Í fyrstu uppreisn Palestínumanna gegn hernáminu, intifödunni, þorðu landtökumenn ekki að fara inn í þorpið Duma, þar sem banvæna íkveikjuárásin var framin 31. ágúst. En þorpsbúa hefur skort vernd í tvo áratugi.
Eftir Amiru Hass. Íslensk þýðing Einar Steinn Valgarðsson
Á fyrstu tímunum eftir morðið í Duma og í jarðarför hins 18 mánaða Ali Dawabaseh skiptust þorpsbúarnir, sem voru í áfalli vegna atburðanna, í tvo hópa: þá sem bauð við nærveru öryggissveita Palestínumanna og þá sem vorkenndu meðlimum þeirra.
Hvað sem glansandi farartækjum þeirra leið gátu öryggissveitirnar ekki ekið eftir Allon-vegi (sem er á svæði B, á fullu valdi Ísraels) án samvinnu við Ísraelsher.
Palestínsku öryggissveitirnar röðuðu sér í kring um moskuna á meðan farið var með bænir, en forsætisráðherra Palestínu, Rami Hamdallah, tók þar þátt og síðan var litla brennda líkið grafið.
Frændi Alis skýrir frá því að hönd drengsins og fótur hafi orðið eldinum að bráð.
Það að öryggissveitirnar voru aldrei þessu vant sýnilegar aðeins nokkrum stundum eftir hina banvænu íkveikjuárás gerði það enn meira áberandi að enga vernd var að hafa aðeins tíu tímum fyrr. Það sýndi greinilega hversu auðvelt morðingunum var að láta sér ekki einungis nægja að ráðast á hús í útjaðri þorpsins heldur þorðu þeir einnig að fara inn í hverfið. Nærvera vopnaðra og gljáfægðra öryggissvarðanna sýndi svo enn skýrar hversu veik staða heimastjórnarinnar er.
Samkvæmt alþjóðalögum ber Ísraelsher að tryggja öryggi Palestínumanna á öllum hernumdu svæðunum; samkvæmt Oslóarsamkomulaginu ber hernum alltént að tryggja öryggi þeirra á svæðum B og C. En yfirlýst markmið hersins, og þannig er það sannarlega í framkvæmd, er að standa vörð um landtökumenn og landtökubyggðir.
Samkvæmt skilmálunum sem palestínska heimastjórnin hefur samþykkt er sveitum hennar bannað að starfa á svæðum A og B og þar með að vernda sitt eigið fólk. Ef einstakir borgarar dirfast að eiga vopn eða beita þeim í sjálfsvörn gegn ísraelskum árásarmönnum munu Ísraelsher og öryggisþjónustan Shin Bet handtaka þá.
Hvað viðvíkur litlum hóp ungs fólks sem mætti við jarðarförina með græna Hamas-fána, þá sagði einhver kaldhæðnislega, „Á morgun verða þeir í fangelsum heimastjórnarinnar“. Annar sagði „Í fyrstu intifödunni þorði ekki einn einasti landtökumaður að koma inn í þorpið. Frá því að heimastjórn Palestínumanna var komið á fót höfum við verið berskjölduð“.
Eins og þriðji aðilinn orðaði það, þá komu öryggissveitirnar „til að vernda Hamdallah forsætisráðherra, ekki okkur“. Hann bætti svo við: „Þær taka við fyrirskipunum frá Ísrael“.
Þetta eru ástæðurnar fyrir því að andstæðingum heimastjórnarinnar bauð við nærveru öryggissveitanna þennan dag, og þeir sem eru ekki andstæðir henni vorkenndu þeim, þar sem þeir gáfu sér að meðlimir þeirra skömmuðust sín sjálfir fyrir getuleysi sitt.
Nokkrar tylftir þorpsbúanna starfa reyndar í öryggissveitunum. Þeim er hins vegar ekki leyft að verja sín eigin heimili.
Duma er í talsverðri fjarlægð frá landtökubyggðum Shiloh-dals, sem eru í senn ólöglegar samkvæmt ísraelskum lögum og alþjóðalögum, þar sem ofbeldi af hálfu landtökumanna hefur gert líf íbúanna í Mughayer, Jalud, Kusra, Krayut og fleiri þorpum að hreinu helvíti í meira en fimmtán ár. Með hjálp rifla frá Ísraelsher reka landtökumennirnir fólkið frá eigin landi. Fyrir þremur árum kveiktu óþekktir árásarmenn í bílum í Duma og skildu eftir skilaboð á hebresku, segja þorpsbúar.
„En við erum friðsælt þorp, við völdum engum vandræðum“ sögðu sumir. Margir þorpsbúa vinna í landtökubyggðunum— Sa’ad Dawabsheh, faðir Alis, sem sjálfur brenndist alvarlega í íkveikjuárásinni vann í Nofim. Aðrir vinna í landtökubyggðinni Shiloh. Það er eins með afkomuna og öryggið: heimastjórnin getur hvorugt tryggt.
Til að breiða yfir innbyggt getuleysi heimastjórnarinnar við að vernda þjóð sína fyrir hvers konar árásum Ísraela – þar sem landtökumenn og hermenn skaða fólk og uppskeru – komu nokkrir Fatahliðar með tilgerðarlegar yfirlýsingar fyrir utan við hús Dawabsheh-fjölskyldunnar og á leið í jarðarförina.
Þegar allt kemur til alls tilheyrir sérhvert okkar muquawama [andspyrnunni],“ sagði einhver. Annar benti á mikilvægi þess að hafa nágrannavörslu á næturnar, en það hefur Fatah talað um í allavega þrjú eða fjögur ár.
Yfirmenn í öryggissveitunum eru allir úr Fatah. Íkveikjuárásin á Dawabseh-fjölskylduna dregur alla veikleika Fatah, sem er sá flokkur sem stjórnar í reynd á svæðinu, fram í dagsljósið. Ísraelsher og Shin Bet hrósa öryggissveitunum fyrir að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir á Ísraela, en heimastjórninni leyfist ekki að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir gagnvart sínu eigin fólki. Og liðsmenn öryggissveitanna fela sig heima og á skrifstofum sínum þegar herinn ræðst á svæði A, þar sem heimastjórnin fer með löggæsluvald.
Þar af leiðir að jafnvel ef heimastjórnin hefði getað sannað að Hamasmeðlimirnir sem voru handteknir nýlega hafi ætlað að fremja vopnaðar árásir gegn Ísraelum, og að það gengi gegn hagsmunum almennings í Palestínu,þá væri hún samt í varnarstöðu.
Heimastjórnin er trygg fyrirmælum Oslóarsamkomulagsins (en það átti að gilda til 1999) og þeim öryggis, efnahags- og svæðislegum hömlum sem þar er kveðið á um, en telur um leið að skefjalaus útþensla landtökubyggðanna sé gróft brot á samkomulaginu.
Sérhver hryðjuverkaárás gyðinga (þar á meðal árásir á bændur og eyðilegging afurða þeirra) herðir snöru reiði og skammar um háls heimastjórnar Palestínu. Það er ómögulegt að spá fyrir hvenær og hvernig það mun gerast, en á einhverju stigi munu þessi reiði og skömm hafa áhrif í innbyrðis stjórnmálum Palestínu.
Stjórnvöld í Ísrael þykjast nú skyndilega full heilagrar vandlætingar vegna morðsins sem þau sjálf hvöttu til með því að koma ekki í veg fyrir fyrri hryðjuverkaárásir og refsa árásarmönnunum. Þetta gefur til kynna hversu mjög Ísrael vill í raun að heimastjórnin haldist óbreytt.
Amira Hass er fréttaritari ísraelska fréttablaðsins Ha’aretz á herteknum svæðum Palestínu, en greinin birtist þar 3. ágúst síðastliðinn. Hún er einnig höfundur bókanna Drinking The Sea at Gaza og Reporting From Ramallah: An Israeli Journalist in an Occupied Land. Þýðandi vill láta þess getið að faðir Alis er nú einnig látinn af sárum sínum.