Það hefur verið svolítið erfitt að átta sig á þeirri harkalega neikvæðu umræðu sem skapast hefur um Evrópusambandið í kjölfar efnahagskrísunnar í Grikklandi undanfarin misseri.
Sannarlega virðast skilyrði þríeykis lánardrottna Grikklands („troika“) fyrir frekari lánafyrirgreiðslum til þeirra hafa verið frekar ósiðleg – og efnahagslega beinlínis óskynsamleg. Persónulega skil ég ekki hvers vegna þau gera kröfu um jafn-krappan niðurskurð og aðlögun fjárlagahallans og raun ber vitni, þar sem það hefur haft félagslega hörmulegar afleiðingar og allt bendir til þess að það sé efnahagslega mjög óráðlegt til endurreisnar.
Tilraunir til að kenna ESB um efnahagsvandræði Grikkja eru hins vegar æði undarlegar. Vitað er að Grikkir hafa um áraraðir lifað langt um efni fram, spilling þar í landi hefur verið gríðarleg, innviðir mjög veikir og grísk stjórnvöld hafa falsað efnahagsreikninga í stórum stíl allt frá því þau lugu sig inn í Evruna á sínum tíma (vitandi vits ESB að vísu).
Það hefur ótrúlega oft heyrst að ESB eigi sökina á þessu ástandi. Fyrir að hafa hleypt Grikkjum inn í Evruna á sínum tíma og/eða fyrir að hafa sameiginlegan gjaldmiðil án sameiginlegs fjárhags (sem er vissulega óskynsamlegt) – eins og Grikkir hafi bara verið þvingaðir þangað inn gegn eigin vilja. Síðast sagði formaður helsta Evrópuflokks Íslands skilmerkilega frá ofangreindum aðstæðum – en komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki Grikkjum að kenna, vegna þess að evrópskir bankar hefðu lánað þeim pening!
Bíðum nú hæg. Ef ég sæki um lán hjá banka vitandi að ég geti ekki borgað það til baka, má ég þá semsagt kenna bankanum um þegar kemur að skuldadögum, fyrir að hafa lánað mér peninginn á sínum tíma? Er það orðið honum að kenna að ég geti ekki borgað? En undarlegt.
Almennt er líka frekar undarlegt að ríki skuli kenna öðrum ríkjum um efnahagslega erfiðleika sína á þeim forsendum að þeim séu sett skilyrði fyrir gríðarlegum lánum. Eins og þau eigi bara sjálfsagðan rétt á að aðrir láni þeim pening og reddi þeim. Og þá er auðvitað horft fram hjá því hvers vegna þau þurftu á láni að halda til að byrja með. Svolítið eins og fulli frændinn sem kann ekki með peninga að fara, fær stöðugt lánaðan pening hjá fjölskyldunni, eyðir þeim öllum í vitleysu og verður síðan brjálaður þegar fjölskyldan setur honum skilyrði fyrir næsta láni! Augljóslega er það fjölskyldunni að kenna að svona illa er komið fyrir honum (?).
Eins og áður sagði eru skilyrði þríeykisins vissulega óskynsamleg og kannski ósanngjörn, en ég get með engu móti séð hvað það hefur með Evrópusambandið sem slíkt að gera. Það eru einstakir leiðtogar Evrópuríkja (Angela Merkel, fyrst og fremst) með tiltekna hugmyndafræði / viðhorf sem setja þessi skilyrði og hafa þau lítið sem ekkert með ESB sem fyrirbrigði að gera.
Þvert á móti er það ESB og hugsjónin að baki því sem skýrir hvers vegna þríeykið er yfirhöfuð tilbúið að afskrifa og lána Grikkjum tugi milljarða Evra til að byrja með. Nánast óhugsandi er að Grikkjum stæði þvílík aðstoð til boða ef ekki væri fyrir Evrópusambandið.
Hugsið aðeins málið. Ef Azerbaijan, Líbanon eða Hvíta-Rússland færu fram á tugmilljarða evra lán og afskriftir frá Evrópuríkjum vegna efnahagserfiðleika heima fyrir, hvernig haldið þið að viðtökurnar yrðu? Myndi Merkel hlaupa til með ávísanaheftið – jafnvel án þess að setja þeim nokkur skilyrði fyrir láninu?
Nei, eina ástæðan fyrir því að lánin eru yfirhöfuð veitt er Evrópusamstarfið, sameiginlegir hagsmunir í gegnum Evruna, frjálst flæði fjármagns og hugsjónin um sameinaða Evrópu sem býr að baki þessu.
Þau sem gagnrýna ríki ESB fyrir að setja skilyrði fyrir þessum lánum hljóta þá að vera að biðja um að lánin séu veitt skilyrðislaust, eða amk. samkvæmt skilyrðum sem Grikkir sjálfir hafi meiri áhrif á. Með öðrum orðum, þau eru að biðja um mun nánari Evrópusamruna en er við lýði í dag!
Enda er flestum ljóst að rétt eins og kola- og stálbandalag Þýskalands og Frakklands leiddi smám saman til frekara efnahagssamstarfs á sínum tíma, sem leiddi til samstarfs á öðrum sviðum og sameiginlega markaðarins, sem leiddi til stofnana til að halda utan um það samstarf og loks sameiginlegs gjaldmiðils; þá mun þetta ástand að öllum líkindum leiða til sameiginlegri fjárhags ESB-ríkja, með sameiginlegri skattlagningu og jöfnunarsjóði sem mildar áhrif ólíkra hagsveiflna í ríkjum sambandsins. Það er einmitt fyrirkomulagið í Bandaríkjunum og ástæðan fyrir því að þau geta þrifist með sameiginlegan gjaldmiðil í 50 ólíkum hagkerfum.
Það má segja að þó efnahagsvandi Grikkja sé ekki ESB að kenna þá ættu þau samt að aðstoða þjóðina enn meira, af mannúðarástæðum. Það má líka segja að efnahagslegur stuðningur við Evrópuríki í jafnmiklum efnahagserfiðleikum og Grikkland ætti að vera sjálfsagður hluti af samstarfi þessara ríkja. Hvorugt væri þó mögulegt án Evrópusambandsins. Þvert á móti mundi það kalla á að taka samstarfið enn lengra.
Kröfuna um hvoru tveggja get ég nefnilega heilshugar tekið undir, en það er mikilvægt að átta sig á því að það er krafa um meira ESB, ekki minna.