Konukot er næturathvarf fyrir heimilislausar konur. Flestar þeirra stríða við vandamál tengd neyslu áfengis og/eða fíkniefna. Neysla áfengis og annarra vímuefna er ekki leyfð í athvarfinu, en konum er ekki meinaður aðgangur þótt þær séu undir áhrifum þegar þær mæta á staðinn. Reykjavíkurdeild Rauða krossins setti Konukot á fót og opnaði formlega þann 10. desember 2004.
Í dag koma margir aðilar að því að færa Konukoti gjafir. Alma Rut Lindudóttir er formaður Raddarinnar sem eru hagsmuna- og baráttusamtök um málefni utangarðsfólks hefur látið þessi mál sig miklu varða og við grennsluðumst fyrir um gjafirnar, starfsemi Raddarinnar og fleira.
Kvennablaðið: Þú lætur ekki þitt eftir liggja þegar kemur að málefnum utangarðsfólks, hvenær kviknaði áhuginn á hjálparstarfi?
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á hjálparstörfum og áður en ég byrjaði að vinna að bættri velferð utangarðsfólks vann ég í sjálfboðavinnu á nokkrum stöðum, til dæmis sá ég um þjónustu hjá Samhjálp og vann í nytjamarkaði. Það hefur alltaf verið mér ofarlega í huga að geta lagt mitt af mörkum til þeirra sem þurfa aðstoð á meðan ég sjálf hef færi og getu til að gera það.
Segðu okkur aðeins frá tilurð samtakanna Röddin, Hverskonar samstök eru þetta?
Ég og Þorleifur varaborgarfulltrúi komum mest að skipulagningu samtakanna. Röddin er hagsmunasamtök um réttindi utangarðsfólks. Samtökin leggja áherslu á að utangarðsfólk öðlist sömu réttindi og allir aðrir í þjóðfélaginu. Í félaginu sitja 7 í stjórn og 3 til vara. Við stofnuðum samtökin í síðasta mánuði þannig að þetta er allt á byrjunarstigi núna en þau koma til með að gera mjög góða og flotta hluti. Það er mjög margt sem okkur langar til að gera og koma í framkvæmd, ég sé mjög mikla þörf fyrir samtök eins og þessi enda eiga allir rétt á sömu þjónustu. Í dag erum við að klára allan undirbúning sem þarf til en þetta er allt á góðri leið.
Segðu okkur aðeins af minningarsjóði Lofts Gunnarssonar, hvernig varð hann til?
Ég var að vinna í húsnæði sem stendur við Fógetagarðinn og þar fyrir utan, á bekk við risastórt tré, sátu oft menn á daginn þegar ég mætti til vinnu. Einn þeirra hét Loftur Gunnarsson. Ég kynntist þeim flestum en best kynntist ég Lofti, með okkur tókst góð vinátta. Loftur hafði þá verið á götunni í svolítinn tíma. Við spjölluðum mikið um aðstæður hans og hvernig honum þætti lífið á götunni. Hann sagði mér frá sinni upplifun og nokkrir af hinum strákunum sögðu mér líka frá.
Við Loftur ákváðum að gera eitthvað, ég gat skrifað bréf og hringt símtöl, hann gat sagt mér það sem þurfti að gera. Við vorum endalaust að velta þessu öllu fyrir okkur og ákváðum að ég myndi vera með honum yfir helgi á götunni og fara með honum allt sem hann færi. Plan okkar var að gera það um sumar og markmiðið var að ég myndi sjá líf þeirra eins og það væri í raun og veru og prufa að upplifa það þessa daga. Loftur lést áður en við náðum að gera þetta og ekkert varð úr því en ég ákvað að gera samt allt sem ég gæti til að halda áfram með það sem við höfðum talað um að framkvæma.
Og hvernig barstu þig svo að við að framkvæma hugmyndir ykkar Lofts?
Ég var búin að skrifa einhver bréf til borgarstjóra á þessum tíma. Í fyrstu fékk ég engin svör þannig að í framhaldi af því setti ég nokkrar hugmyndir inn á Betri Reykjavík. Ég skrifaði grein og stofnaði hóp á Facebook sem er í gangi enn í dag. Á þessum tíma var ég algjör nýliði í svona málum og vissi í raun voða lítið um kerfið, alla þá þjónustu sem er í boði og svo framvegis. Ég þurfti að lesa mér mikið til og kynna mér vel og vandlega öll þau úrræði sem eru fyrir hendi. Ég setti mig svo í samband við Þórunni mömmu Lofts og við áttum gott samtal. Hún var þá búin að ákveða að stofna minningarsjóð um son sinn og nota það fé sem myndi safnast til að bæta velferð utangarðsfólks. Við ákváðum að sameina krafta okkar, fleiri komu til liðs við okkur og á endanum stofnuðum við félag sem heitir Minningarsjóður Lofts Gunnarssonar hér er heimasíða félagsins.
Ertu í sambandi við fleira utangarðsfólk, nú þegar Loftur er fallinn frá?
Já, það er ég svo sannarlega því án þeirra vissi ég ekki mikið um stöðuna. Ég er í góðu sambandi við marga sem hafa verið og eru utangarðs. Ég legg mikla áherslu á að hlusta á þeirra skoðanir og fá þeirra sýn á hlutina, ég tel það nauðsýnlegt til þess að geta fyllilega vitað hvenær er þörf á því að banka í borðið og láta til mín taka.
Þið eruð ásamt fleirum að færa Konukoti gjafir í dag, segðu okkur aðeins frá því?
Já, í dag færum við Konukoti rúm. Við höfum áður keypt rúm fyrir Gistiskýlið í Þingholtsstræti en þangað gáfum við 20 rúm ásamt sængum, koddum og fleiru. Rúmin sem við erum að gefa Konukoti eru eins og rúmin sem við gáfum Gistiskýlinu. Rúmin henta þessari starfsemi mjög vel, þau eru þægileg en líka auðvelt að þrífa þau. Það koma fleiri að þessari gjöf, kvenfélagið Silfur og maður sem heitir Hólmgeir en hann er búinn að vera að selja VIP kort í Vestmannaeyjum og náði að safna góðri upphæð upp í rúmin með okkur. Ásamt rúmunum munum við á morgun líka færa Konukoti ísskáp, eldavél, ryksugu, brauðrist og tölvu en það var yndislegur maður sem vill ekki láta nafns síns getið sem fékk það fyrir Konukot.

Á myndinni eru frá vinstri til hægri. Hrafnhildur Jóhannesdóttir frá Minningarsjóði Lofts Gunnarssonar, Alma Rut Lindudóttir, Hjördís Lára Hreinsdóttir frá Kvenfélaginu Silfur og Katla Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri RKÍ.
Hvar er hægt að nálgast frekari upplýsingar um málefni útigangsfólks á Íslandi og hvernig hægt er að leggja málefninu lið?
Alma Rut: Ég hef haldið úti hópi á Facebook í langan tíma. Svo er ég með vinnuhóp fyrir þá sem vilja fá verkefni og hjálpa til við þetta mikilvæga málefni, hann má finna hér. Ég hvet líka alla til þess að fara á flóamarkað sem er í gangi sem Konukot rekur en allur ágóði af sölu hans rennur til Konukots. Hér má finna allar upplýsingar um flóamarkaðinn. Þeir sem vilja síðan leggja málefninu lið á einhvern hátt geta haft samband við mig á almarut@internet.is
Hér má lesa meira um Konukot og starfsemina sem þar fer fram, upplýsingar eru fengnar frá Rauða krossinum.
Forsaga Konukots er sú að gerðar höfðu verið þarfagreiningar og rannsóknir sem leiddu í ljós að fjöldi heimilislausra kvenna væru á vergangi í Reykjavík og ákvað stjórn Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á fundi vorið 2004 eftir tveggja ára undirbúningstímabil og viðræður við marga aðra aðila um samstarf að opna athvarfið hið fyrsta.
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar útvegaði húsnæðið að Eskihlíð 4 um haustið 2004 og var það samkomulag milli borgarinnar og Reykjavíkurdeildar Rauða krossins að um yrði að ræða tveggja ára tilraunaverkefni og aðkoma borgarinnar eða yfirtaka yrði skoðuð að þeim tíma loknum. Þann 28. september 2006 gerðu velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Rauði krossinn í Reykjavík með sér samning þess efnis að Reykjavíkurdeild Rauða krossins sér áfram um rekstur Konukots en fær rekstrarfé frá velferðarsviði borgarinnar.
Í Konukoti er reynt að skapa þeim sem þar dvelja þægilegt og heimilislegt andrúmsloft, þar sem grundvallarmarkmið Rauða krossins eru höfð að leiðarljósi. Starfsmenn Konukots geta aðstoðað við að hafa samband við lækni, meðferðaraðila, geðdeild eða sambærilega aðila ef gestur óskar eftir því. Einu sinni í viku mæta félagsráðgjafar frá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða í athvarfið og bjóða aðstoð þeim gestum sem hana vilja þiggja. Í Konukoti er boðið upp á kvöldverð og léttan morgunverð. Konur geta þvegið af sér og farið í sturtu, auk þess sem þær geta fengið fatnað, sem fataflokkun Rauða krossins útvegar, ef á þarf að halda.
Í Konukoti er unnið eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði. Skaðaminnkandi hugmyndafræði (e. harm reduction) beinist að því að draga úr eða lágmarka heilsufarslegan, félagslegan og fjárhagslegan skaða sem vímuefnaneysla veldur einstaklingi eða samfélögum. Í skaðaminnkandi nálgun er sjónum beint að afleiðingum og áhrifum fíknihegðunar en ekki á notkunina sem slíka. Markmið skaðaminnkunar er fyrst og fremst að auka lífsgæði neytenda. Dæmi um skaðaminnkandi hugmyndafræði í framkvæmd er til dæmis að frá því í október 2009 hefur verið starfrækt nálaskiptiþjónusta í Konukoti í samstarfi við Frú Ragnheiði. Í nálaskiptiþjónustunni er boðið upp á hreinan sprautubúnað, smokka og ráðgjöf um örugga sprautunotkun og blóðborna sjúkdóma eins og HIV og lifrarabólgu C.