Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ekki rukka ekki neitt

$
0
0

Hugmynd að tekjuöflun fyrir flugstöðina í Keflavík

Þegar kemur að því að greiða fyrir uppbyggingu fjármagnsfrekra innviða þjóðfélagsins eins og t.d. flugstöðva, stígagerð og salerna við vinsæla ferðamannastaði, er ég þeirrar skoðunar að fjármögnun eigi að mestu að koma frá þjónustu- eða aðstöðugjöldum notenda sjálfra, enda er þjónustan valkvæð af fúsum og frjálsum vilja. (Öðru máli gegnir um heilbrigðisþjónustu þar sem notandinn velur ekki að verða veikur og þarf á þjónustu að halda) Nú hafa a.m.k. þrjú-fjögur ár liðið frá því að umræða um sérstaka gjaldtöku til ferðamanna hófst án þess að stjórnvöld hafi „þorað” að setja gjaldið á.

Á meðan greiða íslenskir skattgreiðendur fyrir uppbyggingu, sem er hvergi næstum nægjanleg, samanber stóra salernismálið. Það er óþolandi að erlendir ferðamenn skuli vera meðhöndlaðir eins og frífarþegar. Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu orga hver í kapp við annan, allir vilja sjá umbætur og auknar fjárfestingar í greininni, en gjaldið má bara ekki lenda á „þeirra” túristum. Ég tek undir sjónarmið þeirra, sem telja það rakinn aumingjaskap af stjórnvöldum að láta þessa milljarða leka út úr höndunum á okkur.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar – umbótagjald flugvallar

Í bígerð er nauðsynleg stækkun flugstöðvarinnar, og nú þegar hefur verið lagt út í kostnaðarsamar breytingar í því skyni að anna auknum farþega- og flugvélafjölda sem koma til landsins á hverjum degi. Í venjulegu árferði ættu rekstrartekjur af lendingargjöldum, stöðvargjöldum og þjónustugjöldum við flugvélar að standa straum af rekstrarkostnaði við flugvöllinn og jafnvel gott betur þannig að hægt sé að leggja fyrir í fjárfestingasjóð. Líklegra er að þessi gjöld standi engan veginn undir þeirri fjárfestingaþörf sem blasir við, og hvað er þá til ráða?

7_vancouver

Fyrirmynd Vancouver (YVR)

Árið 2010 hélt Vancouver vetrarólympíuleikana en 7 árum áður, þegar ljóst var að borgin fengi leikana, var hafist handa við að endurbæta flugvöllinn. Fjármögnun umbótanna var í formi gjalds, (Airport Improvement Fee, AIE) sem til að byrja með var rukkað af hverjum farþega áður en farið var inn í vopnaleit, en er núna rukkað í gegnum flugfélög og/eða ferðaskrifstofur. Þegar reikningar Vancouver-flugvallar fyrir árið 2014 eru skoðaðir með tilliti til umbótagjaldsins, sem er reyndar lægsta sambærilega AIE-gjald í Kanada, kemur eftirfarandi í ljós:

Heildartekjur árið 2014 af gjaldinu var $ 129,3 milljónir eða 13,3 milljarðar ísk. Fjárfestingar árið 2014 voru $ 277,6 milljónir eða 28,6 milljarðar ísk. Sem dæmi voru gerðar endurbætur á innanlandsflugstöð, tengingu við loftlest, uppfærslu á farangurskerfi, byggingar á flugrekstrarsvæðinu og hliðarþjónustu við væntanlegt risa verslunar „outlet” á flugvallarsvæðinu.

VANCOUVER AIRPORT AUTHORITY - Best Airport in North America

Uppsafnaður sjóður í byrjun árs og innheimta ársins nægðu vel fyrir öllum fjárfestingum ársins og í fjárfestingasjóð í lok árs voru $ 100 milljónir til að nýta á árinu 2015 og komandi árum. Gjaldið til áfangastaða utan fylkisins er $ 20 (2000 kr) en $ 5 til áfangastaða innan fylkisins.

Ég þekki engan, sem hættir við að ferðast frá flugvellinum í Vancouver vegna þessa gjalds, en farþegafjöldi um flugvöllinn hefur vaxið örugglega en án öfga eða að meðaltali 4% á ári undanfarin fjögur ár.

Flugstöðin í Vancouver er ein glæsilegasta og farþegavænsta flugstöð sem ég hef komið í. Indjánalist og indjánamenningu er gert hátt undir höfði, sem gerir göngu um völlinn fyrir og eftir flug að spennandi upplifun.

Keflavíkurflugvöllur – tekjur af UGF ef það hefði ekki verið ekki rukkað!

Viðmiðunarstofn umbótagjalds er oftast fjöldi brottfara, en einnig eru skiptifarþegar rukkaðir ef flugvöllurinn er fyrsti viðkomustaður. Í neðangreindri töflu er reynt að nálgast hugsanlegar árlegar tekjur miðað við a) fjölda brottfara og b) fjölda brottfara og helming skiptifarþega. Farþegatölur árið 2015 miðast við rauntölur jan.-júlí og útgönguspá miðað við 20% aukningu ágúst–desember milli ára, en aukning fyrstu 7 mánuði var 23,9%

Screen Shot 2015-08-12 at 09.10.48

Fram kemur að árlegar tekjur miðað við gefnar forsendur gætu numið frá 3,3–4,7 milljörðum króna. Ef við hefðum rukkað þetta gjald frá 2010 væri fjárfestingasjóðurinn orðinn á 5 ára tímabili á bilinu 13,5–19 milljarðar.
Í mars sl. kom fram frétt í Vísi um hugsanlega stækkun flugstöðvar til ársins 2040 og áætlaðan kostnað við stækkun 150–200 milljarðar, sem fjármálaráðherra taldi af og frá að yrði kostaður af ríkinu, heldur væri nær að einkaaðilar myndu sjá um það.

Ef við höldum áfram að leika okkur að tölum og göngum út frá því að tekjur af UGF væri 4,7 milljarðar árið 2015, og miðum við hógværan 5% vöxt á ári, þá værum við búin að safna 242 milljörðum fyrir stækkun flugstöðvar til ársins 2040, og ættum 42 milljarða í afgang.

Aðalatriðið þegar kemur að auðlindum lands og sjávar er; ekki rukka ekki neitt!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283