Gósentíð hjá skilnaðarlögfræðingum er í janúar og ágúst. Eftir jólafríin og eftir sumarfríin. Hvað gerist eiginlega?
Tilhugsunin um að fríið sé að nálgast vekur góða tilfinningu hjá okkur flestum. Þú sérð fyrir þér afslappaða stund í hengirólunni, að lesa góða bók. Hlátrasköll í börnunum þar sem þau leika úti, pabbi leikur við þau og fíflast í þeim. Þú lítur undan sólgleraugunum, brosir og hugsar: Ummmmhhh … lífið er ljúft. Nægur tími fyrir sjálfa þig og fjölskylduna. Kvöldstundin ljúf, spilað við börnin, notalegheit og hlátur. Loksins friður, kalt hvítvín í glasi með honum sæta þínum.
Svo kemur fríið, það rignir og enginn nennir út. Það rignir líka næsta dag, og þarnæsta dag. Börnin slást og nenna ekki hvort öðru. Eru annaðhvort hálf afundin og fúl inni í herbergi eða liggja flöt í sófanum í tölvunni eða símanum. Allt sem þú stingur upp á reynist vera þeim rosalega erfitt. Dísöss, hvað allt er vonlaust.
Ekki bætir úr skák að hann sem þú elskar mest var löngu horfinn út á golfvöll, þegar það kviknaði líf í húsinu. Hann ákvað nefnilega að í „þessu“ sumarfríi ætlaði hann að æfa forgjafir sínar og bæta sig í golfinu. Gleymdi bara að tala um það, svo þið gætuð hagrætt hvernig það passaði inn í allt.
Vertu bara róleg, þú ert ekki ein um að rífa þig í hárið og vera að brenna upp inni í þér. Langar jafnvel mest út og öskra úr þér lifrum og lungum. Alveg róleg. Það er HJÁLP á leiðinni. Langflestar fjölskyldur eru á hlaupum alla daga, frá morgni til kvölds. Við náum ekki að ramma líf okkar inn í rólegheitum.
Það er svo mikið að gera við að vekja, keyra, sækja, muna svo … eftir tómstundaæfingum líka, keyra og sækja á milli þess að hugsa og finna út úr því hvað á að vera í matinn. Kartöfluskræl og háttatími. Svo átt þú eftir að ná að fara í ræktina, svo þú sért nú örugglega flott í formi fyrir „aðra“ og þig.
Kannski þess vegna er löngunin svo óendanleg og væntingarnar himinháar til frísins -að allt hrynur þegar við erum saman 24/7.
Krísan eða óánægjan myndast vegna of mikilla væntinga. Við höfum væntingar til þess hvernig allt á að vera og allir. Erum ekki meðvituð um hversu ólík við erum. Hvað þá þarfir okkar.
Þess vegna er góð hugmynd að leyfa öllum að vera eins og þeir eru með sínar ólíku þarfir.
Best væri að sleppa fýlunni, anda djúpt og minna sig á að alla langar kannski ekki að gera það sama og þér, eða borða það sama og þig langar í. Besta leiðin er svo að tala um hvað og hvernig fólk vill hafa það. Þetta hljómar auðvelt og leiðinlega „planlagt“ fyrir suma.
Ein stærsta ástæðan fyrir að fríið verði hundfúlt og misheppnað, er ef ekkert er gert og væntingarnar ráðast á mann óvænt eins og magapest og enda svo eins og stór risa fýlupoki, sem allir þurfa að bera á bakinu mestan hluta frísins.
Virðing, að planleggja og sjá aðra í sama ljósi er jafn nauðsynlegt og sólarvörnin í fríið. Þessum þremur atriðum þarf að muna að pakka með í fríið. Oft á fyrst dögunum verður hálfgert spennufall. Í staðinn fyrir að loka sig inni eins og kræklingur og verða hálf úldin er betra að tala út og leyfa öllum að vera með og tjá óskir sínar.
Svo er bara eitt eftir, að setjast niður, skipuleggja, brosa og halla sér aftur. Það er svo gott að eiga gott frí.
Engin nema þú sjálf/ur getur borið ábyrgð á að það verði gott.
Gleðilegt og glatt sumar!