Þessi uppskrift er búin að vera í kollinum á mér í þónokkurn tíma en eins og með svo margt þá þarf ég að vera í rétta stuðinu til að koma þessu í verk. Núna er akkúrat þannig stemning á mér að hugmyndirnar komast úr hausnum og verða að veruleika. Búin að taka sumarþrifin á íbúðinni. Ný vinna handan við hornið og ég býð spennt eftir að byrja í rútinu ![:)]()

Þessa uppskrift er auðvelt að útbúa. Hún er líka fljótleg sem skemmir ekki fyrir.
Vanillurúlluterta
3 egg, aðskilja eggjahvítur og rauður
100 g rjómaostur
2 msk. sýrður rjómi 36%
1 tsk. vínsteinslyftiduft eða venjulegt
1.5 vanillustöng
10 dropar vanillustevía
30 g sukrin melis
Stífþeytið eggjahvítur með lyftiduftinu og setjið til hliðar.
Rjómaostur, eggjarauður, sýrður rjómi, sukrin melis, stevía og fræ úr vanillustöng þeytt vel saman.
Bætið eggjahvítum við með sleif og blandið vel en varlega.
Notið smjörpappír eða bökunarpappír sem búið er að smyrja með olíu (ég notaði avocado-olíu) og fyllir heila ofnskúffu. Dreifið yfir pappírinn sukrin og setjið svo deigið.
Bakið á 175 gráður í ca 9-12 mínútur eða þar til gyllt.
Krem
50 g rjómaostur
1 bolli frosin hindber
40 g sukrin melis
10 dropar hindberja stevía (má sleppa)
150 ml rjómi
Þeytið saman rjómaost, sukrin melis og stevíu.
Maukið berin þegar þau eru hálfþiðnuð eða alveg þiðin og sigtið fræin frá. Bætið við skálina og þeytið saman. Í lokin er rjóma bætt út í óþeyttum og þeytið þar til kremið verður stíft.
Dreifið kreminu á tertubotninn þegar hann er orðin kaldur og rúllið honum upp. Gott er að nota pappírinn til að hjálpa sér að rúlla upp.
Stráið yfir tertuna sukrin.