðar gróðri.
Mestur hluti jarðvegs er upprunninn í föstu bergi sem hefur veðrast og molnað niður í smáar agnir. Plönturnar nota agnirnar sem næringarefni til vaxtar og viðhalds þegar þær hafa leyst upp í vatni. Í jarðvegi er einnig mikið af lífrænum leifum plantna og dýra.
Mismunandi jarðvegur
Allur jarðvegur á Íslandi hefur myndast eftir síðustu ísöld. Hann er því í mesta lagi 10.000 ára og hefur þá sérstöðu að vera að mestu gerður úr basalti. Það þekur aðeins um 1 til 2% af yfirborði berggrunns á jörðinni og finnst hvergi annars staðar við þau veðurskilyrði sem hér ríkja. Grónu landi er skipt í votlendi, mólendi og malarborinn eða grýttan jarðveg. Gróðurlausu eða lítt grónu landi er skipt í sanda, malarborið og grýtt land, og land án jarðvegs.
Einkenni votlendis er að grunnvatnsstaða er há og vegna súrefnisskorts brotna lífræn efni hægt niður. Votlendi er skipt í hallamýrar, flæðimýrar og flóa. Mólendi einkennist af áfoksefnum og sandi. Móajarðvegur er þurr og fokgjarn ef sár koma í gróðurþekjuna. Mólendi er skipt í gras-, lyng- og hrísmóa.
Gróðurrýr jarðvegur, eins og sandar, er fokgjarn en auðveldur í vinnslu. Ræktun í sandi getur verið erfið í þurrkatíð vegna þess að hann heldur illa vatni. Sandur skiptist í fok-, jökul- og fjörusand. Land án jarðvegs telst nýtt hraun og berir klettar og líkist því sem við þekkjum af myndum frá tunglinu. Þess má geta að tunglfarar voru þjálfaðir við slíkar aðstæður hér á landi.
Jarðvegsbætur
Vanda verður vel allan undirbúning jarðvegs fyrir ræktun því árangur hennar er háður því að jarðvegurinn sé góður. Það eru fyrst og fremst eðliseiginleikar eins og jarðvegsuppbygging og samsetning næringarefna sem ráða frjósemi jarðvegsins. Jarðvegsuppbygging ræðst af holunum í jarðveginum og æskilegast er að þær séu bæði stórar og smáar. Í smáu holunum geymist vatn og súrefni en þær stóru sjá um að leiða regnvatn niður í jarðveginn. Engin ein jarðvegsgerð uppfyllir öll skilyrði til ræktunar. Því er tilvalið að blanda saman ólíkum jarðvegsefnum til að fá hentugan ræktunarjarðveg.
Búfjáráburður gerir öllum jarðvegi gott. Hann er ríkur af næringarefnum sem leysast hæfilega hratt upp og auðugur af lífrænum efnum sem byggja upp jarðveginn.
Rakastig jarðvegs
Til þess að plöntur vaxi og dafni þurfa þær vatn. Það verður því að búa plöntum umhverfi þar sem þær hafa aðgang að nægu vatni. Jarðvegurinn þarf að vera hæfilega rakur og í honum verður að vera nægilegt loft. Holur, fylltar lofti, þurfa að vera um 10 til 15% af rúmmáli jarðvegsins til þess að ræturnar fái nóg súrefni.
Blautur jarðvegur er kaldur, loftlítill, hefur slæm áhrif á rótarvöxt og hægir á vexti ofanjarðar. Starfsemi jarðvegsgerla og smádýra verður lítil og það hægir á rotnun. Starfsemi lífvera í jarðvegi bætir ástand hans og flýtir rotnun plöntuleifa og hringrás næringarefna.
Lífverur í jarðvegi
Í jarðvegi er urmull smárra lífvera sem bæta hann með starfsemi sinni. Jarðvegsdýrin umbreyta lífrænum leifum, kljúfa torleyst efnasambönd og breyta þeim í það form sem plöntur geta nýtt. Plöntur af ertublómaætt lifa í sambýli við rótargerla sem framleiða nitur eða köfnunarefni úr andrúmslofti. Þegar gerlarnir drepast og rotna losnar nitrið út í jarðveginn, plöntunum til góðs.
Á rótum ýmissa trjátegunda lifa sveppir í samlífi við trén. Samlífi róta og sveppa nefnist svepprót og er fólgið í næringarefnaskiptum. Sveppirnir sjá trénu fyrir steinefnum en tréð sér sveppunum fyrir lífrænum næringarefnum.
Á Íslandi finnast að minnsta kosti tíu tegundir ánamaðka. Þeir nærast á rotnandi leifum plantna og smásæjum jarðvegsdýrum. Ánamaðkurinn grefur göng í moldinni og í frjósömum jarðvegi eru þeir margir. Rætur plantnanna fylgja oft ánamaðkagöngunum, þær vaxa eftir þeim og nýta sér næringarefni í ánamaðkasaur og slími sem þekur göngin.
Áburður
Allar plöntur þurfa næringu og án hennar myndu þær drepast úr næringarskorti. Plöntur fá næringu úr andrúmsloftinu í gegnum blöðin og úr jarðvegi með rótunum. Alls þurfa plöntur 18-20 næringarefni til að dafna eðlilega. Þörfin er breytileg eftir tegundum en skorti eitthvert þeirra dregur úr vexti og skortseinkenni koma fram. Næringarefni sem plöntur þarfnast skiptast í aðalnæringarefni og snefilefni sem þær þurfa í minna mæli. Hér verður aðeins fjallað um þrjú þau helstu: Nitur, fosfór og kalí.
Nitur eykur blað- og stöngulvöxt og gott er að bera það á snemma á vorin. Sé nitur borið á að hausti eykur það hættu á kali. Of mikið nitur veldur því að blöðin verða dökkgræn og slöpp og stönglarnir linir og það dregur úr fræmyndun. Við niturskort verða plönturnar ljósgrænar, síðan gular og kyrkingslegar.
Fosfór eykur rótarvöxt, flýtir fyrir blómgun, aldin- og fræmyndun. Fosfórskortur lýsir sér í því að blöðin verða rauðblá á neðra borði en síðan gul. Rótarvöxtur verður rýr og það dregur úr blómgun.
Kalí er nauðsynlegt við ljóstillífun sem er undirstaðan í lífstarfsemi plantnanna. Kalí eykur frostþol, mótstöðu gegn þurrki og sveppasjúkdómum. Skortur lýsir sér í því að ung blöð verða gul og visna, einkum á blaðjöðrunum. Gott er að bera á aukaskammt af kalí um miðjan júlí til að draga úr líkum á kali.
Sýrustig jarðvegs
Með sýrustigi jarðvegs er átt við fjölda óbundinna vetnisjóna í jarðveginum. Sýrustig er táknað með pH. Þegar sýrustigið er á milli 0 og 7 er sagt að jarðvegurinn sé súr, en basískur sé hann með pH milli 7 og 14. Jarðvegur með sýrustigið 7 er hlutlaus. Sýrustig er því hærra sem pH-talan er lægri en basískara eftir því sem talan er hærri. Sýrustig jarðvegsins hefur mikil áhrif á plönturnar. Áhrifin eru bæði bein og óbein og eru hin óbeinu mun meiri. Beinna áhrifa gætir ekki á plöntum þótt sýrustigið sveiflist innan vissra marka, pH 4,5-8,0. Það er ekki fyrr en jarðvegur er orðinn mjög súr eða mjög basískur að það dregur úr vexti. Hver tegund á sitt kjörstig sem hún dafnar best við.