Allt frá því ég var lítill polli vissi ég að ég væri ekki alveg eins og allir hinir pollarnir. Ég nennti aldrei að fara í fótbolta, í leikslagi eða bardagaleiki. Ég nennti eiginlega ekki neitt að vera með strákunum. Og það versta í heiminum var að veiða með pabba. Djöfull fannst mér það leiðinlegt.
Ég var meira eða minna eltandi vinkonur systur minnar sem er árinu eldri en ég og vildi miklu frekar leika mér við stelpurnar í skólanum. Í snú-snú, parís, brennó og þessum dæmigerðu „stelpuleikjum“. Systir mín var reyndar alltaf fótboltafrík, elskaði að renna fyrir fisk og var á hjólabretti meðan ég druslaðist á hjólaskautum.
Sumir strákarnir byrjuðu svo að kalla mig homma í skólanum og það var eiginlega í fyrsta skipti sem ég áttaði mig á að það væri einhver skilgreining á því hvað ég væri þó svo að orðið væri notað sem neikvætt uppnefni. Á unglingsárunum var ég bara með stelpum í skólanum og öllum tómstundum. Svona hélt þetta áfram öll menntaskólaárin mín líka.
Þegar ég hóf nám í Kennaraháskóla sprakk sprengjan sem ég vissi að myndi gerast á endanum. Ég fékk alveg nóg af því að þykjast vera einhver annar en ég var. Það var kominn tími til þess að „koma út“ og þeir sem hafa gengið í gegnum þetta ferli vita nákvæmlega hvað ég er að tala um. Vá, þvílíkt frelsi! Auðvitað voru vandræði sem fylgdu í kjölfarið og sumir þurftu lengri tíma en aðrir til að átta sig. Á þessum tíma var mikil jákvæð þróun í viðhorfi samfélagsins til samkynhneigðra, sem gaf mér kjark og þor til að fara að sætta mig við mig sjálfan, aðra og samfélagið.
Nálgun samkynhneigðra við samfélagið á þessum árum einkenndist af svo mikilli gleði, innlifun, kærleika og nánd. Ég horfði alltaf heim til Íslands og það gladdi mig svo að sjá hvernig íslenskt samfélag var að breytast í átt að jafnrétti, ekki einungis kynjajafnrétti heldur líka fyrir minnihlutahópa eins og minn. Á fyrsta áratug þessarar aldar einkenndist byltingin okkar af þessari sömu gleði. Alltaf gleðin, kærleikurinn, nándin hvert við annað og við samfélagið okkar. Í takt fór hugarfarið batnandi samhliða.
Femínismi og LGB-fólk (nú LGBTQI+)
Barátta samkynhneigðra og femínismi (og í sumum tilvikum verkalýðsbarátta eins og t.d. í Bretlandi þegar hinsegin fólk studdi velska námumenn) átti mjög sterka samleið áður fyrr. Hinsegin fólk og feministar áttu það sameiginlegt að vera á jaðri samfélagsins og hávaðasamir róttæklingar. Tímarnir voru náttúrlega allt aðrir og tæknin og samskiptaleiðir fólks í engu líkt því sem við búum við.
Þrátt fyrir þetta hafa hommar og lesbíur barist í raun hver í sínu horni, því lesbíur fundu sér oft meiri samleið með kvennahreyfingunni og femínismanum en t.d. samkynhneigðir karlmenn þar sem baráttumálin voru oft og tíðum afar ólík. Áhugi karlanna fyrir femínismanum var einnig mjög takmarkaður. Lesbíur áttu það til að vera fjandsamlegar við þá og hóparnir áttu því oft í eins konar „haltu mér-slepptu mér“-sambandi.
Þegar þessir hópar hafa verið í baráttu að sameiginlegu markmiði hafa þeir þó unnið sterkt saman og kannski nýjasta dæmið um slíka samvinnu er “marriage equality“ eða jafnrétti til hjónabands.
Ísland er engin undantekning í þessum efnum og þetta trend hefur einnig verið áberandi síðasta áratuginn (og líklega lengur) þegar við t.d. lítum bara á hverjir hafa gegnt formennsku í Samtökunum ´78 og hvernig áherslur Gleðigöngunnar í Reykjavík hafa verið með mismunandi hætti í gegnum tíðina. Nýlegasta dæmið sem er í fersku minni eru t.d. spjöldin með ógeðinu úr kommentakerfunum og samfélagsmiðlunum. Spjöldin sem voru nýtt í að apa eftir viðbjóðinn sem örfáir vanvitar höfðu skilið eftir sig á netinu. Netsóðaskap.
Stór hluti af göngunni var orðinn litaður af neikvæðni og hroðbjóði sem endurspeglar á engan hátt viðhorf samfélagsins til okkar. Þetta var mikil afturför.
Það hefði verið miklu nær að sýna meiri samstöðu með bræðrum okkar og systrum í löndum þar sem fólk er virkilega ofsótt og jafnvel drepið fyrir þær sakir einar að elska aðra manneskju af sama kyni. En femínistar virðast kæra sig lítið um slíkt.
Þeir virðast ekki kæra sig heldur um jafnréttismál í löndum sem hafa ekki einu sinni tærnar þar sem Íslendingar eru með hælana. Það eru til konur sem telja sig kúgaðar og undirokaðar af íslensku samfélagi. Krafa þeirra er að ritstýra netmiðlunum, stjórna umræðunni, halda henni í gíslingu og kalla alla gagnrýni kvenhatur og þöggun. Með þeirri kröfu heimta þeir að að verða kennivald 21. aldarinnar.
Eiginhagsmunabaráttan og forréttindafíknin
Hálfum milljarði hefur verið ráðstafað (100 milljónum á ári) til Jafnréttissjóðs og helmingur fjárins á að renna til verkefna tengdra stöðu kvenna í þróunarríkjum og þekkingu á málefnum þeirra hérlendis. Þess var ekki langt að bíða að Kvenréttindafélag Íslands gerði „Alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðan Jafnréttissjóð.“
„Stjórn Kvenréttindafélags Íslands mótmælir að settar séu þessar takmarkanir á fjárveitingar úr Jafnréttissjóði Íslands. Það er óviðeigandi að á degi þegar við fögnum jafnrétti kynjanna á Íslandi, þegar við lítum til framtíðarinnar til allra þeirra verkefna sem enn eru eftir óunnin hér á landi, að stofnaður sé sjóður sem er með þeim reglum að allt að helmingur fjárveitinga falli til verkefna sem unnin eru utan landsteinanna.“
Finnst einhverjum þessi yfirlýsing sýna vilja til þess að axla samfélagslega ábyrgð alþjóðlega?
Það er margt sem betur má fara í jafnréttismálum. Til að mynda málefni innflytjenda, kvenna sem karla, málefni fatlaðra, málefni feðra og ekki síst málefni karla sem verða fyrir heimilisofbeldi. Allt eru þetta jafnréttismál. Ekki hefur mikið borið á því að femínistar láti sjá sig í fjölmiðlum til að hreyfa andmælum við því vægast sagt skelfilega ástandi sem heyrnarlausir og daufblindir búa við með galtóman túlkasjóð.
Ofbeldi, sýn á samfélagið, hugmyndafræðin og tortryggnin
Ég ætla ekki að gera lítið úr því þrekvirki sem hefur verið unnið af hálfu Stígamóta þó að aðferðarfræðin sé femínisk. Þær segja það á heimasíðu sinni. (http://www.stigamot.is/is/um-stigamot/hugmyndafraedi ) Ég er alveg sannfærður um það að margar konur hafa fengið úrlausn sinna mála hjá þeim og er það mjög svo þakkarvert.
Það sem gerir mig tortrygginn er t.d. það að úrræðin fyrir karla séu í höndum femínista. Femínistar eins og við höfum heyrt og séð telja okkur búa við nauðgunarmenningu, klámvæðingu og kerfisbundna kúgun. Konur hafa rofið þögnina og viðrað óþverraskapinn í okkur körlunum í lokuðu bakherbergi á Facebook og enginn leið fyrir neinn að verjast þessu, því konur eða meintir þolendur ljúga aldrei og öll gagnrýni á þetta fyrirkomulag er þöggun.
Íhugum þetta dæmi:
Gagnkynhneigður karlmaður er í hjónabandi með konu sem beitir hann bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. Þau eiga saman eitt barn og hann vill með engu móti missa af uppeldi barnsins. Hann er með sjálfsmorðshugleiðingar og er bugaður á líkama og sál. Hann finnur samt hugrekki til að leita til Stígamóta. Þar er honum tekið opnum örmum og honum boðin aðstoð. Konan hans kemst einhvern veginn að því að hann sé þangað kominn til að fá úrlausn sinna mála, verður æf og lítur á þetta sem svik. Hún verður reið, bitur og fyllist hefndarhug. Hún leitar sjálf til Stígamóta viku seinna (meðan hann er enn að fá úrlausn sinna mála) og heldur því fram að hann hafi nauðgað henni – ítrekað. Ekki nóg með það. Hún sakar hann um að hafa beitt barnið ofbeldi líka.
Hvernig yrði haldið á hans málum í þessu tilviki? Hvoru þeirra yrði trúað og hver yrðu úrræðin fyrir þolanda og geranda? Hvernig yrði litið á manninn í framhaldinu?
Vandamálið
Þegar jafnréttismál eru tekin í gíslingu og umræðan verður einstefnuleg þá er það í raun aðför að jafnréttinu. Háværir femínistar vega að hlutleysi fjölmiðla og vilja helst fá að ráða hvað sé birtingarhæft í netmiðlum landsins. Það verður að vera þeim þóknanlegt.
Siðferðis- og réttlætiskennd margra hefur verið særð þegar ofangreindir ímyndarkvillar femínista ráða ferðinni. Ef maður vogar sér í umræður á netinu um jafnréttismál almennt er oft ekki fræðilegur möguleiki að eiga eðlileg skoðanaskipti. Jafnréttissinnar verða að fara að opna augun og andmæla mestu öfgunum. Það er engum til hagsbóta að hreyfa ekki andmælum þegar einhverjum í „sama liði“ verður illa á í messunni.