Nú er komin upp sú furðulega staða hjá nokkrum leikskólum Reykjavíkurborgar að ekki verður fyllt í laus pláss sem eru til staðar. Ástæðan sem skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar gefur er að það sé vegna fjármagns og þar af leiðandi verða ekki tekin inn fleiri börn þetta árið. Borgarráð hefur einungis gefið leikskólum borgarinnar leyfi til að taka inn börn fædd í janúar og febrúar 2014 þrátt fyrir að mörg pláss séu laus.
Ég er móðir sem á 17 mánaða gamlan son fæddan í mars 2014 og er á bið eftir að fá leikskólapláss í Árbæ. Fyrirkomulag Reykjavíkurborgar á umsóknum um leikskólapláss eru á þann veg að í boði er að sækja um þrjá leikskóla. Ég hafði samband við leikskólastjóra nokkurra leikskóla og fæ að vita að sonur minn er númer tvö inn, á einum af þeim þremur leikskólum sem sótt var um. Jafnframt fékk ég þær upplýsingar að það væri nóg af lausum plássum hjá þeim en vegna ákvarðana borgarráðs þá fær hann ásamt fleirum börnum ekki inngöngu þetta árið.
Þetta er ekki einsdæmi þar sem fjöldi foreldra fær ekki pláss fyrir börnin sín í haust þrátt fyrir laus pláss. Þetta á við um leikskóla í Reykjavík jafnt sem leikskóla utan höfuðborgarsvæðisins og á landsbyggðinni. Foreldrar þurfa þar af leiðandi að hafa börnin sín hjá dagforeldrum sem þarf að treysta í blindni ásamt því að kostnaður er tvöfalt hærri heldur en að hafa barn á leikskóla. Hægt er að velta fyrir sér hvort það sé næg örvun fyrir þroska barna, sem eru langt gengin í tveggja ára aldurinn, að vera með til dæmis 9 mánaða gömlum börnum hjá dagforeldrum?
Ákvörðun borgarráðs er hreint út sagt óskiljanleg þar sem háværar raddir nokkurra aðila ráðsins heyrðust fyrir kosningar að brúa þyrfti bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Sóley Tómasdóttir ritaði í pistli sínum árið 2014 eftirfarandi:
„Það skiptir máli að hið opinbera axli ábyrgð á öllum börnum. Það er rugl að hið opinbera tryggi 6-9 mánaða fæðingarorlof, leikskóla frá tveggja til fimm ára og sinni svo fræðsluskyldu fram að 18 ára aldri en að tíminn frá því fæðingarorlofi sleppir þar til leikskólinn tekur við sé alfarið á ábyrgð foreldra.“
Sitjandi ríkisstjórn dró til baka frumvarp fyrri ríkisstjórnar um lengingu fæðingarorlofs sem er algjörlega óskiljanlegt þar sem fæðingarorlofskerfið er að hruni komið.
Fyrir hönd foreldra í sömu stöðu skora ég á ykkur að fylla leikskólapláss þetta árið. Jafnframt óska ég eftir svörum við eftirfarandi spurningum:
Hvaða ástæður búa að baki því að fylla eigi ekki leikskólapláss önnur en vegna „fjármagns“?
Á ekki að vera val foreldra hvort þau setji börn sín til dagforeldra eða á leikskóla ef um næg pláss eru að ræða?
Eiga barnafjölskyldur frekar að þurfa að greiða hærri kostnað fyrir daggæslu þrátt fyrir að leikskólar séu hluti af grunnþjónustu fyrir barnafjölskyldur?
Er skortur á börnum ástæða þess að ekki er hægt að fylla leikskólapláss til að hlífa stétt dagforeldra sem eru í raun verktakar?
Á að loka deildum, leikskólum eða segja upp starfsfólki á þeim leikskólum sem laus pláss eru til staðar?
Umræða á lokaðri grúbbu á Facebook um leikskólamál. Athugasemdir eru birtar með leyfi þátttakenda í spjalli:
A: Þetta er svo fáránlegt. Mín átti að komast inn á leikskólann sem mamma mín vinnur á. Það var svo öruggt miðað við að í fyrra komust yngri börn inn um haustið og það voru nóg pláss laus núna. Nú eru þau með laus pláss, eins og fleiri leikskólar, sem ekki má fylla og ég sem var heima með dóttur mína sem lengst (til að hún kæmist bara beint á leikskóla) þarf að setja hana á ungbarnaleikskóla í nokkra mánuði og borga tvöfalt þar! Bara til að láta hana skipta svo fljótlega og aðlagast öðrum leikskóla (vonandi eftir áramót)… Þetta gerir mig mjög reiða og bara endilega skrifa um þetta ef þú getur! Það er fáránlegt að fara svona með foreldra og börn, til að spara???
B: Mér finnst þetta fáránlegt! Mín flaug inn á leikskóla í Kópavogi og ég veit um yngri börn sem fengu pláss þar til að fylla í plássin.
C: Dóttir mín er nr. 2 á biðlista þar sem eg sótti um í fyrsta vali. Þar eru 12 laus pláss, búið að innrita jan. og feb. börn sem sóttu um. Leikskólastjórinn þar sagði að hún vissi ekki einu sinni hvort hún þyrfti að ráða starfsfólk eða reka, þetta er ömurleg staða …
D: Sama hér, sótti um leikskóla á Kjalarnesi (116 Rvk). Hann verður hálf tómur í haust en stelpan mín fær ekki pláss þar.
E: Þetta er svona í Hafnarfirði líka – nóg af plássum enn marsbörnin komast ekki inn nema það séu einhverjar sérstakar ástæður (t.d. „félóbörn“ eða börn með læknisvottorð).
F: Vissi ekki af þessu en er einmitt á biðlista eftir plássi á þremur leikskólum í Árbænum. Fékk bréf í síðustu viku þar sem ég fékk að vita að börn fædd eftir febrúar 2014 væru ekki í forgangi og kæmust í versta falli inn í mars á næsta ári … sem ég skil ekki alveg því syni mínum var tryggt pláss hérna í Danmörku frá 6 mánaða aldri og hann er búinn að vera á vuggestue frá 13 mánaða aldri. En núna erum við að flytja heim og finnst mér því frekar spes að ekki sé hægt að tryggja börnum leikskólapláss á Íslandi.
G: Minn var að fá pláss í hfj (februarbarn). Þar er barn sem að er 14 mánaða sem var að byrja. Mamman er reyndar leikskóla kennari en byrjar EKKI að vinna fyrr en eftir áramót. Ég skil að það er forgangur en þegar aðilinn er ekki einu sinni að vinna? Þá allavega veit ég um 15 aðra foreldra/mæður sem þurfa 10x meira á plássi að halda.“
Greinar:
Af Brúarsmíði eftir Sóleyju Tómasdóttur
Grein í Vísi,Segir dagforeldrakerfið leið til að leysa óþolandi ástand eftir