“Útí eyjum, bjó Einar kaldi, er hann hér enn ? Hann var öðlingsdrengur, já svona eins og gengur– um eyjamenn! Allir saman nú, trallala, trallala..” Hver þekkir ekki þetta lag Stuðmanna.
Mín fyrstu kynni af Vestmannaeyjum voru þegar pabbi minn fór með okkur systkynin ásamt franskri dóttur góðs vinar hans til Eyja á þjóðhátið árið 1979!
Sylvie, hét hún og heitir væntanlega enn. Hún kom aldrei aftur til Íslands eftir þá heimsókn og telst því ekki til þeirra hinna frægu Íslandsvina enda hvorki Hollywood leikkona eða leikstjóri.
Ég var 12 ára gamall og gleymi því seint sem fyrir augu bar og sennilega hún Sylvie ekki heldur!
Jú, frægu hvítu tjöldin voru um það bil það eina sem stóð teinrétt uppi í dalnum. Fylleríið, öskrin og lætin og viðbjóðurinn sem tók við manni var algjörlega sjokkerandi og svo mikil að pabbi ákvað að flytja okkur á hótelið í bænum. Sylvie fékk held ég sjokk!
Menningarsjokk, komandi frá fallegu frönsku vín og matarhéraði við landamæri Sviss vissi ekki hvar hún var lent. Henni var verulega brugðið man ég.
En þetta voru aðrir tímar og eyjalöggan ekkert að pæla í þessu þá, enda árið 1979.
En nú er öldin önnur–öldin hennar, árið er 2015 og hafa konurnar tekið völdin í hinum ýmsu lögregluembættum landsins; “Girl power” jibbí jei!
Já, hún Sigríður Björk Guðjónsdóttir löggustýran á höfuðborgarsvæðinu, vinkona og flokkssystir Hönnu Birnu Kristjánsdóttir hefur farið svo vel af stað í embættinu að hún neitaði að tjá sig við fjölmiðla lengst framan af þegar spurð ítrekað út í hennar aðkomu að Lekamálinu fræga!
Hún hafði sent frægasta aðstoðarmanni ráðherra fyrr og síðar Gísla Frey Valdórssyni umbeðin gögn sem heita átti trúnðarmál eftir að Gísli kallinn hringdi í hana og bað hana einfaldega um þau! Hver segir svo að kerfið sé ekki skilvirkt ?
Eitt símtal er allt sem þarf! Hún hafði eins og hún síðar viðurkenndi–afhent umbeðin gögn í góðri trú enda Hanna Birna hennar æðsti yfirmaður og góð vinkona úr Einkvinavæðingarflokknum.
En það sem hún hinsvegar sagði ekki neinum frá er að hún hélt þeim upplýsingum leyndum frá rannsakendum málsins, þ.e.a.s hennar kollegum í um sex mánaða skeið og fannst það bara allt í lagi. Flott byrjun hjá Siggu löggustýru!
Nú fáum við fréttir af því að hún Páley löggustýra í Heimaey ætli að færa okkur aftur á aðra öld.
Ekki finnst henni nóg að færa málin aftur til ársins 1979, heldur ætlar hún sennilega aftur til ársins 1879, áður en konur fengu kosningarétt á Íslandi og áður en konur fengu sennilega yfirhöfuð að hafa einhverja skoðun á einu eða neinu og hvað þá segja frá því sem fyrir þær hafðu komið?
Páley á Heimaklettinum sínum í fullum skrúða birtist á skjám okkar allra RÚV og minnti á að það er hún sem ræður og ekkert múður.
Nú á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi ætlar hún ekki að vera eftirbátur annarra kvenna sem rutt hafa brautina fyrir konur eins og Páley á Heimaey og setja sitt spor á réttindabaráttu kvenna.
Allir vita að það eru yfirleitt konur og stúlkur sem verða fyrir barðinu á nauðgurum og því ekkert betra en að færa málin aftur um rúmlega öld og þagga allt í hel!
En hver er kjarni málsins, þessi viðbjóðslega afstaða Páleyjar ef afstöðu skyldi kalla er náttúrulega bara að verja ímynd þjóðhátíðar heimamanna og þetta snýst bara um ímynd og “business” því það má náttúrulega ekki falla skuggi á Heimey!
Þessar tilraunir hennar til að verja þetta er móðgun við þenkjandi fólk sem ætlar ekki að taka þátt í þessari meðvirkni og sóðaskap.
Þetta hefur stundum verið kölluð “þjóðhátíð nauðgara” og ekki að ósekju því þar hafa helstu fréttir verið, fyrir utan hvort Árni Johnsen gat staulast í gegnum brekkusönginn rammfalskur á árum áður, hversu mörg kynferðisbrot hefðu verið framin þar?
Já, ekki hvort –heldur hversu mörg þau hefðu verið. Þetta er sannleikurinn sem þau ætla nú að afneita og vilja þagga niður.
Það er kaldhæðni örlaganna að það þyrfti konu, hana Páleyju frá Heimey árið 2015 til þess að þagga niður í kynsystrum sínum og færa okkur um heila öld afur í tímann, flott kona hún Páley, hún er alveg með þetta – á hundrað ára kosningarafmæli kvenna á Íslandi.
p.s
Höfundur vill gifast Páley ef hún lofar að haga sér vel og tala einungis þegar á hana er yrt. Annars á hún bara að vera í eldhúsinu og með matinn tilbúinn þegar bóndinn kemur heim á kvöldin og ekkert múður!