Á fésbók er spjallsvæði sem heitir Pírataspjallið, þar eru skráðir einhverjir 3.400 meðlimir. Hópurinn er ekki falinn (e. secret) eða lokaður nema að því leyti að það þarf að samþykkja beiðni fólks um inngöngu. Í lýsingu hópsins stendur:
Þær umræður sem eiga sér stað hér endurspegla ekki stefnu Pírata nema það sé sérstaklega tekið fram. Engar endanlegar ákvarðanir eru teknar fyrir hönd félagsins hér og að við mælum með póstlistanum og kosningakerfunum okkar til að ná sambandi við alla félagsmenn.
Auðvitað getur hver sem er fengið aðgang að Pírataspjallinu og deilt sínum skoðunum, eins og við viljum hafa það, en þær þurfa á engan hátt að endurspegla stefnu flokksins.
Inni á Pírataspjallinu eru ýmsir Píratar og líka ýmsir sem eru ekki Píratar en eru kannski forvitnir, vilja bara taka þátt í umræðum eða bara horfa á. Eins og segir enn fremur:
Þetta er óformlegur Facebook-hópur Pírata og er vettvangur fyrir almennt spjall um starfsemi flokksins og málefni líðandi stundar.
Það eru til dæmis einhverjir blaðamenn þarna inni í hópnum, svona til þess að fylgjast með hvað er í gangi. Því er áhugavert að sjá nýjustu fréttir mbl.is um að það séu skiptar skoðanir milli Pírata á þessu „lokaða“ spjallsvæði. Ég ætla að leyfa mér að fræða mbl.is aðeins.
- Þeir geta alveg verið með á spjallinu, þeir þurfa ekkert að vitna í „samkvæmt heimildum“ eitthvað. Geta bara lesið þetta sjálf.
- Skiptu skoðanirnar snúast eitthvað um möguleg framboð Helga Hrafns og Birgittu í næstu kosningum. Í grunnstefnu Pírata segir einfaldlega: 1.3 Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun. Þannig er það skjalfest að það er í lagi að skipta um skoðun, eins og fólki er eðlilegt að gera þegar aðstæður breytast.
- Að ýja að því að allir verði að vera á sömu skoðun ber merki um áhugavert hugarfar (ath. að „fréttin“ birtist ekki undir nafni). Píratar vilja hafa mismunandi skoðanir. Píratar vilja hlusta á mismunandi skoðanir. Meira að segja í hjónabandi skiptist hjón á skoðunum og eru ekki alltaf sammála. Að halda því fram að allir í einhverjum stjórnmálasamtökum verði allir að vera sammála er, í því ljósi, stórkostlega þröngsýnt.
Þannig að, kæra mbl.is, sækið bara um að fá að vera með og fagnið því að fólk skiptist á skoðunum. Það er einmitt þegar fólk skiptist ekki á skoðunum sem við eigum að fara að hafa áhyggjur.