Ég elska vinnunna mína. Ég er bókaormur af lífi og sál og hef verið frá því ég man eftir mér. Þar sem ég er svo lánsöm að vinna við það sem ég elska, þá hef ég ótrúlega gaman af því að svara spurningum varðandi bækur. Fátt finnst mér skemmtilegra en að fá viðskiptavin til mín aftur sem segist hafa lesið það sem ég mælti með síðast og endilega vilja að ég mæli með einhverju nýju.
Ég hef í mörg ár skrifað um bækur. Áður en Facebook kom til sögunnar skrifaði ég á bloggið mitt, síðan skrifaði ég á Miðjuna meðan hún var og hét. Nú er ég komin hér á Kvennablaðið og tel það mikinn heiður að vera í hópi allra þessara flottu íslensku kvennapenna sem hér skrifa. Hér næ ég líka til fleira fólks en ég gerði í gegnum bloggið mitt, nú eða í bókabúðinni, því ekki allir eiga leið þar hjá.
Ég hef eflaust tekið það fram áður að ég hef alltaf haft það sem reglu að skrifa eingöngu um þær bækur sem mér finnst eitthvað varið í. Ég hef einfaldlega engan áhuga á því að skrifa um bækur sem höfða ekki til mín. Með skrifum mínum langar mig nefninlega mest til að fá fólk til að lesa og vekja athygli á góðum bókum í stað þess að fjalla um þær bækur sem ég hef ekki jákvæða hluti að skrifa um.
Hér á eftir fer hins vegar ekki eiginleg umfjöllun um ákveðnar bækur, heldur langar mig í þetta sinn að setja fram annan vinkil og vekja athygli á tíu íslenskum kvenrithöfundum sem ég hef miklar mætur á.
Kristín Steinsdóttir
Þið sem eruð á mínum aldri munið kannski eftir að hafa lesið Franskbrauð með sultu eftir Kristínu. Bókin Ljósa er einnig eftir hana og án efa ein af mínum uppáhaldsbókum. Ljósa gerist á nítjándu öld og fjallar um baráttu konu við geðsjúkdóm. Baráttu sem eflaust margir þekkja en sem samfélag þess tíma brást við á allt annan hátt en við þekkjum í dag. Höfundi tekst svo vel til að maður hreinlega ferðast aftur í tímann og finnur til með öllum sem koma við sögu. Ljósa er sú bók sem ég mæli hvað oftast með og ég mun aldrei gleyma helginni sem ég las hana. Ég var í sumarbústað að líta yfir bókahillurnar og rak augun í bók sem ég mundi að lærimeistari minn, Bryndís Loftsdóttir, hafði mælt með. Ég opnaði bókina og hvarf inn í annan heim þar sem ég táraðist og fann til og hló. Mér þótti strax ótrúlega vænt um fólkið í bókinni. Svo mikið að stundum langaði mig að geta talað við þau og hjálpað þeim. Þegar lestrinum lauk, faðmaði ég bókina að mér og enn þykir mér ótrúlega vænt um Ljósu. Þegar ég sel viðskiptavini þessa bók hlýnar mér um hjartaræturnar og ég veit fyrir víst að kaupandinn verður ekki fyrir vonbrigðum. Kristín Steinsdóttir, þessi yndislega kona er, að mínu mati, tvímælalaust á meðal betri rithöfunda Íslands.
Vigdís Grímsdóttir
Vigdís Gríms er eflaust sá rithöfundur sem fólk talar hvað mest um. Að hluta til er það sennilega vegna þess hve mikil dulúð hvílir yfir henni. Vigdís er frænka vinkonu minnar og ég var mjög forvitin um þessa konu þegar ég var unglingur. Einn daginn fór ég á bókasafnið og náði mér í eina af bókunum hennar. Bókin sem varð fyrir valinu var Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón og eftir það var ekki aftur snúið. Ég drakk í mig bækurnar hennar, hverja af annarri og var svo heppin að hver jól sem ný bók eftir Dísu kom út, fékk ég hana í jólagjöf frá vinkonunni, áritaða af Vigdísi sjálfri. Þetta safn er mér ansi dýrmætt í dag.
Dísusaga, nýjasta bókin í uppáhaldsbunkanum mínum, fjallar um konurnar tvær sem búa innra með Vigdísi. Dísu, annars vegar og Gríms, hins vegar. Dísa fær loksins að skrifa bók en þó undir árvökulu auga Gríms sem er fljót að grípa inn í þegar henni mislíkar eitthvað í skrifunum.
Vigdís er með eindæmum fyndinn og skemmtilegur rithöfundur og mér þykir ekki einungis vænt um hana sem höfund í hillunni minni heldur einnig sem hjartahlýju og góðu konuna sem hún er.
Lilja Sigurðardóttir
Hér er á ferðinni kona sem gaman er að fylgjast með. Fyrsta bókin sem ég las eftir hana var, að ég held, fyrsta bókin sem hún gaf út og heitir Spor. Spor fjallar um ástarsöguþýðandann Magna, sem er nýkominn úr áfengismeðferð. Fyrrum eiginkona hans er lögreglukona og biður hann að aðstoða sig við sakamál sem virðist tengjast inn í heim óvirkra alkóhólista. Þetta er efni sem fáir hafa tekið fyrir og er viðkvæmt á marga vegu en í bókinni fær lesandinn ákveðna innsýn inn í heim óvirkra alka. Heim sem fæstir þekkja nema þeir tilheyri sjálfir þessum hópi. Spor er virkilega góð spennusaga sem heldur manni föstum allan tímann og hefur þann plús að lesandanum finnst hann vera að gægjast inn einhversstaðar þar sem hann á ekkert endilega erindi.
Nýlega var einnig sett á laggirnar leikrit eftir Lilju, en sýningin Stóru börnin fékk frábæra dóma hvar sem maður sá um hana fjallað.
Kristín Eiríksdóttir
Hér er önnur hæfileikarík Kristín á ferðinni. Kristín Eiríks hefur gefið út eitt smásagnasafn og jólin 2012 kom út eftir hana skáldsagan Hvítfeld. Ég tætti þá bók í mig og er búin að setja eldri bókina hennar á náttborðið hjá mér því Hvítfeld kom mér svo ótrúlega skemmtilega á óvart. Ekki að ég hafi ekki haft trú á því að bókin væri góð, heldur vegna þess hversu hissa ég margsinnis varð meðan á lestrinum stóð. Ég skildi bara ekkert í því að höfundi tækist hvað eftir annað að láta mig halda eitt en láta svo eitthvað allt annað koma í ljós. Eftir lesturinn flissaði ég meira að segja aðeins að sjálfri mér fyrir einfeldnina.
Það er alltaf hressandi að lesa bækur sem eru ólíkar því sem maður er vanur að lesa og ég hlakka mikið til að byrja á smásagnasafninu hennar.
Vilborg Davíðsdóttir
Vilborg er sér á báti í þessum hópi kvenna og ég hálfskammast mín fyrir að segja að ég hef enga bók eftir hana lesið. Bloggið hennar les ég þó nokkuð reglulega. Þar skrifar Vilborg á ótrúlega einlægan hátt og fjallaði meðal annars opinskátt um baráttu mannsins síns við heilakrabbamein. Hún heldur einnig áfram að skrifa í sorginni eftir fráfall hans og það er ótrúlega margt sem hægt er að læra af þessari sterku og flottu konu. Hún hefur skrifað sjö bækur og eru þær allar mikið notaðar við kennslu í framhaldsskólum landsins enda taldar einstaklega vandaðar. Það er alltaf tilhlökkunarefni að eiga eitthvað til góða og ég á efalaust í vændum góðar stundir við lestur á bókunum hennar.
Jónína Leósdóttir
Jónína Leósdóttir hefur hingað til aðallega skrifað fyrir yngri lesendahópana og eftir hana hafa komið út þónokkrar flottar unglingabækur. Þar er í uppáhaldi hjá mér bókin Upp á líf og dauða, en það er saga um stúlku sem finnur ljóð og finnst tónninn í ljóðinu gefa til kynna að þeim sem skrifar það líði svo illa að hann/hún sé að íhuga að taka eigið líf. Stúlkan ákveður að komast að því hver skrifaði ljóðið og reyna að hjálpa viðkomandi. Bókin er spennandi og skemmtileg en í leiðinni kemur hún ótrúlega áríðandi skilaboðum áfram, án þess þó að troða þeim upp á unglinginn sem les.
Jónína hefur líka skrifað fyrir okkur fullorðna fólkið og gerir það hreint ekki síður. Fyrir jólin síðustu kom út eftir hana bókin Við Jóhanna sem verður að segjast að er mjög merkileg bók að mörgu leyti. Bókin er ástarsaga höfundar og Jóhönnu Sigurðardóttur, saga tveggja kvenna sem hafa stóran part af sambandi sínu haldið því leyndu fyrir almenningi. Bókin er að mínu mati ótrúlega merkilegur hornsteinn í baráttu samkynhneigðra en þar fyrir utan er hún einlæg og falleg ástarsaga og vitnisburður um að ástin sigrar að lokum. Mig myndi langa að sjá þessa bók færða yfir í bíómynd á heimsvísu þar sem Meryl Streep færi með hlutverk Jóhönnu og Jónína væri leikin af Julianne Moore.
-Smá útúrdúr þarna en Jónína er klárlega kona sem ég lít upp til og dáist að, jafnt sem rithöfundi og manneskju.
Sólveig Pálsdóttir
Sólveig er lærð leikkona en kom fram á sjónarsviðið sem rithöfundur veturinn 2012 með sína fyrstu bók, Leikarinn. Í þeirri bók notar hún sögusvið sem hún þekkir afar vel og það skín í gegn því við lesturinn lifnar allt hreinlega við. Sagan gerist á „setti“ eða í kringum upptökur á kvikmynd og er skemmtileg innsýn í þann heim. Leikarinn fékk mjög góðar viðtökur og þá sérstaklega þar sem þetta var fyrsta bók höfundar og virkilega góð frumraun. Því miður er bókin uppseld nú þegar en verður vonandi endurprentuð fyrir þau ykkar sem eigið eftir að lesa hana. Seinni bókin hennar, Hinir réttlátu, kom svo út í fyrra og lítur allt út fyrir að Sólveig sé komin í hóp spennusagnahöfunda sem fólk mun fylgjast grannt með.
Yrsa Sigurðardóttir
Hér er á ferðinni kona sem flestir myndu líklegast kalla drottningu spennusagnanna. Ég hef lesið allar bækurnar hennar og finnst engin jól vera ef ekki er Yrsa. Sú bók hennar sem höfðaði langtum best til mín gerist á Hesteyri, heitir Ég man þig og kom út fyrir jólin 2010. Sú bók er eina bókin sem hefur grínlaust fengið mig til að tárast úr hræðslu. Ég er nú ekki sérlega draugahrædd kona en á meðan ég las þessa bók fékk ég ósjaldan hroll niður bakið og þurfti næstum að fletta yfir í næsta kafla bara til að róa mig aðeins niður. Ég þorði ekki einu sinni að lesa í bókinni á kvöldin því kærastan mín bjó á þeim tíma í Danmörku og ég þorði einfaldlega ekki að lesa ein í myrkrinu af hræðslu við að sagan fylgdi mér inn í draumaheima. Yrsa er svo sannarlega vel að þessum drottningartitli komin enda sendir hún frá sér grípandi bækur, nánast á hverju ári. Mig grunar að það sé eflaust ekkert grín heldur að keppa á hverju ári við „kónginn“, sem hún heldur þó svo sannarlega í við og skautar jafnvel vel framúr á stundum.
Margrét Örnólfsdóttir
Margrét Örnólfs skrifar bækur fyrir börn og unglinga. Stórgóð bók eftir hana er Með heiminn í vasanum og fjallar um ungan dreng sem á allt sem hugurinn girnist en enga vini. Hann er auðmannssonur sem einn daginn finnur skilaboð í leikfangi sem brotnar þegar hann hendir því í reiðikasti í gólfið. Skilaboð frá barni út í heimi. Barni sem er þræll í leikfangaverksmiðju. Þessi bók er ein allra besta barnabók sem ég hef lesið. Bókin snerti verulega við mér og mér fannst ég hafa lært heilmikið af henni þegar lestrinum lauk. Ég hlakka virkilega til að lesa hana fyrir son minn þegar hann verður aðeins eldri eða leyfa honum að lesa hana sjálfur.
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Af tíu konum þá heita þrjár þeirra Kristín og hér er sú þriðja. Þessi snillingur hefur skrifað heilan haug af barnabókum, hverja annarri betri. Af hennar bókum ber kannski helst að nefna bækurnar um Fíusól sem íslensk börn elska. Ég kann svo vel að meta hvað við eigum frábæra barnabókahöfunda, því börnin eru framtíðin og það sem okkur mestu máli skiptir. Kristín Helga er rithöfundur sem ég get klárlega mælt með fyrir yngstu lesendurna. Það er alltaf skemmtilegur húmor í bókunum hennar og ég dáist að ímyndunarafli þeirra sem eru fullorðnir en ná að setja sig inn í hugarheim barna eins vel og hún gerir.
Þetta er auðvitað engan vegin tæmandi listi yfir kvenrithöfunda landsins, heldur aðeins þær sem voru mér efst í huga í þetta sinn.