Höfundur vill ekki láta nafn síns getið.
Einn daginn, árið 2013, neyddist ég til að þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna.
Ég hafði lengi beðið eftir þessu. Þrátt fyrir að vera einungis 25 ára hafði ég í meira en áratug beðið eftir greiningu og aðstoð vegna minna sjúkdóma. Ég hafði reynt margoft áður að sækja mér hjálp. Ég hef talað við marga heimilislækna, þeir ypptu í raun bara öxlum, en því miður sendu þeir mig aldrei áfram til sérfræðinga. Í eitt skipti grátbað ég um einfalda blóðprufu til að kanna almennt heilsufarsástand. Ég hafði í raun enga hugmynd um hvað nákvæmlega amaði að mér. Ég hringdi út um allan bæ eftir tíma hjá sérfræðilækni en fékk þau svör að ekki væri tekið við nýjum sjúklingum. Ég m.a. leitaði nokkrum sinnum til félagsþjónustunnar eftir einfaldri sálfræðiaðstoð, fyrst einungis 14 ára gömul, en mér var alltaf synjað.
Það virðist ekki vera pláss fyrir fleiri sjúklinga; en hvernig getur það verið? Að fólk eins og ég fái litla sem enga heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir brýna þörf?
Loksins fékk ég þó greiningu á mínu ástandi og batt ég mikla vonir um langþráðan bata. Ég hafði lengi verið í verulega slæmri stöðu fjárhagslega; enda aldrei getað unnið fulla vinnu til lengri tíma (ath. aldrei!), en til að bæta gráu ofan á svart þá hef ég lítið sem ekkert stuðningsnet haft til að sækja í. Fjárhagsaðstoð var því draumur í dós fyrir manneskju eins og mig. En ákveðinn raunveruleiki blasti fyrir mér. Einhver raunveruleiki sem virtist ekki vera á rökum reistur. Ákveðin örlög voru mér fyrirfram ákvörðuð og það var ekkert sem ég gat gert.
Svona leit bókhaldið út. Þessar tölur má finna í opinberum gögnum eða á persónulegri þjónustugátt sjúkratrygginganna. Ég er því með nákvæmar tölur.
Tekjur/bætur inn:
Fjárhagsaðstoð = 163.635 kr
Sérstakar húsaleigubætur = 46.200 kr
—– Alls = 209.835 kr
Kostnaður út:
Húsaleiga (ath. ódýrt), hiti, rafmagn og internet = 135.370 kr
Lyf (greitt úr eigin vasa) = 10.404 kr meðaltal (124.848 kr árið)
Læknir (greitt úr eigin vasa) = 7.461 kr meðaltal (89.537 árið)
Mismunurinn / Afgangur fyrir mat = 56.600 kr.
Lífið gerist ekki berstrípaðra en þetta. Hér er ekki gert ráð fyrir samgöngum, tannlækni, né fæðubótarefnum sem ávísuð eru af lækni. En svo spyr ég, hvað með líkamsrækt og hreyfingu? Er slíkt ekki allra meina bót? Á ekki allt fólk að hafa aðgang að hollum og næringarríkum mat? Hvað með afþreyingu og áhugamál? Bætir slíkt ekki hugarástand og líðan, gefur fólki tilgang og þrótta? Hvað með að hitta vin á kaffihúsi? Sem manneskja sem hefur sérstaklega lélegt félagsnet tel ég möguleikann á að hitta kunningja á almennu svæði vera einstaklega jákvæður hlutur. En mér finnst núverandi ástand einfaldlega sið- og samkenndarlaust.
Ég hef ekkert val. Ég neyðist til að lifa í einhvers konar eymdarlegu svartholi öryrkjans. Hola sem engin leið er út úr.
Ímyndaðu þér síðan ef ég hefði einhverjar hógværar skuldir á bakinu. Er skynsamlegt að fólk neyðist til að safna vöxtum án þess að það sé glæta um að geta greitt skuldina upp?
Nú get ég vísað í aragrúa rannsókna máli mínu til stuðnings; allt frá aðgengi að heilbrigðisþjónustu yfir í hreyfingu og mataröryggi. Kannski hefði betur ekki átt að mennta svona veikan fátækling eins og mig? Nú get ég málefnalega, með hjálp internetsins, rökstutt beðni mína og vísað í traustar rannsóknir. Það hefur fyrst og fremst verið seiglu og þrjósku að þakka að ég hafi getað komið mér í gegnum nám og ég græt því að sjá hvernig aðgangur að námi hefur skerst á undanförnum árum.
Sjálfsvíg eru færri á svæðum þar sem hlutfall lækna er hærra, þar sem ríki og sveitarfélög eyða meira í geðheilsu, og á meðal tekjuhærri einstaklinga. Málið ætti að vera augljóst, en af hverju hafa yfirvöld tekið upp á því að skerða geðheilbrigðisþjónustu landsmanna? Mun sú ákvörðun óhjákvæmilega kosta mannslíf?
Nú heimta ég að fá svar frá ríkisstjórninni um hvaða rök liggja hér að baki. Hvaða rannsóknir styðja við þessi kjör öryrkja, fátækra og veikra? Ef rökstuðingur er ekki til, eða sé hann veikari en sá fræðilegur grunnur sem liggur á bakvið hækkun bóta, aukin lífsgæði sem og aðgang að heilbrigðisþjónustu er staðan voða einföld. Svar eins og „það er ekki til peningur” er einfaldlega ófullnægjandi og skal vísa á bug.
Í dag þigg ég endurhæfingarlífeyri hjá TR. Sú upphæð sem ég hef til ráðstöfunar er lítið hærri en fjárhagsaðstoðin.
Ég er ábyrgur einstaklingur, ég vil lifa sem heilbrigðasta lífi sem ég hef völ á hverju sinni. Ég á, samkvæmt núverandi skipulagi, að bera fjárhagslega ábyrgð á eigin endurhæfingu. Það væri mjög fínt ef ég gæti í raun og veru borgað fyrir þá heilsueflandi þjónustu sem ég þarf og er við hæfi en einnig fengið kost á að lifa lífsstíl sem bætir heilsu mína, í stað þess að skerða.
Ríkisstjórnin má góðfúslega hoppa upp í rassgatið á sér.
Ég veit betur.
Takk fyrir.
Frekara lesefni / tilvísanir: