Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Píratar nema land, með stefnu í sjávarútvegsmálum

$
0
0

Í gær lauk atkvæðagreiðslu um uppfærða stefnu Pírata í sjávarútvegsmálum. Nýja stefnan er mun yfirgripsmeiri en fyrri stefna sem snérist aðallega um að allur fiskur ætti að fara á markað og allar upplýsingar um viðskipti með kvóta ættu að vera aðgengilegar. Sá kjarni er þó rauði þráðurinn í nýju stefnunni. Helstu breytingarnar eru ítrekun á stefnu Pírata um nýja stjórnarskrá, að nauðsynlegt sé að taka upp auðlindaákvæðið, og að handfæraveiðar skuli gefnar frjálsar hverjum þeim sem kjósa að stunda þær til atvinnu.

Ályktunin er í níu hlutum og saman mynda þeir eina heild þar sem hver hluti styður og styrkir aðra hluta stefnunnar. Auðlindaákvæðið setur tóninn. Opinn markaður þar sem eigandi auðlindarinnar, íslenska ríkið fyrir hönd íslensku þjóðarinnar , býður upp aflaheimildir leggur grunninn. Allur fiskur á markað eru reglurnar. Aðgengi að upplýsingum, ákvæðið um samkeppnisstofnun, hafrannsóknastofnun og landhelgisgæsluna tryggir aðhald. Frjálsar handfæraveiðar gefa nýliðum, sjálfum sér til atvinnu, tækifæri.

Undirstaða, grunnur, reglur, aðhald og tækifæri.


Nokkrir miðlar hafa fjallað um þessa nýju samþykkt, að mestu leyti með nokkuð góðum árangri – en það er er samt gott að fara aðeins ýtarlega yfir stefnuna. Greinargerðin sem fylgir stefnunni útskýrir nánar hvern hluta fyrir sig. Til dæmis:

  1. Allar breytingar á aflamarkskerfinu eru gagnslausar án tryggðs eignarhalds þjóðarinnar. 34. grein stjórnarskránnar er grundvallarbreyting þjóðinni í hag.
  2. Útvegsmenn sjálfir, í gegnum virkan uppboðsmarkað, munu ráða hversu mikið útvegurinn borgar fyrir réttinn til að veiða. Þegar ríkið ákveður veiðigjöld hafa útvegsmenn og samtök þeirra gífurlega hagsmuni af því að þrýsta á stjórnvöld, hamast á almenningi með áróðri og skekkja bókhald sitt með ýmsum aðferðum til að stilla stöðunni þannig upp að útvegurinn líti út fyrir að vera illa greiðsluhæfur og rökstyðja þannig kröfur um lækkuð gjöld. Ef útvegurinn greiðir markaðsverð sem myndast á frjálsum uppboðsmarkaði á veiðiheimildum hvetur það útvegsmenn til að færa bókhald sitt í eðlilegt lag, sýna raunverulega rekstrarstöðu og mun leiða til eðlilegrar eiginfjármyndunar í greininni. Algert grundvallaratriði er að upphæð veiðigjalds myndist á uppboðsmarkaði. Þegar þannig er að málum staðið getur útvegurinn ekki haldið því fram að verið sé að oftaka gjöld af greininni því útgerðirnar bjoða einfaldlega ekki hærra en það sem atvinnugreinin rís undir. Ekki er síður mikilvægt að þegar veiðigjöld eru rýr í erfiðu árferði mun ekki vera hægt að áfellast útvegsmenn af þessari sömu ástæðu: greinin greiðir einfaldlega ekki meira en hún getur. Með þessum hætti verður sátt i þjóðfélaginu um veiðigjöld, hvort sem þau eru há eða lág frá ári til árs.
  3. Til að koma í veg fyrir markaðsmisnotkun og óheilbrigða verðmyndun á fiski og fiskafurðum skal öllum afla landað á fiskmarkað til vigtunar á vottuðum stöðum. Skal eftirlit vera með þeim hætti að erfitt reynist að skjóta sér undan kerfinu. Endurvigtunarleyfi útgerða skulu fjarlægð. Viðskiptatengsl vigtunaraðila við útgerð og aðra sem ættu hagsmuni af því að hagræða vigtun á að vera í algjöru lágmarki. […]
  4. Til að stemma af hvað kemur inn og hvað fer út af markaði skal tölfræði vera gerð opinber og öllum aðgengileg. Markmiðið með þessu ákvæði er að með auðveldum hætti verði hægt að fylgjast betur með hve mikið raunverulega kemur úr hafinu.
  5. Með frjálsum veiðum einstaklinga á handfæri skal stuðlað að nýliðun ásamt kærkominni búbót fyrir gjörvallt landið. Tilgangurinn er að hafa átyllu fyrir nýja aðila til að komast inn í útgerð án þess að þurfa að standa undir útgjöldum við leigu á heimildum. Skal þetta háð skynsamlegum takmörkunum á fjölda leyfa á einstakling, lögaðila og eftir tegundum báta.
  6. Störf Hafrannsóknastofnunar og ákvarðanir ásamt gögnum þeim til rökstuðnings skulu gerð opinber. Einnig skulu hagsmunaaðilar ekki hafa sæti í ráðgjafaráði stofnunarinnar og skal hagsmunapot víkja fyrir vísindum.
  7. Til að heilbrigð samkeppni geti átt sér stað þarf eftirlit innanlands sem utan þarf að tryggja að hver sá sem kýs geti keppt á heilbrigðum markaðsforsendum.

Þetta er stefna. Stefnu er hægt að útfæra á mismunandi hátt án þess að víkja frá stefnunni. Til dæmis hefur fólk velt fyrir sér hvernig er best að bjóða upp aflaheimildir og þar eru ýmsir möguleikar í stöðunni. Einn sá álitlegasti er að hægt sé að bjóða hlutdeild af sölu á markaði. Það myndi virka þannig að ég myndi bjóða kannski 30% af þeirri upphæð sem aflinn minn myndi seljast á, ef einhver myndi bjóða 31% þá myndi sá hinn sami vinna það uppboð. Það sem væri gott við þessa aðferð er að hún opnar markaðinn fyrir aðila sem eru ekki þegar með peningana né hvetur hún til lántöku eða ágiskana um vænt verð. Þessi aðferð myndi fylgja stefnunni alveg jafn vel og að bjóða upp heimildir þar sem greitt er fyrirfram.

Þegar ég hef rætt um þessa stefnu við ýmsa aðila er yfirleitt það fyrsta sem kemur upp, varðandi frjálsu handfæraveiðarnar, að hitt eða þetta fyrirtæki muni bara kaupa þúsund báta og moka öllu upp. Það er eðlilegur ótti en ástæðulaus því í stefnunni er skýrt tekið fram að „handfæraveiðar verði frjálsar þeim sem kjósa að stunda þær til atvinnu„. Hér er átt við einstaklinga, sjálfum sér til atvinnu. Í greinargerðinni er einnig skýrt tekið fram að þetta skuli háð skynsamlegum takmörkunum eftir tegund báta og þess háttar. Markmiðið er skýrt, ef þú vilt fara út á sjó og veiða fisk þá áttu að geta gert það, enda átt þú þessa auðlind jafnt og allir aðrir Íslendingar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283