Kvennablaðið fann þessar fallegu myndir á veraldarvefnum og við urðum að hafa upp á ljósmyndaranum og spyrja hann aðeins út í viðfangsefnið en það er hin margbrotna Melrakkaslétta. Við höfðum uppi á Gauki Hjartarsyni á Húsavík og spurðum hann nokkurra spurninga.
Hvar á Sléttu eru þessar fallegu myndir teknar teknar?
Myndirnar tók ég þegar ég var á ferð um Melrakkasléttu með félögum mínum s.l. laugardag. Stafalogn var á Sléttu og birtan afar falleg svo við stöldruðum við til myndatöku. Myndirnar eru teknar við Hraunhafnarvatn og Harðbak á norðausturhorni Sléttu. Gömlu íbúðarhúsin að Harðbak eru líklega nyrstu heillegu hús á meginlandi Íslands fyrir utan vitann á Hraunhafnartanga. Það vakti ekki hvað síst athygli okkar að jörð var snjólaus og þessi norðlægu stöðuvötn íslaus.
Þú ert byggingarverkfræðingur og starfar sem skipulags og byggingarfulltrúi Norðurþings? Ertu ekki á rangri hillu, þú sem ert svo góður ljósmyndari?
Mér finnst ljósmyndum afar gott áhugamál sem hefur enst mér um áratuga skeið. Ég eftirlæt hinsvegar öðrum að afla sér lifibrauðs á þeim vettvangi enda samkeppnin mikil.
Melrakkaslétta er ekki beinlínis í alfaraleið en ef þú ættir að ráðleggja ferðamönnum sem leggja leið sína þangað, hvað á Sléttu yrði þá fyrir valinu? Af hverju má maður ekki missa?
Það má yfir höfuð ekki missa af Melrakkasléttu og erfitt að gera upp á milli staða. Sjarminn við Sléttu felst ekki í miklum fjöllum, stórfenglegum fossum eða jarðhitasvæðum. Þarna eru að mínu viti einhver fallegustu strandsvæði landsins iðandi af lífi allt árið um kring. Fjöldi fallegra stöðuvatna er mikill. Rauðinúpur rís 73 m hár með nokkuð afgerandi hætti upp úr láglendri strönd Sléttunnar og er afar fallegur klettanúpur sem ber nafn sitt af fagurrauðum gjalllögum sem í honum eru. Þar er líflegt fuglabjarg og m.a. er þar að finna einhverja aðgengilegustu súlubyggð landsins. Gönguleið milli Núpskötlu og Grjótness um Rauðanúp er sérlega skemmtileg í góðu veðri. Af öðrum áhugaverðum stöðum má nefna tvo nyrstu tanga landsins, Rifstanga og Hraunhafnartanga, og svo auðvitað fallegt bæjarstæði Raufarhafnar.
Þú býrð á Húsavík þótt þú sért áhugamaður um Sléttu. Hvað er helst í fréttum á Húsavík? Allt með kyrrum kjörum eða…?
Það er svosem hefðbundið rólegt vetrarlíf á Húsavík sem stendur. Hinsvegar eru nú annasamir tímar hjá skipulagsfulltrúa Norðurþings vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Húsavík næstu árin. Þar er bæði um að ræða uppbyggingu iðnaðarsvæðis á Bakka, en einnig umtalsverða uppbyggingu í ferðaþjónustu.
Takk Gaukur, fyrir að deila með lesendum Kvennablaðsins þessum dásamlegu myndum!