Það eru ekkert allt of mörg ár síðan ég heyrði fyrst af karma en í dag reyni ég eftir fremsta megni að lifa eftir því. Fyrir þá sem ekki vita þá byggist karma fyrst og fremst á því að gjörðir þínar hafa ávallt afleiðingar. Þá er sama hvort talað er um góðar eða slæmar.
Einu sinni horfði ég á þætti um mann sem lifað hafði óheiðarlegu lífi en kynntist hugtakinu karma og ákvað að snúa lífi sínu til betri vegar. Maðurinn sem um ræðir útskýrði karma á þann hátt sem að allir geta skilið en það er að ef þú gerir gott þá færðu gott til baka. Afur á móti, ef að þú gerir slæmt þá færðu á endanum slæma hluti til baka.
Hann einfaldaði karma svo vel að ég skildi það loks að fullu.
Ég hef tekið eftir því þegar ég lít yfir farinn veg að þau tímabil sem einkennst hafa af hálfgerðri sjálfselsku og leiðindum af minni hálfu hafa einnig einkennst af því að allt gekk á afturfótunum. Þau tímabil þar sem ég hef gefið óeigingjarnt af mér og verið tilbúin til að hjálpa til án þess að gera ráð fyrir því að fá endilega nokkuð til baka, það eru tímabilin þar sem allt hefur gengið upp.
Ég reyni að vera í stöðugri sjálfskoðun og er farin að tengja saman að ef hlutirnir eru allt í einu farnir að ganga illa, ég er óhamingjusöm og allt virðist ganga á afturfótunum þá get ég sest niður og skoðað hvernig ég hef komið fram síðustu vikurnar eða jafnvel mánuðina og undantekningarlaust get ég fundið atvik þar sem ég hef breytt „rangt“. Ef að allt gengur vel í lífinu og ég er full af hamingju þá geng ég út frá því að ég sé að breyta „rétt“.
Það eru ekkert allir í kringum mig sem skilja endilega hvað hugtakið karma gengur út á. Íslendingar eru margir hverjir svo fastir í því að fá borgað samstundis fyrir allt sem þeir gera og þá frá þeim sem þeir unnu vinnuna fyrir eða hjálpuðu til við að vinna.
Ég hef margoft fengið vantrúarsvip frá þeim sem ég segi frá að ég og karlinn minn höfum hýst yfir 100 ferðamenn síðastliðið sumar og ekki fengið greitt krónu fyrir. Það er eins og fólk trúi því ekki að það sé hægt að gera nokkuð ókeypis og fyrir ánægjuna eina saman og hvað þá fyrir einstaklinga sem að maður þekkir ekki einu sinni.
Það er svo furðulegt hversu mikið líf mitt hefur breyst til betri vegar síðan ég fór að lifa í karma. Ég er í heildina séð miklu hamingjusamari, mér líður betur á líkama og sál og ég er af einhverjum ástæðum nægjusamari.
Fyrir nokkrum árum datt ég niður í þær pælingar hvað ég myndi vilja gera í lífinu ef að allar dyr stæðu mér opnar og komst að þeirri niðurstöðu að ég vildi eiga stórt hús og helst hafa fólk í vinnu við að þrífa, elda og einfaldlega gera allt fyrir mig þannig ég gæti bara verið að leika mér í lífinu. Best væri ef að ég þyrfti ekki að vinna fyrir því.
Í dag setja þessar hugsanir að mér hroll. Ég get ekki mögulega séð hvernið þess konar líf gæti fyllt mann lífshamingju.
Í dag er ég þannig stödd að ef mér stæðu allar dyr opnar þá myndi ég vilja vera á þeim stað þar sem ég gæti hjálpað til við að gera heiminn að betri stað fyrir alla sem í honum lifa.
Ég myndi vilja vinna á heimili fyrir munaðarlausa og gefa jafnvel einhverjum börnunum gott framtíðarheimili þegar til lengri tíma væri litið, ég myndi vilja opna dýraathvarf sem tæki við öllum dýrum og myndi annaðhvort hjúkra þeim þar til hægt væri að sleppa þeim út í náttúruna aftur eða endurhæfa þau og finna góð framtíðarheimili.
Ég í rauninni myndi vilja gera hvað sem er til að gera heiminn að betri stað og mér væri í raun alveg sama hvort að sjálf ætti ég ekki hús eða peninga. Á meðan ég væri að gera góða hluti þá myndi mér nægja þak yfir höfuðið á nóttunni og fæðu til að lifa.
Ég tel að þessi afgerandi breyting á hugarfari komi í beinu framhaldi af því að ég byrjaði að lifa í karma. Með tímanum fara veraldlegir hlutir að skipta minna máli og löngunin til að bæta heiminn verður yfirsterkari.
Ég er ein af þeim sem tel að heimurinn væri mikið betri ef að allir myndu lifa eftir karma en ég er einnig raunsæ og geri mér grein fyrir því að það eru alltaf einhver rotin epli í kassanum sem skemma fyrir öllum hinum. Þangað til að það breytist er þetta einungis fallegur draumur.
Fróður maður sagði eitt sinn: „Vertu sú breyting sem þú vilt sjá í heiminum.“ Ég mun ávallt reyna mitt besta til að lifa eftir þessum orðum enda hefur það sýnt sig hingað til að mér farnast það best.